Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Hljómahöll 10 ára
Fimmtudagur 4. apríl 2024 kl. 12:56

Hljómahöll 10 ára

Bítlabærinn og Hljómahöll

Fréttir bárust af því í mars 2004 að komin væri fram hugmynd um að byggja tónlistar- og ráðstefnumiðstöð við Félagsheimilið Stapa í Ytri-Njarðvík. Árni Sigfússon, bæjarstjóri  Reykjanesbæjar, kynnti hugmyndina á íbúafundum sem haldnir voru víðsvegar um sveitarfélagið. Fram kom að gert væri ráð fyrir að Tónlistarskóli Reykjanesbæjar yrði þungamiðja starfseminnar í húsinu og að þar ætti að vera aðstaða fyrir kóra og tónlistarhópa. Jafnframt var gert ráð fyrir að poppminjasafnið fengi aðstöðu í byggingunni. Samkvæmt fréttum voru eigendur Stapans áhugasamir, en Reykjanesbær átti á þeim tíma 33% í húsinu, sem höfðu fylgt með þegar sveitarfélögin á svæðinu voru sameinuð undir nafninu Reykjanesbær. 

Þessi hugmynd var kynnt til að fá viðbrögð sem flestra á svæðinu um stofnun eignarhalds- og rekstrarfélags um þessa framkvæmd. Það var tekið skýrt fram að enn hefði ekki verið tekin nein ákvörðun varðandi byggingu tónlistar- og ráðstefnumiðstöðvar í bænum. Hugmyndin fékk yfirleitt góðar viðtökur meðal bæjarbúa og fannst mörgum þetta vera spennandi hugmyndir. 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Tillaga um að ganga til samninga við Eignarhaldsfélagið Fasteign ehf. var samþykkt í bæjarstjórn með atkvæðum fulltrúa Sjálfstæðisflokksins en fulltrúar A-lista greiddu atkvæði á móti. Bæjarráð Reykjanesbæjar gekk til samninga við Fasteign um að hefja undirbúning og framkvæmd við endurbætur á félagsheimilinu Stapa í september 2007. Fram kom í fréttum að kostnaður vegna fyrirhugaðra framkvæmda við byggingu fyrir tónlistarskóla og poppminjasafn væru áætlaðar 1,5 milljarður. Reiknað var með að drífa verkið af og taka bygginguna í notkun eftir tvö ár. Einnig kom fram að byggingin fengi nafnið Hljómahöll. Þess var getið að nafnið tengdist ekki hinni frægu keflvísku bítlahljómsveit Hljómum. Greint var frá því að Tónlistarskóli Reykjanesbæjar fengi fullkomið kennsluhúsnæði og að gert væri ráð fyrir góðri tónleika- og upptökuaðstöðu í húsinu. Margir höfðu áhyggjur af því að Stapanum yrði fórnað en fram kom að endurbæta ætti Stapasalinn og koma öllu húsnæðinu í nútímalegt horf þannig að það gæti áfram þjónað sem best því hlutverki að vera félagsheimili sveitarfélagsins og fallið að nýjustu kröfum. Það eina sem ætti að rífa var viðbygging sunnan við húsið þar sem Fjörheimar höfðu aðsetur og að sú starfsemi færðist í annað hús. Böðvar Jónsson sagði frá því að koma ætti poppminjasafninu fyrir í viðunandi framtíðarhúsnæði og að í byggingunni væri gert ráð fyrir ráðstefnuaðstöðu fyrir minni og millistórar ráðstefnur. Ragnar Atli Guðmundsson hélt um alla þræði hjá Fasteign sem var í rauninni framkvæmdaaðili byggingarinnar.

Allt klárt fyrir árshátíð í Stapa.

Undirbúningur

Undirbúningshópur vann að þarfagreiningu fyrir nýja húsið. Reiknað var með að skólinn rúmaði 600 nemendur og að poppminjasafnið fengi veglegt rými í húsinu. Farið var í könnunarferðir til annarra landa til að skoða hvernig poppsöfn voru uppbyggð og síðan var hafist handa við skipuleggja og hanna húsið. Guðmundur Jónsson, arkitekt í Noregi, sem hafði m.a. hannað Víkingaheima, teiknaði hina nýju Hljómahöll. Guðmundur var með mikla reynslu í hönnun menningarhúsa á Norðurlöndunum og lagði m.a. fram mjög áhugaverðar hugmyndir um það hvernig nýta mætti stafræna og gagnvirka tækni á fjölbreyttan hátt. Hugbúnaðarfyrirtækið Gagarín var ráðið til að vinna að þeim hluta og THG arkitektar höfðu umsjón og eftirlit með öllum framkvæmdum við húsið. Sá sem hélt utan um það verkefni var Samúel Guðmundsson, byggingatæknifræðingur. Verkefnisstjóri af hálfu Reykjanesbæjar var Haraldur Árni Haraldsson, skólastjóri Tónlistarskóla Reykjanesbæjar. Framkvæmdir hófust í febrúar 2008 og átti að vera lokið í júní 2009 samkvæmt upphaflegri áætlun. Verktakafyrirtækið Atafl fór með aðalverktöku og umsjón með einstökum verkhlutum og undirverktökum. Þeir sáu einnig um að ráða verktaka til að sinna mismunandi verkþáttum.   

Meðal þeirra sem voru í undirbúnings- og hugmyndahópi Hljómahallar, sem hittist reglulega á fundum, voru Jakob Frímann Magnússon og Rúnar Júlíusson, einn helsti hvatamaður þessa verkefnis. Jónatan Garðarsson var ráðinn til að skrásetja poppsöguna og vinna þá texta sem setja átti upp í væntanlegu safni og gera drög að fyrstu sýningu safnsins. Rúnar og Jónatan unnu náið saman á þessu stigi og Björn G. Björnsson kom fljótlega inn í hópinn. Björn var ráðinn til að skipuleggja sýninguna sjálfa og setja hana upp, enda þaulvanur slíkri vinnu. Þegar Rúnar lést skyndilega í desember 2008 voru hann og Jónatan í miðjum klíðum að undirbúa söfnun poppmuna og minja. Andlát Rúnars var reiðarslag fyrir alla en sannfærði þá sem að verkinu unnu um að ekki mætti láta deigan síga heldur halda minningu Rúnars á lofti með því að klára verkið og koma poppminjasafninu í Hljómahöllina. 

Þetta var ekki eina áfallið. Efnahagshrun dundi yfir hinn vestræna heim haustið 2008 með þeim afleiðingum að íslenska bankakerfið riðaði til falls. Þetta setti allt á annan endann og óvissan um framhaldið var mikil. Þrátt fyrir það var ákveðið að halda áfram en draga seglin saman og einfalda verkefnið eins og kostur var án þess að tapa nokkru af heildarmyndinni. Þessi óvænta staða varð til þess að ákveðið var að endurskoða framkvæmda- og kostnaðaráætlun byggingarinnar.

Hljómahöll í byggingu.

Hönnun og hugmyndavinna

Á upphafsstigum verkefnisins var rætt um að hafa rúmgóðan kjallara undir öllu húsinu, en vegna mikils kostnaðar við þá framkvæmd var fallið frá hugmyndinni. Þegar undirbúningshópurinn skoðaði erlend poppsöfn vakti það athygli hversu mörg þessara safna voru með lokuð gluggalaus rými þar sem auðvelt var að vinna með gagnvirkt margmiðlunarefni. Það var eitt af því sem arkitektinn Guðmundur lagði mikla áherslu á í sinni hugmyndavinnu. Rætt var um það fram og aftur hvort hægt væri að útbúa heilmyndir (hologram) af Hljómum og gefa fólki kost á að taka þátt í tónlistarflutningi og fá síðan upptöku af flutningnum til að taka með sér heim. Þessi og fleiri ámóta hugmyndir voru settar til hliðar og hafist handa við að endurhugsa sýninguna og skipulag sýningarsvæðisins. Þetta leiddi til þess að lögð var áhersla á að poppminjahlutinn fengi sýningaraðstöðu á torgi í miðju hússins. Lögð var áhersla á að nýta það rými eins vel og kostur var án þess að leggja í of mikinn kostnað.

Vorið 2009 var greint frá því að reikna mætti með því að kostnaður við byggingu Hljómahallar myndi hækka í 2 milljarða úr 1,5 milljörðum vegna hækkandi byggingarvísitölu. Fjármögnun verksins reyndist erfiðari en upphaflega var ráðgert og ákveðið að fresta nokkrum verkþáttum. Hægt var á framkvæmdum þar til þær voru alveg stöðvaðar. Stapasalurinn var enn nothæfur í því ástandi sem hann hafði verið áður en til framkvæmda kom og þar voru haldnar skemmtanir, óperusýningar og sitthvað fleira á árunum 2010 til 2011. 

Þegar framtíðarsýn Reykjanesbæjar var kynnt á bæjarstjórnarfundi í febrúar 2012 kom fram að stefnt væri að því að ljúka framkvæmdum við Hljómahöllina og taka hana í notkun að fullu árið 2014. Áætlunin gerði ráð fyrir að hægt væri að ljúka framkvæmdum í þremur áföngum. Fyrsta stigið var að ljúka við Stapasalinn og taka hann í notkun 2012, síðan átti að klára tónlistarskólahlutann 2012-2013 og poppminjahlutann 2013-2014.

Þessi áætlun gekk upp. Árið 2013 var skipuð sérstök stjórn Hljómahallar sem í sátu Kjartan Már Kjartansson, formaður, Inga Birna Ragnarsdóttir, Kamilla Ingibergsdóttir, Valgerður Guðmundsdóttir og Kjartan Þ. Eiríksson. Fyrsta verk stjórnarinnar var að ráða Tómas Young sem framkvæmdastjóra.  

Breyttar áherslur, minna rými og annars konar nálgun poppminjahlutans kallaði á nýja hugsun og öðruvísi lausnir en upphaflega var lagt upp með. Ákveðið var að skera allan texta verulega niður, falla frá margmiðlunar- og gagnvirkni hlutanum og finna aðrar lausnir sem gætu átt við í því rými sem húsnæðið bauð upp á eftir breytingarnar. Þetta þýddi að það þurfti að velja og hafna, leggja áherslu á tímalínu, flæði atburða og meginþætti íslenskrar poppsögu. Nauðsynlegt var að sleppa mjög mörgu og treysta á að meginþættir skiluðu sér þrátt fyrir það. Mesta vinnan fór í að velja og hafna og finna jafnvægi sem hægt væri að una við. Unnið var að miklum krafti við að koma öllu heim og saman og það tókst með hjálp fjölmargra aðila og jákvæðu hugarfari.

Fyrsta skóflustunga að Hljómahöllinni í Reykjanesbæ var tekin 26. janúar 2008. Það voru þau Ragnheiður Skúladóttir, tónlistarkennari, Böðvar Jónsson, formaður bæjarráðs, og Rúnar Júlíusson, tónlistarmaður, sem tóku fyrstu skóflustungurnar.

Hljómahöll opnar

Opnunarhátíð Hljómahallar, Rokksafns Íslands og Tónlistarskóla Reykjanesbæjar var haldin laugardaginn 5. apríl 2014 og mætti fjöldi manns til að fagna þessum merka áfanga í sögu tónlistar, menningar og safna á Íslandi. Þá voru sex ár liðin frá því að Rúnar Júlíusson, Ragnheiður Skúladóttir og Böðvar Jónsson tóku fyrstu skóflustunguna að viðbyggingu við Stapa.

Böðvar Jónsson, forseti bæjarstjórnar, Árni Sigfússon, bæjarstjóri, og Kjartan Már Kjartansson, formaður stjórnar Hljómahallar, tóku til máls og Kjartan Már stýrði samkomunni. 

Fjölbreytt tónlistardagskrá var í boði þennan dag og þau sem komu fram voru Léttsveit Tónlistarskóla Reykjanesbæjar, Elíza Newman, Valdimar Guðmundsson, Páll Óskar, Magnús og Jóhann, Magnús Kjartansson, Sönghópur Suðurnesja og að lokum Hljómar. 

Eftirfarandi útlistun á hlutverki Hljómahallar birtist í tengslum við opnunarhátíðina:

Hljómahöll er ný tónlistar- og menningarmiðstöð í Reykjanesbæ. Hlutverk hennar er að vera mikilvægur vettvangur fjölskrúðugs mannlífs, ráðstefnuhalds, funda og menningarviðburða í Reykjanesbæ. Hið sögufræga félagsheimili Stapi er hluti af Hljómahöll og þjónar áfram sínu hlutverki eins og áður. Auk þess er nýtt Rokksafn Íslands hluti af Hljómahöll en því er ætlað að verða aðdráttarafl fyrir innlenda og erlenda ferðamenn sem vilja kynnast og upplifa popp- og rokksögu Íslands. Í húsi Hljómahallar hefur Tónlistarskóli Reykjanesbæjar einnig fengið nýtt og glæsilegt kennsluhúsnæði. Með tilkomu Hljómahallar er lagður grunnur að auknum atvinnutækifærum í skapandi greinum á Reykjanesi.

Þarna kom nafnið Rokksafn Íslands í fyrsta sinn opinberlega fram á prenti og þar með var nafnið Poppminjasafn Íslands formlega lagt niður.

Hljómahöll er vel búin fyrir tónleikahald í stærri kantinum en líka fyrir minni tónleika. Gamli Stapasalurinn hafði allur verið endurnýjaður og hljóðhannaður með nýjustu tækni í huga. Salurinn  tekur allt að 450 manns í sæti og fleiri þegar um standandi viðburði er að ræða. Minni salurinn nefnist Berg og tekur um 130 tónleikagesti í sæti. Sá salur er nefndur eftir Hólmsbergi í Keflavík. Valdimar Harðarson arkitekt hannaði stólana í salnum og nefndi þá Magna. Tveir góðir flyglar voru valdir sérstaklega af færustu mönnum fyrir þessa sali, annarsvegar Bösendorfer Grand konsert flygill fyrir Stapa og Steinway & Sons flygill af C gerð sem er í Bergi. Þar fyrir utan er lítill kvikmyndasalur í Rokksafni Íslands sem fékk nafnið Félagsbíó eftir kvikmyndahúsinu í Keflavík sem tók til starfa 1955 en var lagt niður árið 1998. Þar að auki voru salirnir búnir fullkomnum hljómflutningsbúnaði og ljósabúnaði af bestu gerð. 

Munir á Rokksafni Íslands.

Munir og minjar

Fyrst í stað var gengið út frá því að sýningin sem sett var upp til að byrja með gæti laðað gesti að Rokksafninu. Haldið var áfram að leita til tónlistarfólks og safnara og óskað eftir áhugaverðum gripum, hljóðfærum og öðru sem tengdust popp- og rokksögu landsins. Meðal þess sem bættist fljótlega við safnmuni var Ludwig trommusett sem Gunnar Jökull hafði átt, kjóll sem var í eigu Ellyjar Vilhjálms, kjóll sem Emilíana Torrini klæddist í myndbandinu Jungle Drum, lúðrasveitarjakki úr fórum Stuðmanna sem notaður var í kvikmyndinni Með allt á hreinu, stytta af Barða Jóhannssyni í Bang Gang, píanetta sem Ragnar Bjarnason átti, tréskúlptúr af Hjálmum sem listakonan Aðalheiður Eysteinsdóttir gerði, föt af Rúnari Júl, Hauki Morthens, Helenu Eyjólfsdóttur, Önnu Vilhjálmsdóttur, Herberti Guðmundssyni og fleirum. Hljóðfæri og munir tengdir Hljómum voru í öndvegi í miðju safninu sem og gripir frá tónlistarfólki af Suðurnesjum og frá landinu öllu. 

Páll Óskar Hjálmtýsson afhenti Rokksafninu þann 31. mars 2014 alla búninga sína og tónleikafatnað til eignar. Þetta var fatnaður frá því að hann byrjaði að safna búningum eftir að hann lék í Rocky Horror árið 1991. Margir búninganna höfðu verið sérsaumaðir fyrir Pál Óskar. Þar að auki gaf hann safninu allar gull- og platínuplötur sínar og marga aðra persónulega muni. 

Sett var upp sérsýning í Rokksafninu með munum úr fórum Páls Óskars og átti að opna hana laugardaginn 14. mars 2015. Veðurguðirnir gripu þá í taumana því það var snælduvitlaust veður þannig að sýningaropnuninni var frestað fram á sunnudaginn 15. mars. Daginn eftir hélt Páll Óskar upp á 45 ára afmælið sitt. 

Sérsýningar

Sýningin fékk nafnið Páll Óskar – Einkasafn poppstjörnu. Henni var skipt upp í nokkur tímabil og var einskonar yfirlitssýning um líf Palla. Þar mátti sjá fatnað, úrklippur, teikningar, skart, auglýsingar, vinnubækur, dagatöl, gamlan Nokia 6110 síma sem Palli notaði í 14 ár og listaverk. Gestum gafst m.a. kostur á að syngja með Palla á nokkrum upptökum frá ferli hans og hljóðblanda lögin að eigin geðþótta. 

Páll Óskar var mjög ánægður með hvernig til tókst og lofaði safnið, hrósaði starfsfólkinu og þeim sem höfðu verið svo framsýnir að opna þetta mikilvæga safn og starfrækja það af svona miklum myndarbrag. Þegar árið var liðið var tilkynnt að 15.594 manns hefðu heimsótt safnið þetta ár, flestir til að sjá sýninguna Páll Óskar – Einkasafn poppstjörnu. Það vakti athygli að hlutfall þeirra sem sóttu safnið heim á þessum tíma var þannig að um 90% voru Íslendingar og um 10% erlendir gestir. Talsverð aukning var á gestafjölda milli ára og var um 100% aukning seldra miða. Þá jókst útleiga á sölum Hljómahallar um 50% á milli ára, sem var með því mesta sem þekkist á landinu. 

Sýningin Páll Óskar – Einkasýning poppstjörnu stóð yfir í eitt og hálft ár. Þá var ákveðið að taka hluta hennar niður og koma því helsta fyrir á Nöglinni svokölluðu, upphækkuðum palli í formi gítarnaglar ofan við afgreiðslusvæðið. Þetta var gert til að rýma fyrir næstu sérsýningu sem byrjað var að undirbúa. 

Næsta sérsýning var opnuð 12. nóvember 2016, en það var sýningin Þó líði ár og öld, þar sem ferill söngvarans Björgvins Halldórssonar var settur í sviðsljósið. Sýningin sýndi margar hliðar Björgvins sem hefur fengist við margt annað en tónlist í gegnum tíðina. Björgvin er mikill safnari og meðal þess sem hann safnar eru gítarar. Fjölmargir gítarar í eigum Björgvins voru settir inn í stóran glerskáp þar sem þeir voru áfram löngu eftir að sýningin hætti. Sýningin spannaði langt tímabil og þar mátti sjá muni sem móðir Björgvins passaði að glötuðust ekki. Einnig voru gullplötur, textablöð, glymskratti, ógrynni ljósmynda og myndbanda og ýmislegt fleira sem Björgvin hefur sankað að sér á löngum ferli. Gestum gafst kostur á að syngja lög Björgvins í söngklefa Rokksafnsins og hljóðblanda vinsælt lag sem Björgvin hafði flutt. Mæltist þessi sýning vel fyrir og stóð uppi í rúmt ár. Björgvin hélt tónleika á persónulegum nótum í Stapasal Hljómahallar 25. mars 2017 ásamt hljómsveit sinni sem voru vel sóttir. 

Frá opnun sýningarinnar Þó líði ár og öld þar sem ferli Björgvins Halldórssonar var gerð skil.

Þann 7. mars árið 2021 opnaði Rokksafn Íslands sýninguna Melódíur minninganna.
Sýningin fjallar um tónlistarsafn Jóns Kr. Ólafssonar, Melódíur minninganna, sem staðsett er á Bíldudal. Undirbúningur að sýningunni hafði staðið yfir í talsverðan tíma. Á sýningunni mátti finna fjölmarga muni frá tónlistarfólki á borð við Elly Vilhjálms, Ragga Bjarna, Hauk Morthens, Svavar Gests, Stuðmenn og fleiri. Gestir sýningarinnar gátu heimsótt safnið á Bíldudal með aðstoð tækninnar en hluti af sýningunni voru gagnvirk sýndarveruleikagleraugu sem gerði gestum kleift að skoða og ganga um tónlistarsafnið sem myndað var sérstaklega fyrir sýninguna.

Sýningin Úrklippubókasafn Kela, þar sem hluti af heilmiklu úrklippusafni Sævars Þorkels Jenssonar var til sýnis, var opnuð í ágúst 2022. Keli er Keflvíkingur og byrjaði að safna eiginhandaráritunum og úrklippum árið 1964. Hann á eitt stærsta úrklippusafn tengt tónlist á landinu og hefur líka safnað eiginhandar áritunum allan þennan tíma þar á meðal áritunum heimsþekktra tónlistarmanna. Þegar sýningin var haldin voru úrklippubækurnar orðnar rúmlega 350 talsins. Meðal listafólks sem Keli hefur haldið upp á og má finna í bókum hans eru Hljómar, Maggi Kjartans, Hjálmar, Bubbi Morthens, Björk, Jónas Sig, GDRN, John Grant, Bríet, Helgi Björns, Stefán Jakobsson, Baggalútur og margir fleiri.

Hljómsveitin Valdimar í Hljómahöll.

Hljómleikar og viðburðir

Fjölmargar innlendar og erlendar hljómsveitir og listafólk hafa komið fram á tónleikum í Hljómahöll, bæði í Stapa og Bergi. Hafa þær allar farið lofsamlegum orðum um á hljómburðinn í báðum sölunum og farið fögrum orðum um fagmennsku starfsfólksins.

Meðal þeirra sem hafa komið fram í Stapa og Bergi frá því að Hljómahöllin tók til starfa má nefna tónlistarfólkið Pál Óskar, Magnús Kjartansson, Magnús og Jóhann, Ólaf Arnalds, Björgvin Halldórsson, Elízu Newman, Snorra Helgason, KK, Ragnheiði Gröndal, Júníus Meyvant, Pétur Ben, Jón Jónsson, Hall Ingólfsson, Ladda, Gunnar Þórðarson, Eyþór Inga, Jóhönnu Guðrúnu, Matthew Santos, Fríðu Dís, Pétur Ben, Má Gunnarsson, JóaPé og Króla, Bubba Morthens, Arnar Dór, Herra Hnetusmjör, Jönu Maríu, Prins Póló, Emmsjé Gauta, Louis Cole, Ásgeir Trausta, Auð, Marínu Ósk, Cate Le Bon, Unnstein Manuel, GDRN, Klöru Elías, Bríeti, Jónas Sig, Aron Can og Aldous Harding. 

Meðal hljómsveita sem hafa stigið á svið í sölum Hljómahallar má nefna Hljóma, Skítamóral, Mammút, Fuck Buttoms, Hebronix, Eaux, Nýdönsk, Skálmöld, Trúbrot, Moses Hightower, Maus, Baggalút, GusGus, Valdimar, Dúndurfréttir, Bjartmar & Bergrisana, Ylju, Kaleo, Kæluna miklu, SSSól, Amabadama, ÚlfÚlf, Midnight Librarian, Hatara, Deep Jimi & the Zep Creams, Vox, Tindersticks, Demo, Rolf Hausbentner Band, Thurston Moore Band og Karate. Þá hafa Karlakór Keflavíkur og Sönghópur Suðurnesja komið fram í Hljómahöllinni ásamt uppstöndurunum Hugleik Dagssyni, Ara Eldjárn og Mið-Ísland og margir fleiri.  

Með blik í auga og Rokkveislan mikla.

Í Hljómahöll er fullkomin aðstaða til fundar- og ráðstefnuhalds. Í húsinu er fullkomið mynd- og hljóðkerfi en hægt er að senda bæði hljóð og mynd yfir í alla sali hússins hvaðan sem er. Þá er allur nauðsynlegur búnaður fyrir ráðstefnu- og fundarhöld til staðar svo sem skjávarpar, tjöld, tölvur, hljóðnemar o.fl. Salir sem henta undir ráðstefnu- og fundarhald eru Berg, Stapi og Merkines. Þá nýtast skólastofur Tónlistarskóla Reykjanesbæjar sem „breakout"-herbergi ef um viðamikið ráðstefnuhald er að ræða. Í Hljómahöll hafa verið haldnir margskonar fundir og fjölmargar ráðstefnur í gegnum tíðina. Þar á meðal má nefna hina stóru ferðakaupstefnu Vestnorden þar sem hver kimi hússins var nýttur. Einnig má nefna ráðstefnu norrænu ráðherrarnefndarinnar, What Works-ferðamálaráðstefnuna, ráðstefnu Hjallastefnunnar, Byggðaráðstefnuna og þannig mætti áfram telja. Fjölmörg fyrirtæki hafa haldið árshátíðir sínar í Hljómahöll en húsið þykir kjörið fyrir slíka viðburði þar sem viðburðirnir hefjast með fordrykkjum og forréttum á Rokksafni Íslands áður en borðhald og skemmtiatriði fara fram í Stapa og öðrum sölum Hljómahallar. 

Sigríður Beinteinsdóttir í Stapa.

Viðurkenningar

Rokksafn Íslands hlaut Nýsköpunar- og hvatningarverðlaun frá Ferðaþjónustu Reykjaness snemma árs 2019. Verðlaunin voru veitt um líkt leyti og safnið fagnaði fimm ára afmæli. Af þessu tilefni sagði Tómas Young, framkvæmdastjóri Hljómahallar:  „Þetta var mjög skemmtileg viðurkenning. Viðbrögð gestanna hafa verið góð og fólk er almennt mjög ánægt með sýningarnar. Áður héldu margir að hér væri bara sýning um Bítlabæinn Keflavík en hér eru í rauninni allir með jafn stóran sess í sýningunni enda heitir þetta Rokksafn Íslands en ekki Poppsafn Reykjanesbæjar.“

Í umsögn Markaðsstofu Reykjaness segir: 

„Sagnaarfur okkar Íslendinga á sér langar rætur og víða um land má finna söfn og sýningar sem geyma og rifja upp fyrir okkur sögu okkar og menningararf. Rokksafn Íslands, eins og nafnið ber með sér, segir sögu tónlistar á Íslandi allt frá árinu 1830 til dagsins í dag, með sérstaka áherslu á popp og rokktónlist sem er samofin nútímasögu og menningu okkar á Suðurnesjum.

Þó safnið eigi sér stutta sögu en það var opnað í apríl 2014 og fagnar því 5 ára afmæli í ár,  hefur það stimplað sig inn í menningarlíf samfélagsins með uppákomum og sérsýningum sem settar hafa verið upp og reglulega bætast nýjungar við í fjölbreytta flóru safnmuna. 

Forsvarsmenn hafa lagt mikinn metnað í uppbyggingu safnsins og leitað leiða til að gera söguna lifandi og skemmtilega á faglegan hátt fyrir gesti. Hvort heldur með því að nýta nútíma tækni eða þróa nýjar lausnir eins og sést með plötuspilaranum hér frammi. Þannig geta gestir tekið virkan þátt í sýningunni og aukið við upplifun sína meðal annars með því að taka lagið í sérstökum söngklefa eða grípa í hljóðfæri. Þá geta safngestir einnig nýtt sér tæknina og skoðað söguna með Rokk-appinu.

Rokksafnið á sér enga hliðstæðu á Íslandi og það er einstakt að hafa aðgang að slíkri perlu hér á svæðinu. 

Stjórnir Reykjanes UNESCO Global Geopark og Markaðsstofu Reykjaness hafa ákveðið að veita Rokksafni Íslands Nýsköpunar- og hvatningarverðlaun ferðaþjónustunnar árið 2019“.

Hljómahöll hlaut viðurkenningu 1. desember 2022 á Degi íslenskrar tónlistar sem veitt  voru í Hörpu við hátíðlega athöfn. Tómas Young forstöðumaður tók við viðurkenningunni fyrir hönd Hljómahallar. Verðlaunin bera nafnið Glugginn og í umsögn sem fylgdi viðurkenningunni segir: „Hljómahöll í Reykjanesbæ hlýtur verðlaun fyrir að halda úti heimili íslenskrar tónlistar í Reykjanesbæ með hugmyndaríku safni og fjölbreyttri tónlistardagskrá undanfarið ár.“

Rokksafn Íslands er mjög mikilvægt og merkilegt safn sem íslenskt áhugafólk um tónlist og erlendir gestir láta sig varða. Þetta er eina safn sinnar tegundar á Íslandi þó svo að tónlistartengdir munir séu vissulega á nokkrum byggðasöfnum á landsbyggðinni. Þá hafa sérsýningar tengdar tónlist viðkomandi héraðs verið settar upp á stöku stað, en þar er ekki um varanlegar tónlistarsýningar að ræða. Það er afar mikilvægt að Rokksafn Íslands fái að stækka og dafna á næstu árum og haldi áfram varðveita og sýna muni og minjar sem tengjast hinni merku popp- og rokksögu þjóðarinnar.

Magnús og Jóhann í Stapa.

Forsagan í hnotskurn:

Tónlistarskólinn í Keflavík var stofnaður 24. október 1957 að frumkvæði Guðmundar H. Norðdahl og kom Ragnar Björnsson, fyrsti skólastjórinn, að stofnun hans. Herbert H. Ágústsson tók við af Ragnari árið 1977 og gegndi stöðunni til 1985. Kjartan Már Kjartansson var 24 ára þegar hann var ráðinn skólastjóri og sinnti því starfi eftir það nema hvað Karen J. Sturlaugsson gegndi stöðunni 1998 til 1999. 

Tónlistarskóli Njarðvíkur tók til starfa haustið 1976 og var strax ráðist í að stofna skólahljómsveit. Örn Óskarsson skólastjóri stjórnaði hljómsveitinni en hann starfaði við skólann til haustsins 1984. Þegar Örn hætti tók Haraldur Árni Haraldsson við af honum og gegndi starfinu þar skólinn var sameinaður Tónlistarskólanum í Keflavík. Báðir þessir skólar héldu úti kröftugu starfi og skiluðu mörgum efnilegum nemendum sem hafa látið til sín taka í tónlistarlífi landsins. 

Samþykkt var að sameina Keflavík, Njarðvík og Hafnir undir einum hatti og varð sveitarfélagið Reykjanesbær til árið 1994. Fljótlega var hafist handa við að skoða hvar mætti hagræða og bæta hlutina. Meðal þess sem var rætt var hvernig fyrirkomulagi tónlistarkennslu væri best háttað. Ári eftir sameininguna var Tónlistarskóla Njarðvíkur breytt í aldursskiptan skóla sem var einvörðungu ætlaður nemendum á grunnskólaaldri. Skólinn bauð upp á tónlistarnám í grunnskólum bæjarins og var öllum börnum í 1. og 2. bekk boðið að hefja forskólanám í tónlist.  Eftir það fengu þeir nemendur sem ætluðu að halda tónlistarnáminu áfram að velja hvaða hljóðfæri þeir vildu læra á.

Í ársbyrjun 1998 var ákveðið að leggja báða tónlistarskólana niður og stofna Tónlistarskóla Reykjanesbæjar sem tók formlega til starfa 1. september 1999. Haraldur Árni Haraldsson var ráðinn skólastjóri nýja skólans og Karen J. Sturlaugsson aðstoðarskólastjóri.

Tónlistarskóli Reykjanesbæjar var með starfsemi á tveimur stöðum til að byrja með, annarsvegar að Þórustíg 7 og hinsvegar að Austurgötu 13. Jafnframt var kennt í grunnskólum Reykjanesbæjar og starfsemin því nokkuð sundurslitin. Þetta þótti óhagkvæmt og rætt var um að koma allri starfsemi tónlistarskólans fyrir á einum stað og helst í sérsniðnu húsnæði. Á sama tíma voru uppi hugmyndir um að koma Poppminjasafni Íslands fyrir á varanlegum stað en það hafði um nokkurra ára skeið verið starfrækt á veitingastaðnum Glóðinni, Hafnargötu 62 í Keflavík. Þetta leiddi til þess að farið var að skoða möguleikann á að byggja ráðstefnu- og menningarmiðstöð við hliðina á félagsheimilinu Stapa. Þetta varð að veruleika og tók Tónlistarskóli Reykjanesbæjar til starfa í nýja húsinu sem hafði fengið nafnið Hljómahöll þegar framkvæmdir hófust. Skólahúsnæðið er mjög vel búið með 30 nemendarýmum en áður hafði skólinn 12 nemendarými í tveimur gömlum húsum. Kennslustofurnar eru 25 fyrir hljóðfæra- og söngkennslu, tónfræðigreinar og smærri samleiks- og samsöngshópa. Þar er líka tölvutónlistarstofa, 50 manna hljómsveitarsalur með hljóðfærum, tvær stofur sem eru einvörðungu ætlaður fyrir æfingar nemenda og tvö upptökuver sem nýtast skólanum og Rokksafninu. Þessutan eru tónleikasalir í Hljómahöllinni sem eru nýttir fyrir nemendatónleika, skemmtanir og tónleika fyrir almenning.

Hljómar á Menningarvöku í Stapa árið 1980. Ljósmyndari: Helgi S. Jónsson

Krossinn í Ytri-Njarðvík 

Krossinn í Ytri-Njarðvík var í stórum bragga sem byggður var á stríðsárunum. Bandaríska setuliðið sótti um leyfi til að reisa Rauða Kross stöð í Keflavík árið 1942. Þessari beiðni var hafnað þar sem óttast var að þetta skapaði of mikla nánd milli hermanna og bæjarbúa. Setuliðið fékk þá leyfi til að byggja stöðina í Ytri-Njarðvík fjarri þéttbýlinu, langt frá mannabyggð. Þarna var boðið upp á skemmtanir á vegum Rauða Krossins, sem sinnti þessháttar starfsemi víðsvegar um heiminn á stríðsárunum. Söngkonan Marlene Dietrich skemmti m.a. setuliðsmönnum með söng sínum í Rauða Kross bragganum í desember 1944. Að stríðinu loknu stóð Rauða Kross stöðin auð og átti að selja hana til niðurrifs. Ungmennafélag Njarðvíkur hafði í nokkur ár ráðgert að byggja félagshús en vantaði bæði fjármagn og efnivið til að hrinda þessum áformum í framkvæmd. Þegar tækifæri gafst til að kaupa Rauða Kross stöðina í nóvember 1946 var ákveðið að láta á það reyna. Ungmennafélagið fékk lán hjá Magnúsi Ólafssyni í Höskuldarkoti og greiddi félagið 30 þúsund krónur fyrir húsin. Leyfi fékkst til að láta húsin standa áfram og gera þau upp þar sem þau voru í frekar slæmu ástandi eftir að hafa staðið ónotuð í eitt og hálft ár. Efnt var til samskota meðal hreppsbúa sem gengu vonum framar. Gáfu sumir 1000 krónur, sem var veruleg fjárhæð, en aðrir minna. Samkomuhúsið Krossinn var tekið í notkun með formlegum hætti 14. júní 1947. Kvenfélagið og Ungmennafélag Njarðvíkur tóku við rekstrinum og var Ólafur Sigurjónsson, oddviti og hreppstjóri, lengi í forsvari. Árið 1948 stofnaði Þórlaug Magnúsdóttir kirkjubyggingarsjóð Ytri-Njarðvíkur en Ungmennafélagið lagði aðaláherslu á uppbyggingu íþróttastarfs í hreppnum. Á kvenfélagsfundi sem haldinn var 1955 nefndi Hlíf Tryggvadóttir að sóknarpresturinn vildi halda guðsþjónustur í Krossinum öðru hvoru og var því fagnað. Bauðst hún til að æfa söngfólk svo að hægt væri að koma á laggirnar nothæfum kór fyrir þessar athafnir og lagði þar með grunninn að kirkjukór Ytri-Njarðvíkursóknar. Krossinn var fjölnota samkomuhús frá upphafi. Þar voru haldnir fundir, samkomur og dansleikir. Böllin í Krossinum voru víðfræg og stundum komust færri að en vildu. Húsið tók um 400 manns þegar mest var, sem þótti býsna gott. Krossinn var einnig notaður fyrir allskonar félagsstarf. Skátahreyfingin og æskulýðsráð nýttu húsið til jafns við önnur félög í hreppnum. 

Krossinn er einna þekktastur fyrir þá staðreynd að þar stigu fimm ungir Suðurnesjapiltar á svið í fyrsta sinn 5. október 1963 undir nafninu Hljómar. Þeir áttu eftir að trylla æskulýð landsins með tónlist sinni og framkomu næstu árin. Þetta kvöld voru þessir piltar ekki alveg tilbúnir að eigin mati til að halda uppi heilu balli. Þeir tóku samt áskorun unga fólksins sem vildi ekki missa af balli þegar hljómsveit úr Reykjavík boðaði forföll. Þetta heppnaðist það vel að fjórum dögum seinna mættu þeir í útvarpssal á Skúlagötu 4 og spiluðu nokkur lög inn á segulband sem er geymt í safni Útvarpsins. Þar var ekki um bítlatónlist að ræða, heldur gítartónlist, ballöður og Suður-Ameríska sveiflu í anda tímans.  

Krossinn fékk nýtt hlutverk eftir að Félagsheimilið Stapi tók við sem aðal samkomuhús hreppsins. Húsið var endurbyggt að nokkru leiti fyrri hluta árs 1967 og tók síðan við nýju hlutverki sem íþróttahús hreppsins næsta áratuginn. Þar var leikfimikennsla og stundaðar íþróttaæfingar en skátafélagið Víkverjar fékk litla salinn til afnota. Skátarnir endurbættu aðstöðuna með stuðningi frá sveitarfélaginu. Síðustu árin var rekið æskulýðsheimili í Krossinum en húsið var rifið árið 1979. Sigtryggur Árnason, yfirlögregluþjónn, stjórnaði því verki.

Æskulýðsdagurinn í Stapa 1972. Ljósmynd frá Byggðasafni Reykjanesbæjar

Félagsheimilið Stapi

Ungmennafélag Njarðvíkurhrepps var stofnað 10. apríl 1944, árið sem íslenska þjóðin samþykkti að segja skilið við Dani og stofna sjálfstætt ríki. Aðalhvatamaðurinn að stofnun félagsins var Karvel Ögmundsson. Nokkru áður var gengið með undirskriftalista um hreppinn og skrifuðu 125 manns undir skjalið og samþykktu að taka þátt í stofnun félagsins. Þeir sem voru kosnir í fyrstu stjórnina voru Ólafur Sigurjónsson, formaður, Karvel Ögmundsson, gjaldkeri, og Oddbergur Eiríksson, ritari. Kvenfélag Njarðvíkur var stofnað 17. september sama ár af 54 konum. Hlíf Tryggvadóttir var fyrsti formaðurinn, Anna Olgeirsdóttir, gjaldkeri, og Nanna Finnbogadóttir, ritari. Sama ár var kirkjan í Innri-Njarðvík endurbyggð og endurvígð, en hún hafði verið aflögð um 1916. Stuttu seinna var lestrarfélagið Fróði stofnað með góðum stuðningi frá ungmennafélaginu og kvenfélaginu. Á grunni lestrarfélagsins var Bókasafn Njarðvíkur stofnað. Þann 24. febrúar 1949 var húsbyggingarsjóður stofnaður svo að hægt væri að ráðast í byggingu fullkomins samkomuhúss fyrir hreppsbúa. Þrátt fyrir að góð fjárhæð safnaðist var ekki hægt að hefjast handa strax. Sækja þurfti um sérstakt fjárfestingaleyfi til að hefja svo viðamikla framkvæmd en vegna innflutningshafta þurfti slíkt leyfi til að kaupa sement og annað sem til þurfti. Árið 1953 var fyrst sótt um fjárfestingaleyfi til fjárfestingayfirvalda og svo aftur árlega þar til leyfið fékkst fjórum árum seinna. Leyfið var veitt tveimur dögum áður en íþróttavöllur hreppsins var vígður. Íþróttavöllurinn var nærri Krossinum og það þótti afar merkilegt mannvirki því þetta var grasvöllur, einn sá fyrsti á landinu. Völlurinn var vígður við hátíðlega athöfn 16. júní 1957. 

Skynsamlegt þótti að byggja félagsheimilið á miðju íþróttasvæðinu og mynda þar einskonar kjarna byggðarlagsins. Landeigendur gáfu 17 þúsund fermetra landspildu undir félagsheimilið árið 1957 og sama ár fengust öll byggingaleyfi. Byggingaframkvæmdir hófust í september 1958 en þá hafði verið stofnað sameignarfélag Ungmennafélagsins, Kvenfélagsins, skátafélagsins og hreppsins um uppbyggingu og rekstur veglegs samkomuhúss. Framkvæmdir hófust af krafti en það komu nokkur löng hlé inn á milli og stóðu byggingaframkvæmdir yfir næstu sjö árin. Þegar húsið var tekið í notkun 23. október 1965 við hátíðlega athöfn var það fullbúið að innan sem utan. Rúmlega einu ári fyrr höfðu fundarsalur og félagsherbergi verið tekin í notkun. 

Sigurður Thoroddsen sá um járnateikningar og verkfræðilega þætti, trésmíðameistari var Skarphéðinn Jóhannesson, Snorri Vilhjálmsson sá um múrverk og Guðbjörn Guðmundsson um rafmagn og lýsingu. Blikksmiðja Ágústs Guðjónssonar sá um loftræstikerfið, Áki Gränz um alla málningarvinnu og Ásgerður Búadóttir hannaði veggskreytingu á suðurhlið hússins. 

Þegar samkomuhúsið var fullbyggt var kostnaðurinn kominn í 9,5 milljónir. Þar fyrir utan bættist við umtalsverður kostnaður vegna innréttinga, innbús og áhalda.

Þegar húsið var tekið í notkun mætti fjöldinn allur af boðsgestum auk íbúa hreppsins til að vera viðstaddir þennan merka atburð. Ólafur Sigurjónsson, oddviti og hreppstjóri, Njarðvíkinga hélt vígsluræðuna en hann hafði verið formaður og framkvæmdastjóri húsbyggingarnefndarinnar og unnið af kappi að framkvæmdum allan tímann. Ólafur lýsti framkvæmdunum og gat þess að húsið væri byggt eftir teikningu Sigvalda Thordarsen arkitekts sem lauk sinni vinnu að mestu áður en hann lést. Þorvaldur Kristmundsson lauk þeim smáteikningum sem Sigvalda lánaðist ekki að ljúka við. Ólafur afhenti húsið til nýskipaðrar hússtjórnar en formaður hennar var Oddbergur Eiríksson. Fjölmargar ræður voru haldnar og meðal þeirra sem tóku til máls voru sveitarstjórinn Jón Ásgeirsson, Sigurbjörg Magnúsdóttir, formaður kvenfélagsins, Sveinn Jónsson, bæjarstjóri Keflavíkur, Þórir Sæmundsson, sveitarstjóri Sandgerðis, séra Björn Jónsson, sóknarprestur í Keflavík og séra Eiríkur J. Eiríksson, forseti Ungmennafélags Íslands. Við vígsluathöfnina var húsinu gefið nafnið Stapi sem þótti við hæfi enda Stapi þekkt kennileiti á Suðurnesjum.  

Gestir gengu síðan um húsið og skoðuðu herlegheitin en mikla athygli vakti að í fyrstu forstofu var steinverk frá lofti til gólfs úr hrauni og leir eftir Ragnar Kjartansson. Yfirlitssýning á málverkum Magnúsar Á. Árnasonar var opnuð í hliðarsalnum og síðar í vikunni sýndi Hafsteinn Austmann málverk sín. Næstu daga og vikur var mikið um dýrðir m.a. var byggðasögu hreppsins gerð góð skil í húsinu. 

Félagsheimilið Stapi þótti mjög reisulegt og glæsilegt hús í alla staði bæði að utan sem innan. Gólfflötur var 1.300 fm og húsið taldist vera 6.500 rúmmetrar. Aðalsalurinn tók um 500 manns í sæti og mun fleiri standandi. Að auki voru svalir sem rúmuðu 150 manns og hliðarsalur þar sem hægt var að koma fyrir 100 manns með góðu móti. Sá salur var ætlaður til fundarhalda og minni samkvæma. 

Stapasalurinn var með næst stærsta leiksvið landsins á þessum tíma. Þar var fullkominn ljósabúnaður og baksviðs voru rúmgóð búningsherbergi. Þegar húsið var tekið í notkun hafði bókasafni sveitarfélagsins verið fundinn þar staður og þar voru einnig félagsherbergi allra þeirra sem stóðu að byggingunni. Það voru  Ungmenna-  og kvenfélag Njarðvíkur, Skátafélagið Víkverjar og Njarðvíkurhreppur. 

Leikfélag Reykjavíkur sýndi leikritið Ævintýri á gönguför í Stapa og Þjóðleikhúsið sýndi Síðasta segulband Krapps og Jóðlíf eftir að húsið var tekið í notkun. Njarðvíkingar stofnuðu fljótlega Njarðvíkurleikhúsið sem frumsýndi sitt fyrsta leikrit 4. febrúar 1966 í Stapa.

Séra Björn Jónsson messaði í litla salnum og sú venja skapaðist að halda jóla- og páskaguðsþjónustur og fleiri kirkjulegar athafnir í Stapa. Ráðgert var að byggja kapellu sem átti að tengjast samkomuhúsinu en guðsþjónustur höfðu öðru hvoru farið fram í Krossinum. Ástæðan var sú að Njarðvíkurkirkja er í Innri-Njarðvík og talsverð vegalengd milli Innri- og Ytri-Njarðvíkur. Þetta hafði lengi verið mikið hjartans mál Kvenfélagskvenna sem vildu stuðla að blómlegu kirkjustarfi í Ytri-Njarðvík. Af þessari byggingu varð þó ekki og það liðu þó nokkuð mörg ár áður en ný kirkja var byggð í Ytri-Njarðvík. Framkvæmdir við þá kirkju, sem Örnólfur Hall og Ormar Þór Guðmundsson teiknuðu, hófust  í september 1969 en kirkjan var vígð 19. apríl 1979. 

Félagsheimilið Stapi var jafnan kallað Stapinn í daglegu tali. Húsið varð fljótlega eitt vinsælasta samkomuhús landsins og kom fólk víða að til að sækja þar samkomur af ýmsum toga. Þar voru haldnir dansleikir, barnaskemmtanir, skátaskemmtanir, fundir, ráðstefnur, tónleikar, leiksýningar og fleiri viðburðir. Þeir sem voru á besta aldri þekktu Stapann einna helst fyrir ógleymanleg böll þar sem allar helstu hljómsveitir landsins héldu uppi stuðinu. Dansleikirnir voru rómaðir og umtalaðir meðal fólks um allt land.  Þar stigu margar hljómsveitir sín fyrstu skref á frægðarbrautinni og þar kynntust mörg sem áttu eftir að feta lífsbrautina saman.      

Fjölmenn landssamtök leigðu húsið fyrir þing sín og ráðstefnur. Sinfóníuhljómsveit Íslands hélt þar tónleika og Þjóðleikhúsið bauð upp á farandleiksýningar svo fátt eitt sé nefnt. Stapinn var sannkallað menningarhús á breiðum grunni áratugum saman. 

Félagsheimilið Stapi var lengst af í eigu fjögurra aðila, Ungmennafélagsins, Kvenfélagsins og Njarðvíkurbæjar sem áttu hvert um sig 33% en skátafélagið Víkverjar átti 1%. Bókasafn Njarðvíkur var lengi í Stapanum en þegar þrengjast fór um safnið var það flutt og sameinað skólabókasafninu, þar sem það átti miklu frekar heima. 

Poppminjasafn Íslands / Rokksafn Íslands

Forsaga þess að Rokksafn Íslands var stofnað er þó nokkur. Hugmyndin um safn með munum og minjum úr íslenskri dægurtónlistarsögu hafði verið rædd í nokkur ár áður en Stuðmenn leigðu veitingahúsið Sigtún við Suðurlandsbraut í tvær vikur um jól og áramót 1984. Þar settu þeir upp poppminjasafn til bráðabirgða í samstarfi við Óskar Jónasson kvikmyndaleikstjóra. Þeir héldu síðan dansleik á gamlárskvöld sem var sjónvarpað og buðu allskonar fyrirmennum og konum, þar á meðal Marshall Brement sendiherra Bandaríkjanna og Evgeniy Kosarev sendiherra Sovétríkjanna. Þeir voru kallaðir upp á svið og látnir syngja saman lagið Nótt í Moskvu. Þegar þessum tveimur vikum var lokið var öllum poppminjum pakkað niður eða þeim skilað til eigenda sinna, og engin frekari áform um að endurtaka þennan leik en þarna var fræinu sáð. 

Þegar veitingamaðurinn Tómas Tómasson opnaði veitingastaðinn Hard Rock í Kringlunni 25. júlí 1987 fékk hann allskonar gripi, hljóðfæri, fatnað og fleira frá höfuðstöðvum Hard Rock í Bandaríkjunum. Þessir veitingastaðir voru þekktir fyrir söfnunaráhuga eigandans, sem keypti allskonar poppminjar og hljóðfæri og hengdi upp á veitingastöðum sínum. Þetta voru allt gripir sem tengdust erlendum poppgoðum en fljótlega fór Hard Rock í Reykjavík að berast gullplötur frá íslensku tónlistarfólki og allskonar munir og minjar sem voru til sýnis á staðnum. Þó svo að þetta væri góðra gjalda vert voru margir sem vildu ganga enn lengra og stofna safn eða setur þar sem hægt væri að halda utan um íslenska poppsögu. 

Sú hugmynd kviknaði meðal tónlistarfólks úr Keflavík að setja upp sýningu í heimabænum þar sem Bítlabænum væri gert hátt undir höfði. Hljómar var ein fyrsta bítlahljómsveitin á Íslandi og kjölfar Hljóma komu margar fleiri bítlahljómsveitir frá Suðurnesjum. Þetta þótti frekar merkilegt og fljótlega var farið að tala um Bítlabæinn Keflavík. Starfshópurvar myndaður að frumkvæði Kjartans Más Kjartanssonar, þá skólastjóra Tónlistarskólans í Keflavík, sem byrjaði að undirbúa sýninguna Bítlabærinn Keflavík. Starfshópurinn fékk Jón Sigurðsson til að afla fjárstuðnings frá fyrirtækjum og velunnurum og var sýningin opnuð á báðum hæðum veitingahússins Glóðarinnar, Hafnargötu 62 í Keflavík laugardaginn 11. október 1997. Sýningin var helguð tónlistarfólki sem tengdist Suðurnesjum, fólki  sem hafði sett mark sitt á íslenska dægurtónlist á árunum 1963 til 1976. Sýningin byggðist á úrklippum, veggspjöldum, plötuhulstrum, bókhaldsgögnum, tækjum, hljóðfærum og ýmsu öðru sem tekist hafði að safna saman. Þau sem stóðu að þessu framtaki voru auk Kjartans Más tónlistarmennirnir Rúnar Júlíusson og Guðmundur Hermannsson, veitingamaðurinn Stefán Viðarsson, innanhússarkitektinn Bryndís Eva Jónsdóttir, sýningarhönnuðurinn Björn G. Björnsson og textahöfundurinn Þorsteinn Eggertsson. Ekki er á neinn hallað þegar fullyrt er að Rúnar Júlíusson hafi lagt einna mest af mörkum til að koma þessu í kring. Hann naut góðs stuðnings Kjartans Más Kjartanssonar sem hefur stutt safnið með ráðum og dáð alla tíð síðan. Undirbúningstíminn var ekki langur eða rétt rúmlega hálft ár áður en sýningin var opnuð. 

Poppsafn Íslands fékk kennitölu í maí 1997 en það var stofnað formlega árið 1998. Heimili og varnarþing var fyrst í stað á veitingastaðnum Glóðinni að Hafnargötu 62 í Keflavík. Þar stóð sýningin Bítlabærinn Keflavík í nokkur ár. Á matseðli staðarins voru ýmsir réttir með nöfnum sem skírskotuðu til poppsögunnar. Ný vefsíða var sett í loftið 5. október 2003 á 40 ára afmæli Hljóma. Fram kom að Byggðasafn Reykjanesbæjar hefði umsjón með Poppminjasafni Íslands og tæki við öllum munum og minjum sem tengdust poppsögunni. Greint var frá því að heimasíðunni væri ætlað að vekja athygli á Poppminjasafninu og hvetja til varðveislu og söfnunar muna sem tengjast íslenskri tónlist. Einnig kom fram að þetta væri vettvangur fyrir þá sem hefðu áhuga á að kynna sér sögu íslenskrar popptónlistar og að ætlunin væri að skrásetja hana í framtíðinni.

Árið 2004 voru fyrstu hugmyndir um byggingu menningarhúss kynntar íbúum Reykjanesbæjar. Á meðan bæjarbúar ræddu þann möguleika að skapa aðstöðu fyrir poppminjasafnið og tónlistarskólann í nýju menningarhúsi var efnt til nýrrar poppsýningar. Sýningin Stuð og friður var opnuð í Duus húsum 17. júní 2005. Sjónum var beint að tímabilinu frá 1969 til 1979 sem hófst á mikilli róttækni og baráttu fyrir betri heimi. Blómabörnin voru áberandi í upphafi tímabilsins, allskonar tilraunir voru gerðar í tónlist og neyslu hugvíkkandi efna en áherslurnar breyttust eftir 1973. Þá kom til skjalanna léttari tónlist, glysrokk, diskó, djassrokk og vinsældartónlist. Undir lok tímabilsins urðu enn frekari breytingar með tilkomu pönks og nýbylgju. Sá sem hannaði sýninguna var Ólafur Engilbertsson. Hann hafði snúið sér að sýningarhönnun og skipulagði m.a. sýninguna Humar eða frægð í Listasafni Reykjavíkur-Hafnarhúsi og Spitz Gallery í London. Þessi sýning var sett upp til að fagna 16 ára afmæli útgáfufyrirtækisins Smekkleysu árið 2003.

Sýningin Vagg og velta, rokkárin á Íslandi var opnuð 31. mars 2007 í Duus húsum, þar sem farið var í máli og myndum yfir upphafsár rokksins sem hófust af alvöru á Íslandi vorið 1957. Rokkið var mikil ögrun við íslenskt samfélag sem var að breytast úr bændasamfélagi í þéttbýlissamfélag með viðhlítandi áskorunum. Þessi nýja tónlistarbylgja var nefnd á íslensku vagg og velta en líka rugg og ról eða rokk og ról sem varð ofan á. Á þessum tíma raungerðist kynslóðabilið og hugtakið táningar eða unglingar festi sig í sessi.  Þessi sýning stóð yfir til ársins 2009 og var síðasta sýningin í nafni Poppminjasafns Íslands þar sem nafninu var breytt í Rokksafn Íslands um leið og Hljómahöll var tekin í notkun. 

Jónatan Garðarsson gerði þessa samantekt í mars 2024