Hlátur og grillangan í gamla bænum – Örn Árnason grillaði með Kikku
Hlátur og gleði í bland við grillangan barst úr garði í gamla bænum í Keflavík nú undir kvöld. Þarna voru samankomin grínistinn og leikarinn Örn Árnason og rithöfundurinn og athafnakonan Kikka eða Kristlaug María Sigurðardóttir.
Örn var þarna að taka upp fyrsta þáttinn í nýrri seríu matreiðslu- og spjallþátta sem sýningar hefjast á í byrjun júlí á Stöð 2. Það var síðan kvikmyndagerðarkonan Hrafnhildur Gunnarsdóttir sem stóð á bakvið myndavélina.
Örn Árnason sagði að þættirnir yrðu með einföldu sniði og að eldamennskan yrði ekki flókin. Umfram allt verða þættirnir skemmtilegir og áhorfendur fá að kynnast vel gestum þáttarins sem jafnframt aðstoða Örn við grillið. Þá koma jafnvel óvæntir gestir í þáttinn og þannig verður það í fyrsta þættinum þegar þar mætir, alveg óvart, gestur sem er lesendum Víkurfrétta vel kunnur. Ekkert verður upplýst frekar um það hér.
Upphaflega stóð til að Kikka myndi leggja til sitt eigið grill í þættinum en eins og sjá má á einni af myndunum sem fylgja þessari frétt, þá er það grill nú ekki upp á marga fiska.
Meðfylgjandi ljósmyndir tók útsendari Víkurfrétta, Hilmar Bragi Bárðarson.
Örn og Kikka útbúa salatið með grillsteikinni. Hrafnhildur kvikmyndatökukona með myndavélina.