Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Hobbitarnir blása til veglegra afmælistónleika
Þriðjudagur 10. nóvember 2009 kl. 13:37

Hobbitarnir blása til veglegra afmælistónleika


Fimm ár eru liðin frá því að trúbadoradúettinn Hobbitarnir steig fyrst á svið á Paddy’s í Keflavík. Frá þeim tíma hafa þeir félagar Hlynur Þór og Ólafur Þór spilað víða og eru þeir ósjaldan fengnir til að halda uppi fjörinu þar sem fólk á Suðurnesjum kemur saman til að skemmta sér.
 
Hobbitarnir  ætla að halda upp á 5 ára starfsafmælið sitt með stæl og leyfa þeim fjölmörgu sem hafa notið tónlistar þeirra að taka þátt í gleðinni. Því ákváðu þeir að halda afmælistónleika í Frumleikhúsinu í Keflavík þann 12. nóvember þar sem þeir spila uppáhalds lögin sín í bland við frumsamið efni. Þeir fengu trommuleikarann Ólaf Ingólfsson, bassaleikarann Pálmar Guðmundsson og hljómborðsleikarann Kristinn H. Einarsson í lið með sér og hafa undanfarnar vikur æft upp afmælisdagskrá sem verður flutt í Frumleikhúsinu.  Á lokasprettinum bættust svo þær Marína Ósk Þórólfsdóttir og Sigurbjörg Hjálmarsdóttir í hópinn, en þær munu aðstoða Hobbitana í nokkrum lögum auk gestasöngvarans Magna Freys.
 
Aðspurðir segja Hobbitarnir Hlynur Þór og Ólafur Þór að mikil vinna hafi farið í að undirbúa afmælið. Þeir segjast þakklátir öllu því fólki sem hafi aðstoðað þá við að koma tónleikunum á koppinn. Sérstaklega vilja þeir þakka Sandgerðisbæ sem hefur skotið yfir þá skjólshúsi á æfingatímanum. Hobbitarnir lofa skemmtilegu kvöldi á fimmtudaginn þar sem þeir blanda lögum sem þeir hafa spilað mikið gegnum tíðna saman við frumsamið efni og tónlist sem er í miklu uppáhaldi hjá þeim sjálfum. Þeir munu svo síðan halda afmælisgleðinni áfram á Paddy’s um helgina, en þar hafa þeir spilað einu sinni í mánuði síðustu fimm árin.
 
Tónleikarnir eru í Frumleikhúsinu í Keflavík fimmtudaginn 12. nóvember, sem fyrr segir. Húsið opnar kl. 20:00 og tónleikarnir hefjast stundvíslega kl. 21:00. Miðverð er kr. 1.000,-.
---

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Mynd - Hobbitarnir árið 2004, þá nýbyrjaðir að spila saman.