Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Hlökkum mikið til safnaðarstarfsins
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
þriðjudaginn 5. september 2023 kl. 06:02

Hlökkum mikið til safnaðarstarfsins

Vetrarstarfið er við það að fara í gang í kirkjum landsins og í Njarðvíkursókn hafa verið lögð drög að því starfi sem framundan er. Víkurfréttir hittu organistann Rafn Hlíðkvist og Höllu Marie Smith, sem sér um barna- og ungliðastarfið í Njarðvíkursókn, og þau sögðu frá starfinu sem er framundan í söfnuðinum.

Rafn Hlíðkvist hefur hefur verið ráðinn organisti Njarðvíkursóknar og er nýtekinn við starfinu. Hann gegnir einnig stöðu tónlistarstjóri kórs Njarðvíkurkirkju en Rafn hefur m.a. stjórnað kórnum Vox Felix við góðan orðstír.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Rafn segir að hann hlakki mikið til starfsins og hefur þegar hafist handa við að fá fólk í kórastarfið. „Kóræfingar eru hafnar og verða opnar eitthvað áfram, allir velkomnir að kíkja og prófa að vera með. Æfingarnar verða í Ytri-Njarðvíkurkirkju á milli klukkan sjö og níu á fimmtudagskvöldum,“ segir kórstjórinn og bætir við að allir séu boðnir velkomnir.

Rafn lærði píanóleik en hann er viðbúinn lærdómsríkum og skemmtilegum tíma sem organisti í Njarðvíkursókn.

Margt spennandi framundan í kirkjunni

Þau Halla og Rafn segja að margt muni vera á döfinni í vetur. „Á miðvikudögum kl. 10:30–12:00 verða tímar í safnaðarheimilinu Innri-Njarðvík sem við köllum Krílakrútt og eru fyrir ung börn sem eru ekki byrjuð á leikskóla og forráðamenn þeirra,“ segir Halla. „Þar verður boðið er upp á smá veitingar og við njótum þess að vera saman með börnunum en auk þess verður af og til boðið upp á fræðsluerindi. Krílakrútt er þegar farið af stað og það kostar ekkert að taka þátt. Við erum líka með Facebook-síðu sem heitir Krílakrútt.

Svo verður fyrir börn tólf ára og yngri í Ytri-Njarðvíkurkirkju (nýrri kirkjan) á sunnudögum kl.12:30–13:30. Við byrjum 10. september og forráðamenn eru að sjálfsögðu velkominn með börnunum. Við syngjum saman nokkur sígild sunnudagaskólalög, brúðurnar Rebbi og Músapési koma í heimsókn og við heyrum biblíusögu. Eftir stundina förum við inn í safnaðarheimili þar sem við getum litað, föndrað og fengið okkur eitthvað gott í gogginn áður en haldið er heim.“

Halla hefur yndi af því að vinna með börnum og unglingum í kirkjustarfinu. Hér er hún með brúðunni Rebba sem krökkunum finnst sérstaklega skemmtilegur.

Rafn segir að það séu fleiri hlutir í gangi í kirkjunni. „Það eru t.d. Vinavoðir en þar prjóna þátttakendur og hekla bænasjöl sem er síðan dreift út í samfélagið. Vinavoðir eru á þriðjudögum kl. 11–14 í Ytri-Njarðvíkurkirkju,“ segir hann.

„Þar eru líka haldnir AA-fundir alla miðvikudaga kl. 20:00 og svo er fermingarfræðslan að fara af stað hjá okkur. Skráning er í fullum gangi á vefsíðunni okkar, njardvikurkirkja.is,“ sögðu þau Rafn og Halla að lokum og bæta við að verið sé að skipuleggja enn fleiri viðburði í kirkjunum.

Músapési vildi fá að spila með Rafni á píanóið.