Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Hlynur sá ljósið í kennarastarfinu
Mánudagur 18. mars 2019 kl. 10:06

Hlynur sá ljósið í kennarastarfinu

STARFIÐ MITT

„Það er ótrúlega notalegt þegar nemendur koma til mín mörgum árum seinna til að þakka mér fyrir það sem ég kenndi þeim,“ segir Hlynur Þór Valsson, grunnskólakennari í Sandgerðisskóla en hann útskrifaðist sem grunnskólakennari árið 2011. Hlyn þekkja margir sem tónlistarmann en hann er einn af Hobbitunum, þar sem hann syngur og leikur á gítar ásamt félaga sínum Ólafi Þór.
 

Vildi vinna með fólk
 

„Ég var byrjaður í félagsráðgjafanámi en vantaði að vinna með náminu. Pétur Brynjarsson var þá skólastjóri í Sandgerðisskóla og fiskaði mig inn í kennslu. Það var þá sem ég sá ljósið. Ég vissi að ég vildi vinna með fólk og sá að sem kennari gæti ég haft góð áhrif miklu fyrr í lífi einstaklinga, á meðan þeir væru ungir og móttækilegri. Sem félagsráðgjafi myndi ég vinna með afleiðingar en mig langaði að vinna með vandamálið áður en það festist. Koma með jákvæð áhrif inn í líf einstaklings fyrr. Því yngra sem fólk er, því líklegra er að getað snúið hlutunum í betri átt,“ segir Hlynur Þór.
 

Kennir í Riddaragarði í dag
 

Eftir þessa reynslu af kennslu vildi Hlynur venda kvæði sínu í kross og hætti við að læra félagsráðgjafann og fór í kennaranám.
 
„Konan mín var að byrja í kennaranámi og ég kenndi hér í þrjú ár á meðan hún kláraði námið sitt. Þetta var krefjandi starf en börnin voru stórkostleg. Ég byrjaði fyrsta árið í fjarnámi en svo dembdi ég mér af fullum krafti í almennt kennaranám sem tók í allt þrjú ár á þessum tíma. Þegar ég kom aftur til starfa, búinn með kennaranámið, varð ég umsjónarkennari 6. bekkjar en fór svo fljótlega að taka við náttúrufræðikennslu í 5., 6. og 7. bekk. Hægt og rólega fór ég svo að taka að mér einstaklinga sem þurftu að komast í rólegra námsumhverfi sem við köllum Riddaragarð hér í þessum skóla. Í dag hef ég dregið mig út úr bekkjarkennslu og starfa í Riddaragarði sem verkefnastjóri í samstarfi við deildarstjóra stoðþjónustunnar. Við höfum unnið það vel með markmið Riddaragarðs að nemendum finnst gaman að koma þangað inn til þess að læra. Ég fer inn í kennslustofur og sæki þá nemendur sem þurfa stuðning, vel mér riddara eins og ég kalla þessa nemendur en ég er aðalriddarinn segi ég þeim. Nemendum finnst geggjað að koma í Riddaragarð sem segir mér að starfið okkar þar sé vel heppnað. Við viljum mæta hverjum nemanda þar sem hann er staddur hverju sinni. Ég flakka mikið inn í bekki, skima yfir hópinn, sæki þá sem eru skráðir dags daglega og tek með mér aukanemendur ef þarf. Einnig aðstoða ég kennara og kem með hugmyndir að leiðum sem hægt er að nýta í vinnu með nemendum.“
 

Mælirðu með kennaranámi?
 

„Ég er alltaf spenntur að koma í vinnuna. Þetta er samt krefjandi starf. Það gefur mér mikið að sjá litla sigra hjá hverjum nemanda. Ég get nýtt hæfileika mína í þessu starfi. Það er lausnamiðað og skapandi á sama tíma. Kennarastarfið getur verið andlega lýjandi. Ég tel áríðandi að kennarar hreinsi hugann eftir daginn og fái líkamlega útrás. Þú höndlar betur þetta starf með hausinn í lagi. Ég stunda sjálfur líkamsrækt og finn hvað það styrkir mig einnig í starfi og gefur mér úthald þar. Það er svo margt skemmtilegt í skólalífi nemenda eins og til dæmis þegar haldnar eru árshátíðir og aðrir viðburðir með þeim. Ég er tónlistarmaður og nýti þær hliðar af mér á þeim vettvangi. Það er alltaf þörf fyrir skapandi starfsfólk í skólanum. Já, ég mæli með kennarastarfinu þrátt fyrir að launin mættu vera hærri. Því er ekki að neita að það mætti meta betur þetta starf í launum. Ég veit að fólk þarf að hafa ástríðu fyrir þessu starfi. Við erum að sá fræjum sem oft skila sér mörgum árum seinna þegar við fáum til dæmis fyrrverandi nemendur í heimsókn og þeir þakka okkur fyrir. Það er ótrúlega notalegt þegar nemendur koma til mín mörgum árum seinna til að þakka mér fyrir það sem ég kenndi þeim.“
 
 
Ef þú hefur áhuga á að verða grunnskólakennari þá tekur námið fimm ár í Háskóla Íslands á Menntavísindasviði. Hægt er að velja um mismunandi námsleiðir. Sjá nánar á vefsíðu Háskóla Íslands: www.hi.is/menntavisindasvid
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024