Hitti sjálfan Aragon í Leifstöð
Ólafur Ingvi Hansson, 8 ára piltur úr Heiðarskóla, datt heldur betur í lukkupottinn á laugardaginn þegar hann fékk að hitta leikarann Viggo Mortensen í Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Morthensen, sem er þekktastur fyrir leik sinn sem Aragorn í Hringadrottinssögu, Lord of the Rings, var á leið til Ameríku eftir að hafa verið hér á Íslandi í vikudvöl þar sem hann fór m.a. í Bláa-lónið og í útreiðartúr.Inga Ósk Ólafsdóttir móðir Ólafs Inga tók mynd af þeim félögum og sagði hún að strákurinn hefði verið í skýjunum yfir að hafa hitt goðið sitt og væri hann ekki enn kominn niður á jörðina. Hún sagði að Viggo Morthensen hefði verið alveg yndislegur. „Hann hafði lítinn tíma þar sem búið var að kalla út í vél þegar við hittum hann. Hann var mjög kurteis og tók í höndina á okkur áður en hann fór“, sagði hún í samtali við Víkurfréttir.