Hljómsveitin KuVenda hjá Jazzfjelagi Suðurnesjabæjar
Hljómsveitin KuVenda leikur hjá Jazzfjelagi Suðurnesjabæjar fimmtudaginn 13. október kl. 20:00. Tónleikarnir fara fram á bókasafni Suðurnesjabæjar.
KuVenda er fjölþjóðlegt samstarf milli íslenska gítarleikarans Andrésar Þórs, slóvakíska víbrafónleikarans Miro Herak, hollenska trommuleikarans Vinsent Planjer og ítalska bassaleikarans Andrea Caruso. Kvartettinn gerir út frá Hollandi og var stofnaður í ágúst 2019 og kom fyrst fram á Jazz in de Gracht jazzfestivalinu í Den Haag í Hollandi það ár. Andrés, Miro og Vinsent hafa allir starfað lengi saman í ýmsum verkefnum frá því þeir voru sjálfir við nám í Konunglega Conservatoríinu í Den Haag í kringum árið 2000 og fyrir þetta verkefni fengu þeir sér til fulltingis ítalska bassaleikarann Andrea Caruso. Tónlist KuVenda blandar saman hinum opna hljóm evrópska nýdjassins, lýrískum hljóðmyndum norrænnar djasstónlistar og hrynkrafti byggðum á breiðum áhrifum ýmissrar samtímatónlistar og tónlistarstíla. Fyrsta útgáfa KuVenda er EP platan Step One sem er aðgengilega á öllum streymisveitum.
Aðgangur er ókeypis | Tónleikarnir hefjast kl.20:00
Jazzfjelagið er styrkt af Sóknaráætlun Suðurnesja, Menningarsjóði Suðurnesjabæjar, Félagi íslenskra hljómlistarmanna og Samkaup.