Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Miðvikudagur 19. janúar 2000 kl. 18:40

HJÚKRUN

Ég ætla að fjalla um hjúkrun og sögu hjúkrunar í tilefni þess merka áfanga að undirritað var samkomulag um háskólanám á Suðurnesjum 29.desember s.l. á milli Háskólans á Akureyri og Miðstöðvar símenntunar á Suðurnesjum um fjarnám í hjúkrunarfræði haustið 2000. Heilbrigðisstofnun Suðurnesja er einnig aðili að samningi þessum að hluta. Fjarnám í hjúkrunarfræðum er mjög mikil lyftistöng fyrir Suðurnesin og horfi ég björtum augum til framtíðar í þeim málum og vona að skortur á hjúkrunarfræðingum á svæðinu heyri sögunni til eftir nokkur ár. Upphaf hjúkrunar hefur verið rakið til Florens Nightingale 1820-1910. Florens var langt á undan sinni samtíð með hugmyndir. Hún lagði áherslu á umhverfi, hreinlæti, næringu, heilbrigðisfræðslu, fyrirbyggingu sjúkdóma og að sjúklingar næðu sínum fyrri styrk. Hún lagði mikið upp úr því að byggja upp hjúkrunarmenntun. María Pétursdóttir (1969) rekur sögu hjúkrunarmála á Íslandi og talar um fátæklegar heimildir, þar sem sennilega hafi ekki þótt í frásögur færandi að konur fengjust við hjúkrun. Talið er að hjúkrun sé afsprengi þeirrar móðurlegu umhyggju, sem konur veittu innan veggja heimilanna hér áður. Konur ólu börn sín heima, umönnun sjúkra fór fram heima og fólk lá banaleguna heima. Fyrstu hjúkrunarkonurnar komu til starfa á Íslandi um aldamótin 1900, stórhuga konur sem þurftu að sækja sitt nám á erlenda grund a.m.k. að hluta, þar til Hjúkrunarkvennaskóli Íslands var stofnaður 1931. Eftir það fór allt nám fram hér heima. Frá upphafi gerðu hjúkrunarkonur miklar kröfur til menntunar og hefur hjúkrunarnámið tekið miklum breytingum gegnum árin, samfara breyttri heilbrigðisþjónustu. Hjúkrun er nú orðin fræðigrein, hún er kennd á háskólastigi og hjúkrunarfræðingar leggja stund á rannsóknarstörf, sem þróa aukna þekkingu, sem síðan leiða til betri hjúkrunargæða á öllum sviðum í heilbrigðiskerfinu. Starfsheitinu hjúkrunarkona var breytt árið 1975 í hjúkrunarfræðingur. Árið 1986 var allt hjúkrunarnám flutt yfir á háskólastig og Hjúkrunarskóli Íslands lagður niður. Haustið 1987 hófst hjúkrunarnám við Háskólann á Akureyri. Hjúkrunarstarfið byggir á þekkingu og skilningi á eðli mannsins og beinist að því að gera einstaklinginn hæfan á ný og efla bjargráð hans. Hjúkrað er undir formerkjum til lífs og vonar. Einkunarorð Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga er: Hugur - Hjarta ? Hönd. Ég vil að lokum hvetja alla þá sem hafa áhuga á hjúkrun að skoða þann námsmöguleika sem í boði er hjá Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum með fjarnámi í hjúkrunafræði frá HA núna á haustmisseri 2000 ef lágmarksfjöldi nemenda næst, en það eru sex nemendur. Góðar stundir, Erna Björnsdóttir hjúkrunarforstjóri
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024