Hobbitarnir frá Sandgerði fagna tuttugu ára afmæli
„Ég var búinn að vera í bandi sem lagði upp laupana, hafði heyrt í Hlyni Þór syngja og spila og heyrði í honum, Hobbitarnir fæddust og hér erum við enn, tuttugu árum seinna,“ segir Sandgerðingurinn og tónlistarmaðurinn Ólafur Þór Ólafsson. Dúettinn kemur fram á Snúrunni í Sandgerði á fimmtudaginn og hljómsveitin spilar á Paddy's í Reykjanesbæ á Ljósanótt í næstu viku.
Ólafur var ekki gamall þegar hann byrjaði í tónlist og það er eins með hann eins og svo marga sem gefa sig á vald tónlistargyðjunni, það er erfitt að losna við bakteríuna.
„Ég lærði ungur á gítar og var í hinum og þessum bílsskúrshljómsveitum sem gutti. Árið 2004 var ég í hljómsveit sem dó drottni sínum, ég var með möppu fulla af ábreiðulögum og vildi halda áfram. Ég hafði heyrt í Hlyni Þór Valssyni sem er keflvískur Sandgerðingur, fannst hann flottur söngvari og eins spilaði hann á kassagítar og hafði samband við hann. Hlynur var til í að hitta mig og við prófuðum að renna í sum þessara laga. Við smullum vel saman, fengum fljótlega gigg í heimahúsi sem gekk vel og þar með byrjaði boltinn að rúlla.
Það var fyrrverandi eiginkona mín sem átti hugmyndina að nafninu Hobbitarnir, bæði voru Hringadrottinssögumyndirnar þarna í algleymi en svo litum við Hlynur kannski nett út eins og Hobbitar svo nafnið passaði vel. Fyrst vorum við bara tveir en svo bættust bassaleikarinn Pálmar Guðmundsson og Njarðvíkingurinn Ólafur Ingólfsson á trommur við og þá kölluðum við okkur Föruneytið og spiluðum mikið á Paddy´s en líka víðs vegar um landið. Giggin á Paddy´s á þessum tíma voru söguleg og efast ég um að hægt yrði að bjóða tónlistarfólki í dag upp á þá maraþonspilamennsku sem þarna var í gangi, við byrjuðum um miðnætti og vorum á fullu til að verða sex! Blessunarlega hefur þetta nú breyst í dag en ég hlakka mikið til að koma á Paddy´s á Ljósanótt, það er alltaf mjög gaman að spila þar.
Fyrir tæpum tíu árum síðan byrjaði dæmi í Sandgerði sem við Hlynur áttum þátt í að búa til, Snúran. Jónas og Hjördís sem reka tjaldsvæðið í Sandgerði, datt í hug að hengja upp snúrur á pallinum hjá sér svo gestir gætu hengt upp og þurrkað þvottinn sinn og hugmynd fæddist hjá Hlyni, að við myndum halda tónleika á þessum palli þar sem snúrurnar voru settar upp. Árin á eftir kom fleira tónlistarfólk að þessu og Snúran hefur fest sig í sessi. Veðurspáin er góð fyrir fimmtudaginn og við Hobbitarnir hlökkum mikið til að koma fram ásamt Daníel Hjálmtýssyni, Fríðu Dís og Soffíu Björg, sem öll ýmist búa eða hafa tengsl við Sandgerði.
Svo er ég líka hluti af rokkverkefni sem heitir Hljómsveitin R.H.B. (Rolf Hausbentner Band), þetta er hugarfóstur Pálmars bassaleikara. Bandið hefur verið að taka upp plötu sem kemur út á næstu dögum og við félagarnir í Hobbitunum komum þar vel við sögu. Útgáfutónleikarnir hjá RHB verði í Bergi, einum sal Hljómahallarinnar í Ljósanæturvikunni, n.t. á fimmtudagskvöldinu. “
Skilnaðarpartý og opin æfing
Hobbitarnir eða Föruneytið, hefur víða komið fram á þeim tuttugu árum sem hljómsveitin hefur verið til og oft var hljómsveitin pöntuð í brúðkaup, jafnvel skírn, því fyrstu kynni viðkomandi voru á dansgólfinu undir dúndrandi spilamennsku hljómsveitarinnar. Ný hugmynd fæddist.
„Ég held að við gætum komið með útsmogið markaðstrix og boðist til að spila þegar fólk skilur, auglýst skilnaðarpartý. Við höfum fengið mörg brúðkaupsgigg því brúðhjónin höfðu kynnst á balli með okkur og við höfum meira að segja leikið við skírn, foreldrarnir höfðu sömuleiðis kynnst á balli þar sem við spiluðum. Við gætum svo líka spilað í skilnaðarpartýinu fyrir þetta sama fólk.
Það er gaman að fagna tuttugu ára afmæli Hobbitanna, við Hlynur höfum mjög gaman að þessu og ég persónulega geri ekki ráð fyrir að losna við þessa tónlistarbakteríu úr mér enda engin ástæða til. Það er ofboðslega gefandi og gaman að standa á sviði og skemmta fólki með tónlist og í raun finnst mér allt við tónlist skemmtilegt, get talað endalaust um hana og vonast til að geta gert meira á næstunni eftir að ég er fluttur aftur til Sandgerðis. Ég var sveitarstjóri Tálknafjarðar frá 2020 en því lauk í sumar en eðlilega hægðist á tónlistargyðjunni á meðan ég var fyrir vestan. Það verður því gaman að hleypa henni meira á skeið og stefnum við Hlynur að því að gefa út nokkur lög áður en þetta ár er á enda. Annað sem við ætlum að gera er að halda opna æfingu og gefa fólki kost á að kíkja til okkar þar sem við rennum í minna þekkt lög. Við gerðum svipað þegar við spiluðum sem mest á Paddy´s, buðum fólki þá upp á að senda okkur óskir í gegnum Facebook og fluttum viðkomandi lag. Þetta var mjög skemmtilegt, inn á milli óvenjuleg lög fyrir okkur að taka, lög sem söngkona hafði t.d. sungið en við gátum útsett á okkar máta og létum vaða. Mjög skemmtilegt og við ætlum að gera fullt af einhverju svona á þessum tímamótum, bæði til að halda upp á samstarfið og ekki síst vináttu okkar Hlyns,“ sagði Ólafur að lokum.