Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Mánudagur 24. nóvember 2003 kl. 13:53

„Hljómar á heimavelli“ í Keflavíkurkirkju

Þegar fjallað var um áhrif keflvískra tónlistarmanna á íslenska tónlist 19. okt. s.l. þá fannst mér ástæða til að nefna hljómsveitina HLJÓMA, án þess að ég væri með því að halla á aðra frábæra tónlistarmenn, sem rekja ættir sínar til Keflavíkur, t.d.  Magnús Kjartansson, sem samdi verðlaunalag Ljósanætur í haust um Ljóssins engla og er sungið af Rut Reginalds. 

Valgeir Guðjónsson, hljómlistarmaður, tónskáld og textahöfundur, sem á keflvíska ömmu og því 1/4 Keflvíkingur, að eigin sögn, gaf mér skýringu á því hvers vegna hljómsveitin Hljómar hefði náð svo skjótum vinsældum fyrir fjörutíu árum. Þeir áttu þess kost að hlusta á útvarpsstöðina á Keflavíkurflugvelli og tileinka sér nýjungar í tónlist. Þeir fengu sína þjálfun hér suður með sjó og þegar þeir komu á höfuðborgarsvæðið þá slógu þeir í gegn.

Eins og ykkur er kunnugt koma Hljómar nú aftur, fjörutíu árum eftir fæðingu sveitarinnar, frægð og frama félaganna á öðrum vígstöðvum, eins og segir í auglýsingu, og gera öllum á óvart nýja plötu og án efa þá bestu. Tólf sterk lög, sem bjóða upp á það besta úr smiðju Hljóma, þar sem fara saman fegurstu ballöður, frábærar raddsetningar og feitt rokk og þeir eru enn að mati aðdáenda, - langflottastir.
Lítið dæmi um áhrif keflvískra tónlistarmanna á íslenska tónlist. Mér finnst sérstök ástæða til þess að þakka þeim fyrir hve jákvæð áhrif tónlist þeirra hefur haft á uppvaxandi kynslóð. Og með góðri endurkomu sinni nú eyða þeir öllum aldursfordómum.

Kirkegård sagði eitt sinn að tónarnir næðu þangað sem sólargeislarnir berast ekki. Það sýnir okkur mikilvægi tónlistarinnar, hvort sem hún er dægurtónlist, klassísk eða af þjóðlegum toga. Það er engin þörf á að færa sönnur á að tengsl séu milli tónlistar og kirkju eða tónlistar og trúar. Það liggur í augum uppi allt frá fyrstu öldum kristninnar og fram á þennan dag. Gunnar Þórðarson hefur t.d. samið tónlist um Heilaga messu og sorgina, að mig minnir eftir snjófljóðin á Vestfjörðum. Rúnar Júlíusson samdi eitt sinn, texta um Krist, "Hann fór um fjöll", við Pílagrímakórinn, sem var afar vinsælt, en bannað á sínum tíma. Í dag dytti engum í hug að banna það lag. Hljómsveitin HLJÓMAR  leikur í Keflavíkurkirkju  30. nóv. og 7. des. n.k. fyrsta og annan sunnudag í jólaföstu kl. 20:30. Þeir koma fram ásamt Kór og Barnakór Keflavíkurkirkju sem syngja undir stjórn Hákonar Leifssonar, organista og kórstjóra kirkjunnar. Allir eru velkomnir meðan húsrúm leyfir. Jólasveiflunni verður endurvarpað yfir í Kirkjulund í bæði skiptin.

Ólafur Oddur Jónsson
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024