Mannlíf

  • Hjúkrunarfræðingur er líka karlastarf
    Sindri lærir hjúkrun ásamt þríburasystur sinni Söru.
  • Hjúkrunarfræðingur er líka karlastarf
    „Það vantar fleiri karla til að jafna út hópinn“, segir Sindri.
Föstudagur 24. mars 2017 kl. 06:15

Hjúkrunarfræðingur er líka karlastarf

-„Fólki finnst skrýtið að sjá karlkyns hjúkrunarfræðinga“

Seinustu vikur hefur mikið verið rætt um ,,Kvennastarf", sem er átak sem hvetur fólk til þess að láta ekki samfélagsleg kynhlutverk aftra sér þegar það velur sér starfsgrein. Þar er rætt við ýmsar konur sem hafa valið sér frekar karllæg störf og athygli vakin á því að til dæmis flugmenn og kokkar séu líka kvennastörf.

Víkurfréttir ákváðu að snúa dæminu við og forvitnast um ,,karlastörf" og skyggndust inn í líf Sindra Stefánssonar sem er 22 ára hjúkrunarfræðinemi við Háskólann á Akureyri.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Sindri er fæddur og uppalinn í Reykjavík en hefur búið í Njarðvík í 10 ár. Hann er á fyrsta ári í hjúkrunarfræðinámi en áhugi Sindra á því námi kviknaði þegar hann starfaði við aðhlynningu á sjúkrahúsi úti á landi.

,,Ég ákvað eitt sumarið að breyta til og skipta um umhverfi. Ég hafði lengi unnið í eldhúsi og mér var boðin vinna á sjúkrahúsi. Ég sló til og bjóst þá við því að vinnan færi fram í eldhúsinu," segir Sindri.

Sú var hins vegar ekki raunin því strax á fyrsta degi var honum hent í djúpu laugina þar sem hann fékkst við aðhlynningu sjúklinga og eftir það var ekki aftur snúið.

,,Ég kynntist æðislegu fólki, bæði sjúklingum og starfsfólki en það sem mér finnst skipta mestu máli er að ég kynntist sjálfum mér betur." Áhuginn fyrir starfinu varð strax mikill og Sindri fór að sjá það skýrar að hann vildi starfa sem hjúkrunarfræðingur í framtíðinni.

,,Það að vera karlkyns hjúkrunarnemi finnst mér æðislegt. Það fylgir því mikið stolt og virðing, enda er þetta mjög krefjandi og gefandi nám. Fólki finnst skrýtið að sjá karlkyns hjúkrunarfræðinga því samfélagið sjálft ýtir undir þessa staðalímynd," segir Sindri og vísar í það að nánast hvergi megi sjá auglýsingar þar sem hjúkrunarfræðingurinn sé karlmaður.

,,Það vantar fleiri karla til að jafna út hópinn og þá aðallega til að samfélagið átti sig á því að þetta er ekki bara kvennastarf. Til þess að fjölga karlmönnum meðal hjúkrunarfræðinga þarf meiri markaðssetningu, vitundarvakningu og klárlega kjarkinn hjá karlmönnum til að þora að taka þetta skref."