Hlustað á hafið
- Sumarsýning Byggðasafns Reykjanesbæjar
Föstudaginn 1. júní n.k. opnar Byggðasafn Reykjanesbæjar sumarsýninguna Hlustað á hafið í Duus Safnahúsum.
Sýningin er sú fyrri af tveimur sem sett verður upp á 40 ára afmæli safnsins og verður opin til 19. ágúst. Í nóvember verður síðan opnuð sérstök afmælissýning safnsins.
Sumarsýningin fjallar um náin tengsl sjómanna árabátatímans við hafið umhverfis Reykjanesið. Sýningunni er ætlað að veita örlitla innsýn í þann heim sem hafið var, stundum blítt og létt, en kannski oftar úfið og krafðist reglulega mannfórna. Íbúar þessa svæðis áttu allt sitt undir hafinu og því sem sjórinn gaf. Undir yfirborðinu var gullkistan sem sjómenn sóttu lífsviðurværið í, án auðugra fiskimiða nærri landi hefði svæðið trauðla haldist í byggð. Keflavík varð snemma kaupstaður og öll verslun byggði á útflutningi fiskafurða.
Formenn bátanna urðu að læra að hlusta á hafið og rýna í sjólag og skýjafar til að meta hvort óhætt væri að róa. Þeir sem fremstir voru í þessum fræðum kunnu svo vel á sjólagið, að þeir vissu nákvæmlega eftir breytileika þess hvar þeir voru staddir hverju sinni, þótt að svo dimmt væri að rétt sást út fyrir borðstokkinn. En jafnvel þótt sjávarhljóðið við ströndina hafi reynst mörgum öruggur veðurviti var sóknin á árabátum oft varasöm, ekki síst þegar róið var á vetrarvertíðinni.
Sýningarstjóri er Eiríkur P. Jörundsson, safnstjóri Byggðasafns Reykjanesbæjar.