Hlaupahópur Röggu Ragg safnað mest
Vinir og vandamenn hlaupa til góðs
Senn líður að Reykjavíkurmaraþoninu sem haldið er árlega af Íslandsbanka á Menningarnótt í Reykjavík. Þátttakendur safna fyrir ákveðið góðgerðarfélag og getur fólk styrkt sérstakan hlaupara eða hlaupahóp með því að fara inn á www.hlaupastyrkur.is, finna þar sinn hlaupara eða hlaupahóp og leggja inn peningauphæð að vild.
Eins og staðan er í dag er sá hlaupahópur sem safnað hefur hæstu upphæðinni Hlaupahópur Röggu Ragg sem stofnaður var af Björk Þorsteinsdóttur og Guðmundi Jens Guðmundssyni. Hópurinn sem samanstendur af fjölskyldu Ragnheiðar Ragnarsdóttur, vinum og kunningjum hleypur til styrktar Ljósssins sem er endurhæfingar – og stuðningsmiðstöð fyrir fólk sem hefur fengið krabbamein og aðstandendur þeirra.
Meðlimir hópsins vilja hlaupa til stuðnings baráttu Ragnheiðar við krabbamein og á að endurspegla það þakklæti sem hún og fjölskylda hennar bera til þess góða og þarfa starfs sem fer fram í Ljósinu.
Markmið hópsins er að safna 500.000 kr. en nú þegar hefur verið safnað 263.500 kr. og enn er rúmur mánuður í hlaupið.
Einn meðlimur hlaupahópsins, fitnessdrottningin Freyja Sigurðardóttir segist aldrei hafa hlaupið neitt af viti en ætlar að hlaupa hálft maraþon, eða 21,1 km. Ragnheiður hefur verið í þjálfun hjá Freyju og ákvað hún því að skora sjálfa sig á hólm og styrkja gott málefni í leiðinni. Fyrrum körfuknattleiksmaðurinn Albert Óskarsson og eiginmaður Ragnheiðar mun hlaupa 10 km sem og sonur þeirra Ragnar Gerald Albertsson.
Þeir sem vilja styrkja meðlimi hlaupahópsins geta gert það með því að fara inn á þessa síðu og gefið fjárframlög.
Mynd: Freyja Sigurðardóttir segist sjálf alls ekki vera mikil hlaupadrottning en lengsta vegalengdin sem hún hefur hlaupið eru um 10 km. Hún hefur ákveðið að hlaupa 21,1 km í Reykjavíkurmaraþoninu sem fram fer þann 24. ágúst.