„Hlupu naktir út í móa“
- eftir að þeir fréttu að uppselt væri í afmælisveislu Reynismanna. Þó enn hægt að kaupa miða á ballið.
Knattspyrnufélagið Reynir í Sandgerði var stofnað þann 15. september 1935 og fagnar því 80 ára afmæli um þessar mundir. Af því tilefni verður haldin glæsileg afmælisveisla í íþróttahúsinu í Sandgerði föstudaginn 28. ágúst.
Uppselt er í veisluna og komast færri að en vilja. Kvöldið endar svo á balli með Páli Óskari og að sögn kunnugra er Palli búinn að lofa því að þetta verði flottasta „show“ sem Suðurnesjamenn hafa upplifað og hafa þeir þó marga fjöruna sopið.
Seldir verða miðar eingöngu á ballið og er um afar takmarkaðan fjölda miða að ræða. Forsala á þessum miðum verður í Reynisheimilinu í kvöld frá kl. 20:00-22:00. Þar sem eftirspurnin og eftirvæntingin er langt umfram framboð mun hver og einn einstaklingur aðeins geta keypt 6 miða til að gæta fyllsta sanngirnis.
Þeir sem eiga miða í veisluna sækja sína miða einnig í Reynisheimilið í kvöld.