Hollt og ljúffengt fyrir jólin
Ásdís Ragna Einarsdóttir verður í eldhúsinu hjá okkur að þessu sinni. Hún á afmæli viku fyrir jól og segist vera mikið jólabarn og alltaf sé mikil tilhlökkun á þessum árstíma. „Ég byrja nú yfirleitt að baka í byrjun desember og baka nú yfirleitt ekki margar tegundir af smákökum en alltaf eitthvað til að eiga fyrir heimilisfólkið og gesti og gangandi. Piparkökur er alltaf vinsælt að baka hjá börnunum og höfum við reynt að halda í þann sið að baka sjálf og mála piparkökur“.
Þá hittist einnig öll móðurfjölskylda hennar, fullorðnir og börn, og bakar hnetusmjörskökur hjá ömmu og afa hennar, enda séu þau bakarar með meiru. Þá segir Ádís sörurnar hennar mömmu sinnar líka ómissandi hluta af jólunum og þær séu í miklu uppáhaldi hjá sér. Undanfarin jól hafi henni fundist spennandi að prófa sig áfram með nýjar tegundir af heilsusamlegu konfekti og hollari útgáfum af smákökum sem séu nú ekki síðri en þessar hefðbundnu. „Það er nefnilega tiltölulega einfalt mál að skipta út hvítum sykri fyrir aðeins hollari sætu og eins að nota heilhveiti og grófara korn í sumum uppskriftum í staðinn fyrir hvíta hveitið.“
Jólahefðir fjölskyldunnar séu sennilega eins og gengur á flestum heimilum en í fyrsta skipti í ár ætlar Ásdís og fjölskylda að prófa að kaupa lifandi jólatré. Hún leggur áherslu á að jólin hafi í för með sér fleiri samverustundir með fjölskyldu og vinum, góðan mat, hvíld og útiveru, spilakvöld með börnunum og svo margt fleira skemmtilegt. Ásdís lætur fylgja með uppskrift að jólakonfekti og hafra- og hnetusmjörsklöttum.
Súkkulaði jólakonfekt
85% dökkt súkkulaði 1 pakki (t.d. Rapunzel)
French vanilla stevia (t.d. Now) 5-10 dropar
60 g íslenskt smjör
100 g fínt hnetusmjör
5-7 steinlausar döðlur
Smá möndlumjólk
Aðferð:
*Bræða súkkulaði og smjör saman og bæta steviu út í.
*Setja hnetusmjör, döðlur og möndlumjólk í matvinnsluvél þar til mjúkt eins og krem (meiri möndlumjólk ef þurfið að þynna).
*Hellið smá af súkkulaðiblöndu (ca 1-2 tsk) í botninn á konfekt- eða litlu muffinsformi og setjið í 5-10 mín inn í frysti eða kæli meðan stífnar.
*Takið út og setjið 1 tsk af hnetufyllingunni ofan á og svo annað lag af brædda súkkulaðinu.
*Hér er hægt að skreyta konfektið efst með gojiberjum eða t.d. pekanhnetum. Setja svo konfektform í frysti og tilbúið eftir 1-2 klst.
Hafra- og hnetusmjörsklattar
200 g smjör (kókosolía 2 dl)
140 g lífrænt hnetusmjör
160 g erythriol sykur
250 g haframjöl
200 g rúsínur
2 stór egg / 3 lítil
1 tsk vanilla
120 g fínt spelt
1 tsk matarsódi
1/2 tsk salt
- hita ofn í 180°C, bökunartími 15 mín
- bræða smjör, hnetusmsjör og sykur við lágan hita og taka svo af
- hræra eggjum og vanillu út í með sleif
- bæta rúsínum og haframjöli + öllum þurrefnum út í stóra skál og hræra
- búa til hæfilega stóra klatta og inn í ofn á bökunarpappír
VF/Olga Björt