Hljómar rifja upp sporin í Stapa
Bítlabærinn Keflavík hefur alið af sér marga af fremstu tónlistarmönnum landsins en varla er á neinn hallað þegar sagt er að Hljómar standi þar fremstir í flokki. Um þessar mundir heldur hljómsveitin upp á 40 ára starfsafmæli sitt og hefur af því tilefni efnt til stórsýningar sem enginn sannur tónlistarunnandi má missa af. Blaðamaður Víkurfrétta hafði samband við Gunnar Þórðarson til að fræðast um þennan merkilega viðburð.
Í hverju felst sýningin?
Við erum að kynna nýju plötuna okkar þannig að við munum spila lög af henni í bland við gömlu lögin sem allir þekkja. Við verðum með fimm aukahjóðfæraleikara okkur til trausts og halds á sýningunni, en þannig finnst okkur við koma lögunum betur til skila til áhorfenda. Fyrst verður spilað undir borðhaldi fyrir um 270 til 280 manns en eftir það, um hálf tólf, verður húsið opnað fyrir öðrum gestum og hefðbundinn dansleikur tekur við þar sem sérstakir leynigestir stíga með okkur á svið.
Hvar er sýningin sett upp og hvenær hefjast sýningar?
Hún verður í Stapa og verður frumsýnd 4. október og svo verða tvær aðrar sýningar þann 11. og 18. Við erum farnir að æfa uppi í Stapa og rifja upp sporin!
Hafið þið verið að spila mikið undanfarið?
Já, við erum búnir að spila um allt land í sumar til að kynna nýju plötuna okkar fyrir fólki, en hún kemur einmitt út á frumsýningardaginn 4. október. Þá eru næstum 40 ár upp á dag frá því hljómsveitin hélt sína fyrstu tónleika þann 5. október 1963.
Er enn jafn gaman að spila með strákunum eftir allan þennan tíma?
Já já, þetta er aðeins öðruvísi en í gamla daga. Maður er ekki eins blautur á bak við eyrun en þetta er mjög skemmtilegt og góður andi í hópnum. Svo er líka skemmtileg tilbreyting að stækka bandið með aukahljóðfæraleikurunum.
Lofið þið ekki rífandi stemmningu?
Jú, svo sannarlega. Það verður rífandi stemmning enda hef ég heyrt af miklum áhuga víðar en hér suðurfrá, til dæmis í Reykjavík og víðs vegar um landið. Við vonumst auðvitað til að sjá sem flesta en sérstaklega Keflvíkinga, Njarðvíkinga og fleiri nærsveitarmenn.
Er ekki hætt við að færri komist að en vilji?
Jú, vissulega en ef eftirspurnin verður það mikil verður slíkt athugað þegar að því kemur.
Það er næsta víst að enginn verður svikinn af þessu einstaka tækifæri fyrir eldri kynslóðina til þess að upplifa gömlu Hljómastemmninguna og fyrir yngra fólkið að kynnast einni ástsælustu hljómsveit okkar Íslendinga frá upphafi.