Höfðinglegar móttökur um borð í varðskipinu Þór
– Sjáið allar myndirnar!
Nemendur í málm- og vélstjórnarnámi við Fjölbrautaskóla Suðurnesja fengu á dögunum tækifæri til að skoða nýjasta varðskipið okkar Þór, en það var Georg Einir Friðriksson hjá Landhelgisgæslunni sem kom því til leiðar.
Til stóð að skoða skipið í Helguvíkurhöfn en þar sem ekki var pláss fyrir varðskipið í Helguvík ákvað Sigurður Steinar Ketilsson skipherra að sækja 20 manna hópinn með léttabát sem var mikið ævintýri.
Léttabáturinn gekk 32 mílur og vorum við síðan hífð um borð í varðskipið og sáum þá vel hvað okkar menn í gæslunni eru vel æfðir og fumlausir í öllu.
Áhöfnin tók vel á móti okkur um borð. Skipherra og stýrimenn sýndu okkur brúna og vistarverur sem eru í alla staði glæsilegar. Þeir Egill, Hjörtur og Ágúst tóku við okkur í vaktklefa vélarúms. Þeir ræddu við okkur um starfið, vélbúnaðinn og skipið. Síðan skoðuðum við vélarúmið en þar er mikill og fullkominn vélbúnaður.
Nemendur höfðu orð á hve margt var þar líkt og í vélarúmshermunum sem notaðir eru í námi þeirra í skólanum.
Þetta var mikil og góð upplifun fyrir okkur öll og fyllir nemendur eldmóði að sjá mögulegan starfsvettvang. Við þökkum áhöfninni á Þór kærlega fyrir móttökurnar, segir í pistli frá Fjölbrautaskóla Suðurnesja.