Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Hlaupið með friðarkyndil um landið
Friðarhlaup í Njarðvík.
Miðvikudagur 8. júlí 2015 kl. 10:47

Hlaupið með friðarkyndil um landið

Öllum velkomið að taka þátt.

Friðarhlaupið – Sri Chinmoy Oneness-Home Peace Run 2015
 
Dagana 1.-24. júlí fer fram Sri Chinmoy heimseiningar Friðarhlaupið um allt Ísland, en þá mun 12 manna alþjóðlegur hópur hlaupara hlaupa á milli byggða með logandi Friðarkyndilinn. Öllum gefst færi á að taka þátt, en sérstök áhersla er lögð á þátttöku barna og ungmenna. Þúsundir landsmanna hafa tekið þátt undanfarin ár. 
 
Kveikt var á Friðarkyndlinum 29. júní í ísgöngunum í Langjökli, en skipuleggjendur völdu þann stað því hann endurspeglar frið og sérstæðu Íslands og er í samræmi við þau orð Sri Chinmoy að Ísland er frumkvöðull í friðarmálum, bæði hvað varðar friðinn í hjarta þjóðarinnar og í náttúrunni.
 
Þann 1. júlí fór fram opnunarathöfn Friðarhlaupsins við Tjörnina í Reykjavík, en borgarstjóri setti hlaupið ásamt alþjóðlega Friðarhlaupsliðinu og börnum og ungmennum úr Reykjavík.
 
Friðarhlaupið (Sri Chinmoy Oneness-Home Peace Run) er alþjóðlegt kyndilboðhlaup. Tilgangur þess er að efla frið, vináttu og skilning manna og menningarheima á milli. Sem tákn um þessa viðleitni bera hlaupararnir logandi kyndil, sem berst manna á milli í þúsundum byggðarlaga í yfir hundrað löndum.
Friðarhlaupið safnar ekki fé og leitar ekki eftir stuðningi við pólitískan málstað. Markmið hlaupsins er einfaldlega að auka meðvitund um að friður, vinátta og skilningur hefjist í hjarta hvers og eins.
 
Friðarhlaupið hófst árið 1987 með þátttöku rúmlega 40 landa og var haldið annað hvert ár fram undir árþúsundamótin 2000, en síðustu árin hefur hlaupið verið haldið árlega. Rúmlega 140 lönd hafa tekið þátt frá upphafi og flest löndin taka þátt árlega.
 
Meðal íslenskra stuðningsmanna hlaupsins má nefna Vigdísi Finnbogadóttur, sem var verndari hlaupsins í forsetatíð sinni, Halldór Blöndal fyrrv. ráðherra og forseta Alþingis, Stefán Karl Stefánsson skemmtikraft og mannvin og Jón Gnarr fyrrverandi borgarstjóra.
 
Alþjóðlega heimasíða Friðarhlaupsins er: www.peacerun.org
Íslensk heimasíða Friðarhlaupsins er: www.friðarhlaup.is
Nánari upplýsingar: Torfi Leósson, s. 697-3974, [email protected]
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024