Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Mannlíf

Hjóla um helga stíga Spánar
Ásdís og Gunnar í byrjar ferðinnar í Cambrils.
Laugardagur 26. desember 2015 kl. 08:00

Hjóla um helga stíga Spánar

- Segja yndislegt að upplifa náttúruna og mannlífið hjólandi.

 
Ævintýrafólkið Gunnar Örn Guðmundsson og Ásdís Friðriksdóttir eru á besta aldri, hann er sjötugur og hún 65 ára. Þau eru þó ekki farin að huga að því að setjast í helgan stein, heldur er ofar í huga þeirra að hjóla um helga stíga á Spáni. Undanfarin tvö sumur hafa þau hjólað pílagrímaleiðir á Spáni, um þúsund kílómetra í hvort skipti. Árið 2014 hjóluðu þau þann hluta Jakobsvegarins sem hvað þekktastur er, frá Frakklandi og núna í haust fáfarnari leið. Þau segjast ekki finna fyrir því að aldurinn geri hjólreiðarnar erfiðari. „Þetta er hægt ef maður er við góða heilsu. Við eigum ekki að láta aldurinn skipta máli. Það er svo rosalega gaman að fara út að hjóla. Mér finnst eins og ég verði aftur krakki á hjólinu,“ segir Ásdís. Gunnar segir hjólreiðaferðirnar óborganleg ævintýri sem ekki sé nokkur möguleiki að bera saman við hefðbundna sólarlandaferð. „Þegar fólk fer í sólarlandaferðir heldur það oft að það hafi komið til Spánar en það er ekki alvöru Spánn. Uppi í fjöllunum upplifir maður raunverulega Spán og enga fulla Breta,“ segir hann.
 
 
Á fjallinu Montserrat rétt utan við Barcelona. Þar eru fallegar klausturbyggingar. Hjólaferð hjónanna í ár hófst þar.
 
Vinsælustu pílagrímaleið Evrópu, sem nefnd er franska leið Jakobsvegarins, hjóluðu hjónin í fyrra. Þá lá leiðin frá Frakklandi, yfir Pýreneafjöllin og til spænsku borgarinnar Santiago de Compostela. Leiðin var ein helsta pílagrímaleið kristinna manna á miðöldum og var 
ein af mörgum slíkum sem veittu syndaaflausn samkvæmt kaþólsku kirkjunni. Sú leið er fjölfarin og talið að um 600.000 pílagrímar leggi hana að baki ár hvert. 
Leiðin sem þau hjóluðu í ár kallast Katalónska leiðin. Hún hófst í Barcelona og lauk í Léon og er hún mun fámennari en sú franska. Þau hittu einungis þrjá pílagríma, en þar að auki fjöldann allan af fólki sem býr í bæjunum sem þau hjóluðu í gegnum, enda gáfu þau sér góðan tíma til að skoða hin ýmsu þorp og bæi sem á leið þeirra urðu og lögðu oft krók á leið sína ef eitthvað spennandi var að sjá utan pílagrímaleiðarinnar. 
 
Fólk hefur oft á orði við þau Gunnar og Ásdísi að það sé mikill dugnaður að fara í svo langa hjólaferð en Ásdís segir þetta ekki snúast um dugnað. „Þetta er frekar spurning um að langa til að taka á móti hverjum degi og að hafa hugrekki til að leyfa honum að koma eins og hann er,“ segir hún. Þekkt er að fólk gangi eða hjóli Jakobsveginn þegar það stendur á tímamótum í lífi sínu, en þau hjónin hjóla til að þakka fyrir það hve gott líf þau hafa átt. „Í svona ferð er fólk eitt með sjálfu sér og í okkar tilfelli líka með sínum besta vini. Maður er ekki að tala allan daginn og er því mikið einn með sjálfum sér,“ segir Ásdís. Þau hjónin hafa prufað að fara í sólarlanda- og hópferðir til útlanda og segja það ekki nándar nærri eins skemmtilegt eins og að hjóla saman á vit ævintýranna.
 
 
Sterk fjölskyldubönd á Spáni
Gunnar og Ásdís hófu ferðina rétt fyrir utan Barcelona síðasta haust, nánar tiltekið á fjallinu Montserrat. Fjallið er ansi bratt og gengur lest þangað upp. Þau segja það hafa verið mikla upplifun að fara upp Montserrat en þar eru falleg klaustur. Þau mæla með að allir sem eigi leið til Barcelona kíki við upp á Montserrat. Pílagrímaleiðin liggur á milli þorpa og borga. Segjast þau aldrei hafa pantað gistingu fyrirfram heldur gist þar sem þau lysti hverju sinni. Þau voru með leiðarbók og lista yfir öll gistiheimili með sér og lentu nær aldrei í vandræðum við að finna sér næturstað. Hægt er að láta ferja farangurinn fyrir sig, en að þeirra mati vantar hluta af þeim ef þau eru ekki með farangurinn sinn meðferðis og reiddu þau því allan farangurinn á hjólunum.
 
Guðmundur Stefán, sonur Gunnars og Ásdísar, hafði þrjár au-pair á heimili sínu síðasta árið og voru þær allar spænskar. Því skipulögðu þau ferðina í ár þannig að þau byrjuðu að heimsækja þær allar. Þá fyrstu, Cörlu hittu þau í bænum Cambrils, sunnan við Barcelona. Þaðan fóru þau með lest til Montserrat og hófu sjálfa pílagrímsferðina. Frá Montserrat hjóluðu þau til Saragozza og þaðan til fjallaþorpsins Sarvise sem staðsett er við rætur Pýreneafjallanna þar sem þau hittu Raquel og gistu þar í þrjár nætur og gáfu sér tíma til að upplifa náttúrufegurð 
fjallanna. Þaðan héldu þau í vestur til Burgos til Ángelu, þriðju au-pair stúlkunnar.
 
Hjónin fengu góðar móttökur hjá fjölskyldum stúlknanna og segja áberandi hversu sterk fjölskyldutengslin eru þar í landi. „Við fórum í matarboð þar sem var langborð yfir stofuna og öllum ömmum og öfum, frænkum og frændum var boðið. Við vorum eiginlega orðin hálf þreytt á öllum matnum um miðnætti,“ segir Ásdís.
 
 
Gunnar og Ásdís í Lion við lok ferðarinnar. Eins og sjá má eru þau með skeljarnar um hálsinn en þær tákna að þau séu pílagrímar.
 
Týnast aldrei í útlöndum
Á leiðinni hjóluðu Ásdís og Gunnar meðfram maísökrum, eplalundum, vínberjaekrum og piparökrum. Ávextina týndu þau volga af trjánum og gæddu sér á. „Þetta er eitthvað sem aðeins er hægt að upplifa þegar maður er hjólandi eða gangandi. Maður upplifir dýraríkið, mannfólkið og jurtirnar. Svona upplifir maður ekki í bílferð,“ segir Gunnar. 
 
Merki pílagríma er skel sem þeir bera um hálsinn og voru Gunnar og Ásdís einnig með þannig. Alla leiðina eru svo gular örvar eða skeljar sem vísa veginn. Þau segja mikla virðingu borna fyrir pílagrímum á Spáni og er það gömul trú að ekki megi gera þeim mein heldur auðvelda þeim leiðina sem mest. Skemmtilegast af öllu segja þau að hitta og tengjast fólkinu sem þau hittu á leiðinni. „Maður hittir þarna fólk sem maður þekkir ekki neitt og það verður nákomið manni á augnabliki, næstum því eins og fjölskylda,“ segir Gunnar. Á leiðinni hjóluðu þau yfir ævafornar steinhlaðnar brýr frá Rómartímanum og um þrönga dali og upplifðu mannlífið í spænskum smábæjum.
 
Á kortinu má sjá leiðirnar sem Ásdís og Gunnar hjóluðu. Bláa leiðin heitir Franska leiðin og hana hjóluðu þau í fyrra. Rauða leiðin heitir Katalónska leiðin og þá leið hjóluðu þau í haust.
 
Ýmislegt getur út af brugðið í þúsund kílómetra hjólaferð og segja hjónin það hluta af upplifuninni. Til að mynda sprungu öll dekkin og eyðilögðust þegar þau hjóluðu yfir lítil, beitt gróðurkorn við árbakka sem stungust inn í dekkin. Þá voru þau stödd í litlu þorpi, 20 kílómetrum frá næstu hjólabúð og góð ráð dýr. „Þá kom þarna maður sem vildi hjálpa okkur. Honum fannst það akkúrat ekkert mál að keyra okkur í hjólabúðina. Ef maður bara gáir að því, þá eru englarnir ekkert endilega með vængi. Þeir eru fólkið í kringum okkur. Það er sama í hverju maður lendir, þá er alltaf einhver nálægur sem vill hjálpa,“ segir Ásdís. Þau segja það sama gilda með að það rata, það sé ekki hægt að týnast í útlöndum því alltaf sé fólk nálægt sem vilji hjálpa og gildir þá einu hvort það tali sama tungumál og týndu ferðamennirnir. Þau voru þó alltaf með orðabók með sér til að bjarga sér ef nauðsyn krefði. „Þá var oft gott að kíkja í bókina og finna þetta eina orð sem skiptir öllu máli,“ segir Ásdís. Gunnar segir hjálpsemi Spánverja alveg með eindæmum. „Maður lendir nær 
aldrei í veseni og það er ekki séns að týnast. Það er bara þannig.“
Einu sinni gerðist það að villisvín hljóp í loftköstum fyrir þau og varð Ásdís nærri fyrir því. Þau segja villisvínin mjög spretthörð og minni þau helst á ketti, svo hröð og lipur eru þau.
 
Ætla í þriðju hjólaferðina til Spánar
Á Íslandi hjóla Ásdís og Gunnar töluvert yfir sumartímann og segja meir en nóg af skemmtilegum hjólaleiðum að velja úr. Oft fara þau í ferðalög innanlands með hjólin aftan á bílnum. Stundum hjóla þau lengri leiðir og hafa þá tjald og svefnpoka með á hjólunum. Hjónin eru hvergi nærri hætt að hjóla um Spán og stefna þangað enn á ný á næsta ári. Þá ætla þau að hjóla leið sem heitir Vía de la Plata eða Andalúsíuleið Pílagrímsleiðarinnar en hún liggur frá Sevilla í suðri til Santiago de Compostella í norðri. Sú leið er einnig gömul og fáfarin pílagrímaleið og um 1200 kílómetra löng. Það má því búast við fleiri ævintýrum hjá hjónunum í nýju ári.
 
 
Ásdís og Gunnar sæl við lok ferðarinnar. 
 
Með Raquel í Sarvise. Hún var áður au-pair hjá Guðmundi syni þeirra og fjölskyldu.
Með Angelu í Burgos. Hún var au-pair hjá syni þeirra.
 
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024