Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

  • Hlæjandi í sex vikur
    Berglind Bjarnadóttir, ein af leikurum í revíunni Með ryk í auga.
  • Hlæjandi í sex vikur
    Félagar í leikfélaginu mætti á bæjarstjórnarfund.
Laugardagur 1. nóvember 2014 kl. 09:00

Hlæjandi í sex vikur

Berglind Bjarnadóttir leikur fimm hlutverk í revíunni Með ryk í auga.

„Við erum búin að vera að grenja úr hlátri í sex vikur. Þetta er ofsalega skemmtilegur hópur og tilvalinn félagsskapur fyrir fólk sem er ekki mikið í íþróttum eða öðrum áhugamálum. Þetta er mikil vinna, sem er líka skemmtilegt, og ég þarf á því að halda að henda mér í þetta og svala athyglissýki minni framan í bæjarbúa,“ segir Berglind Bjarnadóttir, leikkona hjá Leikfélagi Keflavíkur en revían Með ryk í auga verður frumsýnd á föstudag.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Árni Sigfússon, fyrrum bæjarstjóri Reykjanesbæjar, fær sinn skammt af skotum.

Revíur hafa jafnan verið vinsælustu verk Leikfélags Keflavíkur í gegnum tíðina. „Við erum dálítið klúrin og beinskeytt og það má alveg. Þetta er mjög skemmtilega sett upp. Það urðu bæjarstjórnaskipti í Reykjanesbæ og nýjar persónur sem koma fyrir. Það er ekki verið að gera lítið úr neinum, aðallega skjóta á fólk. Sumir móðgast, það hafa ekki allir sama húmor. Það þarf enginn að óttast að verða niðurlægður.“

Konráð Lúðvíksson með græna fingur.

Leikur fimm hlutverk
Félagar í leikfélaginu hafa undanfarnar vikur búið til sketsa og samið texta við lög sem allir þekkja. Svo eru gervi búin til og stíll fundinn fyrir hvert hlutverk. „Spennan er mikil um á hvern verður skotið og hver verður tekinn fyrir. Hjálmar Hjálmarsson leikstjóri skipar í hlutverk eftir sönggetu og ýmis konar hæfni til að allt passi sem best. Ég leik fimm hlutverk, þar af eina sem er ljóshærð og aðra sem er dökkhærð. Við erum fjórar konur í þetta sinn og kvenhlutverkin skiptast á milli okkar. Við erum færri sem tökum þátt en alla jafna í þessum uppfærslum. Veit ekki hvað veldur,“ segir Berglind.

HSS fær sinn skammt.

Fékk trommukjuða í augað
Til að koma sér enn betur inn í hlutverkin skellti leikhópurinn sér á bæjarstjórnarfund í síðustu viku. „Við lifðum okkur inn í persónurnar. Það var líka skemmtilegt fyrir þau því þau tóku eftir okkur, vitandi að við munum leika þau. Gaman að kíkja á svona fund rétt fyrir frumsýningu,“ segir Berglind. Þá segir hún að oft gangi mikið á í undirbúningi á æfingum og lítið megi út af bregða. „Í búningsklefanum hef ég t.d. skamman tíma til að skipta úr einu hlutverki í annað. Á æfingu um helgina kom ég alltof seint á svið því hamagangurinn var svo mikill að einhverjir trommukjuðar stóðu upp úr einhverju og ég rak augað í einn þeirra. Ég var heillengi að tárast og kom hlaupandi fram á svið með aðra hönd fyrir öðru auganu. Þetta reddast þó allt saman og maður er orðinn ansi klár í að hendast úr einu hlutverki í annað.“

...lögreglan líka.

Álagið algjörlega þess virði
Berglind starfar sem verslunarstjóri hjá Samkaup-Strax við Hringbraut í Reykjanesbæ. Spurð um hvort leiklistarlífið sé ekki tímafrekt ofan á önnur hlutverk í lífi hennar segir Berglind að hún leggi þetta allt saman á sig þótt hún verði með bauga og eigi kannski eftir að falla í yfirlið eftir frumsýningu. „Þetta er þetta algjörlega þess virði og ég hvet alla til að vera með í þessu starfi í framtíðinni. Við erum að lyfta menningunni aðeins upp. Ég hvet líka alla til að koma. Þetta er áhugamannaleikfélag og revían er okkar helsta tekjulind. Þetta er ódýrara en að fara í stóru leikhúsin og gaman að geta farið í leikhús í eigi bæjarfélagi. Það bjóða ekkert öll bæjarfélög upp á slíkt,“ segir Berglind, mjög spennt.  

Úr sýningunni „Með ryk í auga“.


VF/Viðtal: Olga Björt
VF/Myndir Hilmar Bragi