Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Hljóðlegt Dimisso þetta árið hjá FS-ingum
Sunnudagur 1. maí 2011 kl. 09:33

Hljóðlegt Dimisso þetta árið hjá FS-ingum

Föstudaginn síðastliðinn þann 29. apríl buðu væntanlegir útskriftarnemendur úr Fjölbrautaskóla Suðurnesja til hátíðar á sal þegar komið var að dimissio þessa önnina. Þá kveður útskriftarhópurinn kennara og nemendur skólans með ýmis konar uppákomum. Að þessu sinni var það hópur látbragðsleikara sem læddist um gangana og skemmti svo samnemendum og kennurum sínum á sal. Reyndar er það helsta einkenni látbragðsleikara að þeir gefa ekki frá sér eitt einasta hljóð. Hópurinn virtist ekki alveg hafa náð tökum á þeim þætti og það virtist ekki koma kennurum á óvart að eitthvað heyrðist í þessum nemendum þennan síðasta skóladag eins og alla hina. Þetta kemur fram á vef skólans fss.is.

Hópurinn byrjaði nóttina áður með því að heimsækja nokkra kennara við mismikla hrifningu viðkomandi. Um morguninn var svo komið að dagskrá á sal þar sem sýndar voru nokkrar skrautlegar myndir frá nóttinni. Það er orðin hefð fyrir því að á dimissio sé boðið upp á stuttmynd um lífið í skólanum. Að þessu sinni komu m.a. skólameistari, forvarnarfulltrúi og starfsmenn mötuneytisins þar við sögu ásamt nokkrum kennurum. Og ekki má gleyma gervihnattastofnuninni í Sviss og útistöðum hennar við skólann. Að lokinni kvikmyndasýningunni fór fram verðlaunaafhending en þar fékk útskriftarhópurinn langþráð tækifæri til að veita kennurum sínum viðurkenningar fyrir frammistöðu sína. M.a. komu þar við sögu fyndnasti kennarinn, folinn, celebið, höfðinginn og einnig voru veitt sérstök heiðursverðlaun. Hápunkturinn var svo að sjálfsögðu valið á besta kennaranum. Að þessu sinni var það gítarleikarinn og stærðfræðikennarinn Gunnlaugur Sigurðsson sem hlaut þessi eftirsóttu verðlaun og það ekki í fyrsta sinn.

Um kvöldið var síðan hin svokallaða síðasta kvöldmáltíð en þá borða útskriftarnemendur og starfsólk skólans saman og gera sér glaðan dag.

Hér má svo nálgast myndasafn frá kvöldinu.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024