Hjólbörutónleikar í kvöld
- Tónleikagestir velja óskalög
Hljólbörutónleikarnir sem slógu í gegn á síðustu Ljósanótt verða endurteknir í Keflavíkurkirkju í kvöld kl. 20 en þá munu gleðigjafarnir Arnór B. Vilbergsson, Elmar Þór Hauksson og Kjartan Már Kjartansson bregða á leik og taka við óskalögum tónleikagesta.
Flutt verða lög af ríflega 100 laga lista samkvæmt óskum tónleikagesta og má því segja að efnisskráin verði til á staðnum. Hvert lag hefur númer og sá sem galar hæst getur átt von á því að fá lagið sitt flutt.
Yfirleitt eru tónleikar í kirkjum býsna dannað fyrirbæri, en þessir voru það ekki
Að sögn Arnórs sem er organisti í Keflavíkurkirkju komu hjólbörutónleikarnir í fyrra mikið á óvart.
„Þeir tókust gríðarlega vel og var kirkjan yfirfull mjög snemma. Stemmningin var skemmtileg en það má segja að ákveðin spenna og ánægja hafi einkennt viðburðinn. Yfirleitt eru tónleikar í kirkjum býsna dannað fyrirbæri, en þessir voru það ekki,“ segir hann og hlær.
„Fólk gerði hvað sem var til að fá sitt lag leikið og virtist vera vel með á nótunum um hvað málið snérist. Ef þú ekki lætur í þér heyra hvaða lag þú vilt, færðu að öllum líkindum ekki að heyra það. Það eru jú, vel yfir 100 lög á listanum.“
En er ekki erfitt að læra 100 lög?
„Nei alls ekki, 100 lög er ekki mikið,“ segir Elmar Þór söngvari öruggur í fasi en það er ljóst að slíkt er ekki á allra færi og þarf hann að bregða sér í ýmsar söngstellingar enda lögin af ýmsum toga s.s. popplög, sálmar og óperuaríur.
„Það var voðalega gaman á tónleikunum í fyrra og margir ágengir að koma sínum lögum að en við vissum ekki hvernig fólk myndi taka þessum tónleikum. Það kom svoldið á óvart hvaða lög voru valin, til dæmis var ekkert af því sem ég hélt að yrði vinsælast valið. En það er nú það sem er svo skemmtilegt við þessa tónleika, það eru tónleikagestir sem ráða.”
Að sögn Arnórs eru þeir búnir að uppfæra lagalistann og hjólbörurnar.
„Við verðum að þessu sinni með 100kg og 801 millarco börur.“
Tónleikarnir hefjast kl. 20:00 fimmtudaginn 1. september og er miðaverð kr. 1500. Miðasala verður við innganginn.