Hollara að hreyfa sig úti en inni
Gunnþóra Ólafsdóttir fór í háskólanám 37 ára gömul og lauk doktorsprófi átta árum síðar
Gunnþóra Ólafsdóttir var alltaf á leiðinni í háskólanám að loknu stúdentsprófi um tvítugt en lét ekki verða af því fyrr en hún var orðin 37 ára. Hún lauk doktorsprófi í mannvistarlandfræði aðeins átta árum síðar og hefur undanfarin ár stýrt 14 manna alþjóðlegum hópi sem rannsakar áhrif náttúruupplifunar á heilsu og líðan. Meðal vísindamanna í hópnum var einn Nóbelsverðlaunahafi.
Gunnþóra ólst upp í Keflavík og lauk stúdentsprófi frá Verslunarskóla Íslands og var staðráðin í að fara í háskólanám en vissi þó ekki nákvæmlega hvað hún vildi leggja fyrir sig. „Það eina sem ég vissi eftir stúdentsprófið var að ég ætlaði ekki í hagfræði, viðskiptafræði eða markaðsfræði eins og flestir skólafélagarnir úr Versló. Mér fannst þó óþægilegt að vita ekki hvað ég ætlaði að verða þegar ég yrði stór. Þannig að ég skil vel ungt fólk í dag sem er í sömu sporum.“ Eftir stúdentspróf fór Gunnþóra að vinna sem flugfreyja og til stóð að hún færi í tungumálaskóla í Frakklandi. Þó gripu örlögin í taumana. Ekkert varð af Frakklandsferðinni, hún kynntist fyrrverandi eiginmanni sínum og þau byrjuðu að búa saman. Svo liðu árin. Þau hjónin eignuðust tvö yndisleg börn og byggðu saman upp fyrirtæki. Eftir að seinna barnið fæddist tók hún ákvörðun um að drífa sig í nám við fyrsta tækifæri. Hana langaði mest í læknisfræði eða lyfjafræði og aflaði sér upplýsinga um námið en komst að þeirri niðurstöðu að það yrði of krefjandi bæði fyrir sig og fjölskylduna. „Þá fannst mér meira en að segja það að fara í háskólanám. Ég var orðin 34 ára, farin að missa kjarkinn og var hrædd um að það yrði snúið að samræma fjölskyldulíf og nám. Ég var samt ekki sátt við að sleppa því að mennta mig, þurfti bara að hugsa smærra. Ég var lánsöm að njóta mikils stuðnings frá fjölskyldunni sem hvatti mig óspart.“
Arkimedesar-verðlaunin skiptu sköpum
Stuttu síðar sá hún auglýsingu frá Leiðsögumannaskóla Íslands og ákvað að sækja um. „Ég hafði alltaf kunnað vel við mig í ferðaþjónustunni og fannst þetta ágætis lending. Svo var þetta svo skemmtilegt. Við lærðum um náttúru Íslands og það hreinlega opnaðist fyrir mér ný sýn á landið, sérstaklega eftir að ég las jarðfræði og uppgötvaði hvað þetta er stórkostlega merkilegt land. Ég vann í tvö sumur við leiðsögn erlendra ferðamanna og fannst það frábær vinna. Á þeim tíma tók ég eftir hve vinsælir ferðamannastaðir voru farnir að láta á sjá vegna ágangs ferðamanna og mér fannst lítið gert til að sporna við þeirri þróun. Náttúran er jú auðlind íslenskrar ferðaþjónustu.“ Á þeim tíma var diplómanám í ferðamálafræði í HÍ auglýst en í náminu er meðal annars fjallað um þetta vandamál.“ Gunnþóra skráði sig í námið og fann um leið að þarna var hún á réttri leið. Eftir fyrstu önnina ákvað hún að fara í fullt nám og ljúka BS-námi í landfræði með áherslu á ferðamál. Meðfram náminu var henni boðið að aðstoða við rannsóknina „Þolmörk ferðamennsku á Íslandi” og í lokaverkefni sínu greindi hún félagsleg þolmörk ferðamennsku bæði í Landmannalaugum og á Lónsöræfum og bar svæðin saman. Niðurstöður lokaverkefnisins þóttu áhugaverðar og gaf Umhverfisstofnun það út sem skýrslu.
Gunnþóra hafði hugsað sér að fara í meistaranám að loknu BS-náminu en var þá hvött af einum kennara sinna til að senda inn tillögu að doktorsrannsókn í pottinn fyrir Arkímedesar-verðlaunin sem Evrópusambandið veitir og kennd eru við gríska stærð- og eðlisfræðinginn. Verðlaunin eru veglegur rannsóknastyrkur sem er hugsaður til að hvetja unga vísindamenn til að leggja fyrir sig rannsóknir á ákveðnu sviði og auðvelda þeim aðgengi að virtum háskólum og vísindamönnum. „Satt best að segja þá gerði ég mér engar vonir um að hljóta styrk en ákvað að sækja um því ég hafði engu að tapa.“ Skemmst er frá því að segja að Gunnþóra hlaut styrkinn árið 2003 og fékk í kjölfarið inngöngu í doktorsnám í mannvistarlandfræði við School of Geographical Sciences í Bristol háskóla á Englandi. „Ég var sú eina sem fékk styrkinn sem ekki hafði lokið meistaranámi og því var doktorsnámið þungt fyrir mig til að byrja með.“ Í doktorsnáminu vann Gunnþóra undir leiðsögn Paul Cloke, leiðandi fræðimanns á sviði ferðamennsku og samspili manns og náttúru, sem hafði þá nýlokið við rannsókn á náttúrutengdri ferðamennsku á Nýja-Sjálandi. „Það reyndist mikið gæfuspor fyrir „ungan“ rannsakanda að vinna undir hans stjórn. Ég kynntist glænýrri leið til að stunda landfræðilegar rannsóknir sem bauð upp á að beina athyglinni að núinu og greina hvað hefur áhrif á það. Þessi hugmyndafræði hefur haft mikla þýðingu fyrir rannsóknir í ferðamennsku sem hafa um nokkurt skeið verið gagnrýndar fyrir að gera lítið annað en að flokka áfangastaði, ferðamenn og þjónustu og finna athöfnum þeirra stað í stöðluðum líkönum. Í staðinn fyrir að hugsa ferðamennsku sem einn af þeim mýmörgu háttum sem við högum lífi okkar og leggja sig í líma við að skilja út á hvað hún gengur á hverjum stað og á hverjum tíma.”
Ákvörðun um Íslandsferðir tengdar streitu
Doktorsverkefni Gunnþóru gekk út á að rannsaka aðdráttarafl náttúru Íslands sem áfangastaður ferðamanna og hlutverk náttúrunnar í upplifun og líðan ferðafólks. „Við vitum að náttúran er megin aðdráttarafl Íslands, en ekki hvað felst í því eða hvernig menn í raun og veru nýta og upplifa náttúruna meðan á ferðalaginu stendur. Mig langaði líka að komast einhverju nær um þessa dásamlegu líðan sem fólk tengir við náttúruna.“ Til að rannsaka þetta slóst hún í för með breskum ferðamönnum sem ferðuðust um Ísland bæði akandi og gangandi. „Tilgangur rannsóknarinnar var að fá fram nauðsynlegar upplýsingar um eðli náttúrutengdrar ferðamennsku til að undirbyggja ákvarðanatökur til dæmis við uppbyggingu ferðamannastaða, rekstur og vöktun þeirra og miðar að sjálfbærri þróun náttúrutendrar ferðaþjónustu.”
Niðurstöðurnar voru í stuttu máli þær að ákvarðanir um að fara til Íslands tengdust líðaninni og þeim hugmyndum sem ímyndin af náttúru Íslands kallar fram í hugum fólks um hana. „Fólk var einfaldlega að leitast eftir að komast í betri líðan en þá sem einkenndi daglegt líf þeirra og fram komu ákveðnar vísbendingar um streitulosandi áhrif ferðalagsins og um hvaða aðstæður þurfa að vera á vettvangi til að fólki líði vel.“
Eftir að hafa varið doktorsritgerðina tók Gunnþóra að sér stundakennslu við Háskóla Íslands en fann fljótlega að meðfram henni myndi hún hafa sáralítinn tíma til að sinna rannsóknum. „Ég vildi gera aðra rannsókn sem væri sjálfstætt framhald af doktorsrannsókninni. Í höndunum var ég með vísbendingar um að aðdráttarafl náttúrunnar tengdist streitu í daglegu lífi og ég gat greint ákveðin hugsanamynstur hjá fólki í tengslum við vellíðan í náttúrunni sem mig langaði að rannsaka frekar. Þetta voru mikilvægar vísbendingar um annað og meira gildi náttúrutengdrar ferðamennsku og útivistar en skemmtun og frí, sér í lagi þegar maður hugsar til þess að streita er ein helsta heilsuvá 21. aldarinnar.“
Myndin er tekin á Snæfelli í einum af rannsóknarleiðangrum Gunnþóru. Ljósmynd/S.Vicary
Þegar Gunnþóra hafði tekið þá ákvörðun að rannsaka áhrif náttúrunnar á streitu sótti hún um styrki víða en fékk alltaf neitun. Hún ákvað að gefast ekki upp og fékk að lokum jákvætt svar frá rannsóknasjóði Lúxemborgar Fonds National de la Recherche Luxembourg og Háskólanum í Lúxemborg sem hýsti rannsóknina. Þá fóru hjólin að snúast. Ljóst var að til að mæla lífeðlisfræðileg áhrif náttúrunnar á streitu þurfti hún sérfræðinga á ýmsum sviðum í lið með sér. Félagsvísindin sem Gunnþóra hafði lagt stund á myndu ekki duga til ein og sér. Meðal þeirra sem slógust í hópinn var Elizabeth Blackburn sem hlaut Nóbelsverðlaun árið 2009 fyrir rannsóknir sínar í sameindalíffræði. „Það gekk ótrúlega vel að fá sérfræðinga í hópinn. Þetta eru alls 14 sérfræðingar frá 7 rannsóknastofnunum í 4 löndum; landfræðingar, sálfræðingar, líffræðingar, lífeðlisfræðingar, sjúkraþjálfari og læknir. Allt er þetta fólk með miklu meiri reynslu af rannsóknum en ég og það er ómetanlegt tækifæri fyrir mig að fá að vinna með þeim.“
Hópurinn rannsakaði hvort það hefði meiri streitulosandi áhrif að stunda hreyfingu í náttúrunni eða stunda sömu hreyfingu í líkamsræktarstöð. Einnig var rannsakað í fyrsta skipti hvort regluleg náttúruupplifun samhliða hreyfingu geti lengt litningaendana (telomera). „Litningaendar hafa það hlutverk að verja erfðaefni litningana. Þeir styttast erfðafræðilega með aldri en þó ekki línulega eða með jöfnum hraða – streita getur til dæmis hraðað hrörnunarferlinu. Búið er að staðfesta tengsl á milli stuttra litningaenda og allra helstu sjúkdóma sem herja á Vestræn samfélög nútímans eins og hjarta- og æðasjúkdóma, sykursýki og flestra tegunda krabbameina. Eins eru staðfest tengsl á milli þessara sömu sjúkdóma og streitu. Streita er jafnframt þekktasti orsakavaldur fyrir ótímabæra styttingu litningaenda,“ segir Gunnþóra.
Búið er að kynna hluta niðurstaðna rannsóknarinnar sem eru þær að náttúruupplifun samhliða reglulegri hreyfingu hafði jákvæðari/betri áhrif á viðhald litningaenda en regluleg hreyfing án náttúruupplifunar. Niðurstöðurnar gefa til kynna að útivist og náttúruupplifun samhliða reglulegri hreyfingu getur haft forvarnargildi og er mikilvægur þáttur til að tryggja góða (lýð)heilsu með því að sporna við hrörnun litningaenda í blóðfrumum mannslíkamans og þannig minnka áhættu á sjúkdómum og auka lífslíkur.
Gunnþóra slær þó þann varnagla að þessi rannsókn sé rétt byrjunin og að gera þurfi fleiri rannsóknir til að staðfesta niðurstöðurnar. „Við erum þar fyrir utan enn að vinna úr gögnunum og ætlum að kynna rannsóknina vel þegar henni lýkur. Vísindin þurfa að komast til skila til samfélagsins og ég vona að rannsóknir mínar eigi eftir að koma að gagni.“