Hljómahöllin orðin eins árs
Viðtökur framar björtustu vonum.
Í gær var ár síðan að Hljómahöll í Njarðvík, Reykjanesbæ, var opnuð formlega og segir á síðunni þeirra að árið sé búið að vera viðburðarríkt og skemmtilegt og starfsfólkið sé afar þakklátt öllum þeim sem sótt hafa viðburði í húsinu, kíkt á Rokksafnið og nýtt sér sali Hljómahallar á þessu fyrsta rekstrarári. Viðtökurnar hafi farið fram úr þeirra björtustu vonum og hafa um 30 þúsund manns sótt safnið.
Meðal viðburða sem hafa verið undanfarið ár eru tónleikar þekktustu listamanna landsins, uppistönd skemmtilegustu skemmtikrafta landsins og einkasafn Páls Óskars. Uppselt hefur verið á fjölda viðburða. Rokksafnið sækja ekki bara landsmenn heldur ferðamenn hvaðanæva úr heiminum. Safnið hefur trónað nú efst á lista yfir viðkomustaði í Reykjanesbæ á ferðasíðunni TripAdvisor.com.
Meðfylgjandi myndir eru frá opnun Hljómahallar.