Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Hlaupari sem byrjar daginn á hugleiðslu
Laugardagur 26. júlí 2014 kl. 10:48

Hlaupari sem byrjar daginn á hugleiðslu

Afþreying Suðurnesjamanna

Una Sigurðardóttir er 42 ára viðskiptafræðingur frá Háskóla Íslands en hún sér um starfsmannamálin hjá Icelandair Technical Services. Una er fædd og uppalin í Reykjanesbæ, er gift og á fjögur börn. Hún er mikill maraþonhlaupari, les Vogue og hlaupatímarit og er alæta á tónlist. Una segir lesendum Víkurfrétta hér frá því sem hún gerir sér til afþreyingar.

Bókin

Bækurnar á náttborðinu hjá mér núna eru klassíkin Veröld sem var, sem ég var að klára en það er mjög áhrifamikil sjálfsævisaga rithöfundarins Stefan Zweig. Stefan Zweig var austurrískur gyðingur fæddur árið 1881 en hóf að skrifa sögu sína árið 1934 og lauk henni árið 1942. Daginn eftir að hann póstlagði  handritið til útgefanda styttu Zweig-hjónin sér aldur, einhvern veginn uppgefin á  lífinu í stríðshrjáðum heimi. Frábært að fá innsýn í líf þessa manns og sýn hans á heimsstyrjaldirnar og samtíma sinn. Núna var ég svo að byrja á The Book Thief sem er saga stúlku sem elst upp hjá fósturforeldrum í Þýskalandi á þeim tíma er Hitler var við völd. Frábær bók um manngæsku, harða lífsbaráttu og þá illsku og nálægð dauðans sem fylgdi valdatíma Hitlers. Einnig er ég áskrifandi að tímaritunum Runners world og Vouge en ég les þau spjaldanna á milli. 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Tónlistin

Ég er alæta á tónlist og hlusta mikið á tónlist, allt frá klassískri tónlist og svo það sem er vinsælt hverju sinni. Ég fæ svona dellu fyrir lögum sem ég hlusta endalaust á í smá tíma og svo taka ný lög við. Það sem mest er spilað í símanum hjá mér í sumar eru vinsælir smellir  eins og Fifa HM lagið, Love Never Felt So Good með Michael Jackson og JT, Stay with me með Sam Smith og Liar Liar með Cris Cab svo einhver séu nefnd. Einnig hef ég verið að  hlusta á hugleiðslu sem ég reyni að koma inn hjá mér einhvers staðar yfir daginn en hver hugleiðsla tekur um 15 mínútur á dag. Best ef ég næ þessu á morgnana en þá er það frábær grunnur að góðum degi en ég mæli með hugleiðslunni frá Oprah & Deepak, mér finnst hún æði.

Sjónvarpsþátturinn

Ég horfi lítið á sjónvarp, eiginlega bara ekki neitt nema þá kannski fréttir og svo á sunnudögum. Þá eru það helst viðtalsþættir eða bíómyndir. En það sem ég hef mest gaman af að horfa á eru góðir viðtalsþættir, að hlusta á, læra af og fá innsýn í líf fólks finnst mér mjög gaman. Svo er einn viðtalsþáttur í uppáhaldi hjá mér á netinu, Supersoulsunday á OWN. Þar er Oprah Winfrey að spjalla við fólk, en ég er mikill aðdáandi hennar.