Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Mannlíf

  • Höfnin byggir alla afkomu sína á minni bátum
    Grétar Sigurbjörnsson, hafnarvörður í Sandgerði.
  • Höfnin byggir alla afkomu sína á minni bátum
Laugardagur 1. febrúar 2014 kl. 09:38

Höfnin byggir alla afkomu sína á minni bátum

Mikil bræla frá því í haust erfið fyrir Sandgerðishöfn.

„Það hefur ekki verið hægt að róa neitt að ráði í langan tíma fyrr en síðustu 10 daga. Óvenjulega erfið tíð hefur verið síðan í haust. Það komu aldrei þessar hauststillur þar sem róið er kannski í þrjá til fjóra daga í einu og svo bræla,“ segir Grétar Sigurbjörnsson, verkefnastjóri Sandgerðishafnar, í samtali við Víkurfréttir. Hann segir ekki gott hljóð hafa verið í trillusjómönnunum, sérstaklega frá því í haust. „Við tökum ekki fram fyrir hendurnar á máttarvöldunum. Línubátarnir voru að skjótast út á milli lægða og róa bara grunnt og í land aftur.“


Lönduðu í Keflavík í staðinn

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Grétar segir að með tilkomu kvótans taki menn ekki ákvarðanir með að róa í vitlausum veðrum, það hafi breyst. En auðvitað geti menn alltaf freistast til þess, þetta sé atvinna þeirra. „Hérna í Sandgerði var mikið minni afli en haustin áður. Þetta hefur mikil áhrif hér því togararnir koma þá ekkert inn hér þegar það er brælutíð. Þeir fóru inn í Keflavík í hörðustu vestanáttunum í stað þess að landa hér.“ Mikil smábátaútgerð sé í Sandgerði og trúlega með þeim stærstu á landinu er varðar smábáta, sem komast ekki á sjó í svona tíð.


Stærri skip í Grindavík

Einnig segir Grétar þetta hafa gríðarleg áhrif fyrir hafnirnar sem slíkar. „Það koma engar tekjur inn á hafnirnar þegar svona er. „Í höfninni hjá okkur hafa oftast nóvember og desember verið stórir mánuðir og mikið af bátum en tíðin var bara þannig að það var svo ríkjandi vestanátt sem er versta áttin hér og í Grindavík. Munurinn á Sandgerði og Grindavík er svo sá að útgerðirnar og skipin eru miklu stærri í Grindavík og ólík útgerðarmynstur. Stórir línubátar landa þar einu sinni í viku og róa í öllum veðrum og stórir frystitogarar sem eiga sinn dag einu sinni í mánuði. Höfnin hér byggir alla afkomu sína á minni bátum.“


Bátar ílengdust fyrir norðan

Þá segir Grétar mynstrið orðið breytt hjá þessum minni bátum. Þeir séu kannski sex mánuði burtu úr heimahöfn. „Menn eru farnir að elta fiskinn út um allt land. Bátar hafa verið að róa fyrir norðan yfir sumartímann og komið hingað til mín í nóvember. Þeir ílengdust bæði fyrir norðan og austan. Núna voru þeir meira og minna fluttir yfir Holtavörðuheiðina til Akraness á vörubílum því þeir komust ekki fyrir Vestfirðina. Mikill kostnaður felst í flutningi og svo þarf stóra krana til að hífa þá upp á bílana,“ segir Grétar.


Skrautlegt hjá Nesfiski

Grétar hefur verið hafnarvörður í Sandgerði í fimm ár og man ekki eftir öðru eins. Stór hluti tekna hjá höfninni séu aðkomubátar sem landi þar því kvóti sé ekki stór hjá Sandgerðisbátum. „Nesfiskur er stór þáttur í rekstri Sandgerðishafnar sem er með stóra flota en þeir eru með litla báta líka og síðasti báturinn kom 10. janúar og var fluttur á bíl. Búið að vera skrautlegt hjá þeim.“

 

Bjartsýnir í eðli sínu
Grétar tekur þó fram að góð veiði og tíð séu búin að vera síðan 10. janúar. „Það hefur verið að lyftast brúnin á mönnum og þeir gleyma leiðindunum um sinn. Svo er besti tíminn eftir á línu. Um leið og loðnan kemur hér sópast hingað færabátar víða að.“ Svæðið úti fyrir Sandgerði sé mjög gjöfult og stutt að róa á mið. „Við verðum að líta björtum augum á bjartari tíma og vera bjartsýnir. Það er í eðli okkar, “ segir Grétar að lokum.

VF/Texti: Olga Björt. Mynd: Hilmar Bragi.