Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Mannlíf

Hljóð: Erfitt að fylgjast með af hliðarlínunni
Miðvikudagur 24. maí 2006 kl. 09:50

Hljóð: Erfitt að fylgjast með af hliðarlínunni

Síðasti bæjarstjórnarfundurinn í Reykjanesbæ á dögunum, markaði ákveðin tímamót í lífi þeirra Kjartans Más Kjartanssonar og Jóhanns Geirdal. Báðir eru þeir að hætta störfum á þessum vettvangi til að snúa sér að öðrum verkefnum. Í íþróttunum er þetta víst kallað „að leggja skóna á hilluna“, þannig að framvegs má segja að þeir muni fylgjast með bæjarmálunum frá áhorfendapöllunum. Og svo er að heyra að þeir séu bara nokk sáttir við það, þó það örli máski pínulítið á tregablöndnum söknuði. Ellert Grétarsson ræddi við félaga yfir kaffibolla á sólríkum laugardagsmorgni.

Léttir í bland við söknuð

Við sitjum á huggulegu kaffihúsi Kaffitárs við Stapabraut og grínumst með eldrauða litinn á sófanum og rauðu rósina á málverkinu fyrir ofan, sem minnir helst á gömlu, góðu kratarósina forðum daga. Appelsínuguli liturinn á stólunum minnir á lit A-listans. Það er pólitík í öllu þessa dagana.

„Ég dreg ekki dul á að þetta eru blendnar tilfinningar“, segir Kjartan Már, aðspurður um það hvernig honum sé innanbrjósts á þessu tímamótum en hann hefur setið í bæjarstjórn síðustu tvö kjörtímabil fyrir Framsóknarflokkinn.

„Annars vegar er ég feginn að vera búinn að skila mínu en á hinn bóginn er líka söknuður, sérstaklega núna þegar það stendur yfir bullandi kosningabarátta og allt á fullu en það er alltaf mjög skemmtilegur tími. En þetta er búið vera alveg óskaplega gaman og frábær reynsla í þau 12 ár sem ég hef verið þátttakandi í sveitarstjórnarmálunum hér“, bætir Kjartan við.

Jóhann Geirdal hefur verið viðloðandi bæjarmálin öllu lengur eða í 24 ár, lengst af fyrir Alþýðubandalagið en síðasta kjörtímabilið undir merkjum Samfylkingar. Hann tekur undir að það sé léttir að vera hættur á þessum vettvangi.

„Ég er búinn að vera að vasast í þessu það lengi að þetta er orðinn hluti af lífinu og það er heilmikil breyting sem verður á högum manns við þetta. En ég neita því ekki að núna í kosningabaráttunni  er talsvert erfitt standa allt í einu á hliðarlínunni án þess að vera beinn þátttakandi í því sem er að gerast inn á vellinum. Það er eitthvað sem maður á eftir að læra. En þetta er gott fólk sem tekur við og ég er alveg rólegur þess vegna“,  segir Jóhann.

Lífið er pólitík

Þýðir þetta að þeir séu alfarið hættir afskiptum af bæjarpólitík, eða verður kannski hægt að pota þeim í eins og eina nefnd ef svo ber undir?

Þeir félagar hlæja að spurningunni og Kjartan verður fyrr til svars: „Ja, ég held að þegar maður er á annað borð kominn á kaf í pólítik þá sé þetta kannski eins og með knattspyrnumenn þegar keppnisferlinum lýkur. Stundum gerast þeir þjálfarar, taka jafnvel sæti í knattspyrnuráði eða starfa á einhvern annan hátt í kringum íþróttina. Það er fullt af störfum í pólítk sem þarf að sinna öðrum en þeim sem snúa beint að því að vera í fremstu víglínu. Ég sé mig svo sem alveg fyrir mér sinna slíkum störfum og ýmsum verkefnum fyrir flokkinn minn í framtíðinni ef það er áhugi innan flokksins fyrir því, en svo á það eftir að koma í ljós“.

Jóhann talar á svipuðum nótum og Kjartan: „Ef maður, sem búinn er að vera á kafi í fótbolta í mörg ár, hættir að spila, er þá ekki líklegt að hann haldi áfram að hafa áhuga á íþróttinni? Auðvitað verður það þannig  að ég hætti aldrei í pólítik, því hún er líka áhugamál og ég hefði ekki verið í þessu nema fyrir það hve mikinn áhuga ég hef haft á þessum málum. Ég kem til með að fylgjast með og blanda mér inn í umræðuna, hvort sem það verður í nefndum eða öðrum vettvangi. Ég hef alltaf reynt að taka  afstöðu til mála, ekki legið á mínum skoðnum og ætla ekki að bregðast þeirri skyldu minni, sem almennur íbúi, að fylgjast með og taka þátt í umræðunni“.

Þeir taka undir það að þetta sé ákveðin ástríða, líkt og fótboltinn er hjá mörgum en Jóhann bætir því reyndar við að þetta sé ívið hættulegri baktería.

„Það er pólítik í öllu. Lífið er pólitík, hún birtist bara í svo mörgum myndum. Það er pólitík að taka afstöðu og hafa skoðanir, þó svo maður sé ekki starfandi á vettvangi einhvers stjórnmálaflokks“, segir Kjartan Már.

Eftirminnilegustu málin

Þau eru mörg málin sem bæjarfulltrúarnir hafa fjallað um á löngum ferli, er eitthvað sérstakt sem stendur upp úr þegar litið er um öxl? Hvaða mál standa t.d. eftir sem „heitustu“ málin?

„Það sem stendur upp úr í mínum huga er bara jákvæð uppbygging og endalaus verkefni hér á þessu svæði. Það hafa skipst á skin og skúrir, það var t.d. mjög erfitt í atvinnumálum þegar ég kom fyrst inn í bæjarstjórn sem aðalmaður. Það hafa orðið miklar breytingar í skólamálum, sem er mjög jákvætt því menntun er forsenda árangurs í framtíðinni. Það er erfitt að taka eitthvað eitt út úr en fyrst og fremst eru það jákvæðar breytingar og uppbygging sem stendur upp úr í mínum huga, þegar ég lít til baka“, svarar Kjartan.

„Það sem kemur upp í huga mér sem eitt stærsta málið og mér finnst hafa skipt hvað mestu fyrir svæðið hér, er sameining sveitarfélaganna á sínum tíma. Mesti hitinn og umræðan í því snerist reyndar um nafnið á nýja sveitarfélaginu en minna um sameininguna sem slíka. Sem betur fer tókst að hafa góða samstöðu um hana, þetta var stórt mál. Annað sem var mjög mikilvægt, var flutningur skóla til sveitarfélaga frá ríkinu“, segir Jóhann.

Stærsta málið í seinni tíð er án efa brotthvarf Varnarliðsins og við komum aðeins inn á það. Þeir Kjartan og Jóhann, sem eru reyndar oft sammála um marga hluti, eru ekki sammála um það hvernig það mál bar að. Jóhann segir þetta hafa verið með öllu fyrirsjáanlegt en Kjartan ekki. Við förum ekki nánar út í þá sálma hér, heldur snúum okkur að öðru.

Stefnan sett á lægri forgjöf

En hvað er framundan hjá þeim Jóhanni og Kjartani? Ég inni þá eftir því hvaða verkefni bíði á borðinu.

„Það eru í sjálfu sér engin ný verkefni önnur en þau að sinna fjölskyldunni og vinnunni og kannski hef ég smá meiri tíma til að lækka forgjöfina hjá mér í golfi. Það er eiginlega aðalmálið hjá mér núna að vinna í því en það gengur ekki nógu vel“, svarar Kjartan og hlær. „Svona grínlaust þá er það fjölskyldan og vinnan, allavega er ég ekkert að fara í neitt annað í staðinn fyrir sveitarstjórnarmálin“, bætir hann við.

Eins og kunnugt er, réði Kjartan sig til Latabæjar fyrir nokkru og stjórnar þar markaðsmálum af fullum krafti. Er mikill munur í því að vera bæjarfulltrúi í Latabæ og Reykjanesbæ?

„Það er gríðarlegur munur“, svarar hann hlægjandi. „Ég ætla nú ekki að hætta mér mikið út í þá umræðu en báðar bæjarstjórnirnar hafa sinn sjarma og sín skemmtilegu verkefni“.

Forgjöf og fjöldi vinnudaga

„Mér er sagt að það sé til líf eftir bæjarstjórn og það er spennandi að skoða það eitthvað nánar“, svarar Jóhann þegar ég spyr hvað sé framundan hjá honum.

„Ég sagði nú hérna í gamla daga að svona upp úr fimmtugu væri kominn tími fyrir menn að ákveða hvað þær ætluðu að gera þegar þeir yrðu stórir“.

„Ertu búinn að ákveða það“, spyr Kjartan.

„Já, ég er eiginlega búin að því, ég hætti í sveitarstjórnarmálunum til að snúa mér að hinu faginu mínu, sem eru skólamál. Ég er svo heppinn að fá að starfa á þeim vettvangi og hef rosalega gaman af því. Ég hef alltaf haft ánægju af  því að vinna í  skólamálum og vinna með börnum. Þessa stundina fæ ég að spreyta mig sem skólastjóri í afleysingum og og mér líður afskaplega vel í því starfi. Reyndar sótti ég líka um nám á þessu sviði, sem ég hyggst sinna meðfram vinnu.

Að öðru leyti er kominn tími til að fara að slappa aðeins af og nota tímann fyrir fjölskylduna og sjálfan sig“.

„Þú ert sem sagt ekki í golfi?“, spyr Kjartan.

„Nei, það er ég ekki, en fyrst þú varst að nefna þetta með forgjöfina hérna áðan, þá var mér sagt að það væri ákveðið samræmi á milli hennar og fjölda vinnustunda í viku.  Hvað ertu annars með í forgjöf, Kjartan?“ spyr Jóhann.

„25, en það er alltof mikið, reyndar er talað um fjölda vinnudaga í mánuði í þessu samhengi. Þannig að sagt er að þeir sem eru með þrjá í forgjöf vinni að jafnaði þrjá daga í mánuði og séu í golfi hina dagana“, svarar Kjartan.

Fólk láti gamlar erjur til hliðar

Að lokum spyr ég þá félaga um kosningarnar framundan en skoðanakannanir uppá síðkastið benda til þess að það stefni í stórsigur Sjálfstæðismanna í Reykjanesbæ á meðan A-listi Framsóknar og Samfylkingar verður fyrir miklu fylgistapi. Hvað er að gerast?

„Ég hef áhyggjur af því hvernig þetta er að þróast“, svarar Jóhann. „Ég var hlynntur því að sameina þessa flokka í eitt framboð og taldi það mikilvægt til að koma í veg fyrir að það væri alfarið einn flokkur við völd. Þar sem slíkt hefur gerst verður jafnan uppi einn foringi og síðan einhverjir  lærisveinar og jábræður þar í kring. Við þessar aðstæður er ekki jafn mikil yfirvegum í stjórnun sveitarfélagsins og ólík sjónarmið komast ekki að.  Þess vegna fannst mér það spennandi að geta boðið upp á annan kost. Eitthvað virðist það ekki vera að ganga en ég held að þarna spili það eitthvað inn í að sumt fólk, sem hefur verið fylgjandi öðrum flokknum í þessu samstarfi, kæri sig ekki um að kjósa hinn flokkinn.  Sumir virðast ennþá vera að velta þessu fyrir sér og ég ætla sannarlega að vona að fólk láti gamlar erjur til hliðar og sameinist um þetta A-lista framboð til að tryggja lýðræðislega umræðu við stjórn bæjarfélagsins“, segir Jóhann.

Nú er bara gaman

Kjartan segir að eflaust séu margar ástæður fyrir því að staðan sé sú sem skoðanakannarnir sína. „Ég hef  hins vegar ekki trú á því að þetta fari svona eða 8 á móti þremur, eins og kannarnir sýna. Ég hef ekki trú á því að Njarðvíkingar sætti sig við það að Óli Thord nái ekki inn í bæjarstjórn. Hitt er, að það er búinn að vera gríðarlegur uppgangur í öllu þjóðfélaginu. Þessi uppbygging hér á Reykjanes er ekki einstök heldur á landsvísu og því ekki eingöngu núverandi meirihluta að þakka. Hann hefur verið heppinn að vera við völd á þessu hagvaxtaskeiði sem er enn á fleygiferð.

Það er mjög erfitt að koma fram við þessar kringumstæður og ætla að gera betur.

Hins vegar vitum við,  sem erum á kafi í þessu, að þegar grannt er skoðað, þá eru hlutirnir ekki eins góðir og þeir líta út fyrir að vera á yfirborðinu. En almenningur hefur kannski ekki áhuga á að vita það akkúrat núna, því nú er bara gaman. Það er engu að síður full ástæða fyrir bæjarbúa að staldra við og skoða það sem okkar frambjóðendur eru að segja t.d. um fjármál Reykjanesbæjar“, segir Kjartan.

Þetta látum við verða lokaorðin í þessu viðtali.

Hljóð: Viðtalið við Kjartan og Jóhann í heild sinni (Um 40 mínútna hljóðskrá).

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024