Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Hóf skipulagðar ferðir milli Grindavíkur og Bláa Lónsins
Fimmtudagur 10. apríl 2008 kl. 15:55

Hóf skipulagðar ferðir milli Grindavíkur og Bláa Lónsins

Nýtt ferðaþjónustufyrirtæki, Salty Tours, hóf störf í Grindavík fyrir skemmstu. Þorsteinn Gunnar Kristjánsson rekur fyrirtækið sem sérhæfir sig í áætlanaferðum á milli Bláa Lónsins og Grindavíkur. Fyritækið er einnig með samning við Grindavíkurbæ um áætlunarkeyrslu til móts við ferðir SBK á Höfuðborgarsvæðið.

„Það hefur lengi verið rætt um að fá eitthvað af ferðamannastraumnum sem fer í Bláa Lónið yfir til Grindavíkur,“ sagði Þorsteinn í samtali við Víkurfréttir. „Svo ákvað ég að taka af skarið. Hætti á sjó og byrjaði með ferðir frá Bláa Lóninu þar sem ég fer með gesti um bæinn og segi frá sögunni og þróun fiskveiða. Svo stoppum við í Salfisksetrinu í hálftíma áður en við förum aftur upp að lóni.“

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024


Verkefnið fer hægt af stað enda er tímafrekt að hasla sér völl í ferðamannaiðnaðnum. Þorsteinn segist þó hafa fengið ágætis viðtökur hjá stóru aðilunum í þessum bransa. „Þeir hafa trú á þessu verkefni t.d. hjá Kynnisferðum og Allrahanda, en það skiptir miklu máli að fólk sé búið að kynna sér þessar ferðir áður en það kemur á svæðið. Ég er annars mjög bjartsýnn. Það má segja að ég hafi hætt á sjónum að veiða þorsk og farið út í að veiða ferðamenn,“ segir Þorsteinn í léttum dúr.

Mynd: Þorsteinn við rútuna góðu utan við Saltfisksetrið í Grindavík