Bílakjarninn hekla
Bílakjarninn hekla

Mannlíf

Hleypur úr sumarbústaðnum til að fylgja fólki um Eldvörp
Miðvikudagur 12. júlí 2017 kl. 09:56

Hleypur úr sumarbústaðnum til að fylgja fólki um Eldvörp

Guðmundur Ó. Friðleifsson, yfirjarðfræðingur hjá HS Orku mun á morgun, fimmtudag,  leiða gönguhóp um Eldvörp á Reykjanesi. Eldvörp eru um 10 km löng gígaröð skammt vestan við Bláa lónið og Svartsengi. Er ferðin liður í verkefninu Útivist í Reykjanes UNESCO Geopark sem er samstarfsverkefni Reykjanes Geopark, Bláa lónsins og HS Orku hf. Markmið verkefninsins er að fólk kynnist einstöku umhverfi Reykjanessins í gegnum útivist, fróðleik og skemmtun.

Nú þegar er búið að standa fyrir Jónsmessugöngu og hjólaferð í samstarfi við 3N um Reykjanesbæ. Guðmundur, sem leiðir gönguna á fimmtudag, segist að vonum spenntur fyrir að fræða þá sem hyggjast koma með. Hann ætlar sér í raun að gera stutta pásu á sumarfríinu sínu og skreppur úr sumarbústaðnum til þess að mæta á svæðið og leiða hópinn, enda fáir eins vel til fallnir í verkefnið og hann. Guðmundur segir svæðið einstaklega fallegt og skemmtilegt sé að fara yfir jarðfræðina og aldur hrauna. Sem dæmi sé það elsta er um 12.500 ára gamalt og það yngsta bráðum 900 ára.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Nálægt Eldvörpum hafa minjar af skjóli steina og steyptum veggjum fundist. Þá fannst hellir hjá Eldvörpum þegar Hitaveita Suðurnesja var að bora þar. Stærð hellisins er um þrjátíu metra langur og sex til átta metra breiður svo ætla má að göngugarpar sjái ýmislegt sem gæti vakið áhuga. 

Geopark, eða jarðvangur, er skilgreint af alþjóðlegum samtökum Geopark sem nefnast Global Geopark Network og starfa undir verndarvæng UNESCO. Um 100 geoparkar eru aðilar að samtökunum í dag, og nær yfir svæði sem innihalda merkilegar jarðminjar.

Gangan hefst klukkan 18.00 og hist verður á bílaplani HS Orku í Svartsengi og þaðan keyrt saman vestur í Eldvörp.  Gangan tekur á bilinu tvær til fjórar klukkustundir og er gestum að kostnaðarlausu.

Mannvistarleifar við Eldvörp.