Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Hjálmar rifu upp stemninguna á mögnuðu Mars-rokki NFS
Laugardagur 27. mars 2010 kl. 16:22

Hjálmar rifu upp stemninguna á mögnuðu Mars-rokki NFS


Tvær vinsælustu hljómsveitir landsins um þessar mundir tróðu upp í Andrew’s leikhúsinu í gærkvöldi á svokölluðu Mars-rokki Nemendafélags Fjölbrautaskóla Suðurnesja við frábærar undirtektir áhorfenda.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Dikta hófu leikinn með smellinum „From Now On“ og héldu svo áfram frábærum tónlistarflutningi ásamt meðal annars því að deila með áhorfendum góðri sögu frá New York.


Næst á svið var framlag Fjölbrautaskóla Suðurnesja til Söngkeppni Framhaldsskólanna sem haldin verður á Akureyri 10. apríl. Eyrún Ösp Ottósdóttir söng lagið „Á vængjum englanna“ sem er íslenskuð útgáfa af laginu „Hear You Me“ með Jimmy Eat World. Með henni voru Bjarki Már Viðarsson, Kristjón Guðmundsson á gítar og Karen Lind Óladóttir bakrödd.


Þá var komið að Suðurnesjasveitinni Hjálmum að stíga á svið. Framan af var dagskrá þeirra í rólegri kantinum og sátu áhorfendur og dilluðu sér í rólegheitum við heimsklassa „performans“ frá sveitinni. Eftir lokalagið voru áhorfendur langt frá því að vera komnir með nóg og klöppuðu og kölluðu sveitina aftur á svið. Þegar „Varúð,“ „Borgin“ og loks „Taktu þessa trommu“ voru spiluð mátti halda að þakið ætlaði af nýuppgerðu húsinu, svo mikil var stemningin. Fólk var staðið upp úr sætunum og komið upp að sviðinu, dansandi og syngjandi með af mikilli innlifun.


Óhætt er því að segja að stemningin hafi verið engu lík og tónleikarnir hafi svo sannarlega staðið fyrir sínu. Von er á fleiri myndum innan skamms í ljósmyndasafn vf.is.


VF-myndir og texti/ Hildur Björk Pálsdóttir