Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Hlýddi Víði og tók sér páskafrí frá námi
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
mánudaginn 20. apríl 2020 kl. 08:45

Hlýddi Víði og tók sér páskafrí frá námi

Sigríði Erlingsdóttur, forstöðumanni Krabbameinsfélags Suðurnesja og stjórnmálafræðinema í HÍ, finnst gaman að elda góðan mat og hún elskar fisk – sérstaklega sushi.

– Hvernig varðir þú páskunum?

Ég ferðaðist innanhúss og hlýddi Víði, málaði nokkur húsgögn og naut samveru með börnunum mínum. Tók mér líka páskafrí frá náminu sem var notalegt.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

– Hvernig páskaegg fékkstu og hver var málshátturinn?

Ég lét mér nægja nr. 1 því það er nóg af páskaeggjum í kringum mig. Málshátturinn var: „Það er ekki glæpur að skipta um skoðun.“

– Hvaða aðferðir ertu að nýta til að eiga í samskiptum við fólk?

Fyrir utan hefðbundin símtöl þá er FaceTime mikið notað. Gott að geta séð í andlitin þar sem samverur hafa minnkað mikið. Svo er Zoom og Teams notað í háskólanum þar sem staðnám breyttist snögglega í fjarnám og fyrir fundi í vinnunni.

– Ef þú fengir bara að hringja eitt símtal í dag, hver fengi það símtal og hvers vegna?

Ætli ég myndi ekki hringja í dótturina. Við tökum FaceTime daglega og þá er bara best að halda í þá rútínu.

– Hvernig ertu að upplifa nýjustu tíðindi um að það muni jafnvel taka margar vikur inn í sumarið að aflétta hömlum vegna COVID-19?

Þetta eru mjög skrítnir tímar og ég held að það þurfi að fara varlega að aflétta hömlunum. Þríeykið er búið að standa sig frábærlega og ber ég mikla virðingu fyrir þeim. En þetta reynir á þolinmæðina að geta ekki farið á þá staði sem manni langar á og hitta vini og ættingja. Svo er þetta erfitt fyrir okkur golfara en tímabilið er að byrja og við erum vön að byrja með golfmótin á vorin þannig að það verður smá bið í það.

– Hvaða lærdóm getum við dregið af heimsfaraldrinum?

Við sjáum hvað við erum vanmáttug gagnvart slíkri ógn sem varla sést. Það er enginn eyland. Það er margt sem við lærum á svona tímum og ég held að við lærum að bera virðingu fyrir því sem við höfum og lærum að meta litlu hlutina.

– Ertu liðtæk í eldhúsinu?

Já, það er ég og finnst ekkert skemmtilegra en að elda góðan mat fyrir börnin mín og tengdabörn.

– Hvað finnst þér virkilega gott að borða?

Fiskur er í miklu uppáhaldi og þá sérstaklega sushi.

– Hvað var í páskamatinn?

Ég eldaði bláberjamarenerað lambalæri.

– Hvað finnst þér skemmtilegast að elda?

Það er mjög fátt sem mér finnst leiðinlegt að elda en ef ég ætti að velja eitt þá væri það eitthvað fiskmeti.

– Hvað var bakað síðast á þínu heimili?

Ég bakaði Rólómarengstertu með jarðaberum á páskadag. Krakkarnir eru hrifin af henni.

– Ef þú fengir 2000 krónur. Hvað myndir þú kaupa í matinn?

Sushi, ekki spurning.

– Hvað hefur gott gerst í vikunni?

Góðu fréttirnar eru að það eru færri að greinast með COVID-19 og fleiri að batna. Og svo er samtakamátturinn svo mikill hjá okkur Íslendingum og næstum allir hlýða Víði. Í dag fylgist maður með samfélaginu á netinu og það lyftir manni upp að sjá alla þessa samkennd og hjálpsemi í samfélaginu. Það má heldur ekki gleyma gríninu en það er margt sprenghlægilegt sem fólk er að gera en það er nauðsynlegt að hlægja líka og má ekki gleyma því á svona tímum.

– Hvað hefur vont gerst í vikunni?

Maður er með hugann hjá þeim sem misst hafa ástvini úr COVID-19 og þeim sem eru veikir.

Hvaða spurningu hefðir þú viljað fá að svara í þessu viðtali? Hver er spurningin og svarið við henni?

– Uppáhaldstilvitnun?
Einu mistökin eru þegar þú hættir að reyna.

MARGT FLEIRA Í FJÖLBREYTTUM 76 BLS. VÍKURFRÉTTUM VIKUNNAR