Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

  • Híf opp!
  • Híf opp!
Laugardagur 10. júní 2017 kl. 06:00

Híf opp!

- Gamansögur af íslenskum sjómönnum

Nýverið kom út hjá Bókaútgáfunni Hólum bókin Híf opp! og inniheldur hún gamansögur af íslenskum sjómönnum. Höfundur bókarinnar er Guðjón Ingi Eiríksson og hefur hann leitað efnis víða. Þarna koma meðal annars við sögu Eiríkur Kristófersson, Magni Kristjánsson, Jón Berg Halldórsson, feðgarnir Oddgeir og Addi á Grenivík, Ragnar Ingi Aðalsteinsson, Lási kokkur, Einar í Betel, Binni í Gröf, Snæbjörn Stefánsson, Fúsi Axels, Ingvi Mór, Slabbi djó, Doddi hestur og Gunnar Trausti Guðbjörnsson. Eru þá sárafáir upp taldir.
Hér á eftir koma nokkrar Suðurnesjasögur úr bókinni:
 
Eins og klukka
Það voru tveir sjómenn í Höfnum, sem gerðu út hvor sinn bátinn að sumarlagi.
Annar var kallaður Steini Árna en hinn Einsi Ól.
Steini Árna átti ágætis bát með Wichmann-vél, hann var mjög vandvirkur maður
og fór vel með vélar; þurfti ekki annað en rétt að koma við vélina og þá var hún
komin í gang og hann af stað. En aumingja Einsi var með Solo-vél í bátnum sínum og það var oft og tíðum að hann þurfti að snúa og snúa og snúa, til að koma henni í gang. Oft þurfti hann svo að hætta að snúa og stjaka bátnum frá Kirkjuskerinu, nú eða frá Flataskeri og byrja svo upp á nýtt. Að lokum fór vélin nú alltaf í gang hjá honum, en oft eftir mikið baks og vesen.
Svo var það einu sinni að þeir voru báðir komnir að og lágu með bátana við
bryggjuna, þegar kemur maður niður á bryggju sem kannaðist við Einar. Hann
tekur hann tali og segir við hann:
„Varstu að fiska, Einar?“
„Uh … jaaá,“ sagði Einsi.
„Og er þetta góður fiskur?“
„Uh … jaaáh,“ svaraði Einsi.
„Og er þetta góður bátur sem þú ert með?“
„Jaaaaáh,“ sagði Einsi.
„Og er vélin góð?“
„Jaaaaáh,“ sagði Einsi.
„Og er hún góð í gang?“
„Eins og klukka!“
Og þá heyrðist í Steina, úr hinum bátnum:
„Ehe … sko … það er nokkuð löng í henni fjöðrin!“
 
*
Hringsnerist allt skvapið
Þóroddur Vilhjálmsson í Merkinesi í Höfnum var lengi á sjó, alveg frá
unglingsaldri, og varð aldrei nokkru sinni sjóveikur. Það næsta sem hann komst
því að verða sjóveikur, gerðist þegar hann var um borð í báti með manni sem hét
Viðar Þorsteinsson frá Kirkjuvogi, en Viðar var afskaplega þéttvaxinn og
holdmikill, svo ekki sé meira sagt.
„Við vorum á stími í land og Viðar hafði sofnað andspænis mér. Ég gat ekki annað en horft á ístruna á honum, því hún hreyfðist í öfugu hlutfalli við sjólagið. Þegar báturinn fór upp öldu, seig ístran á honum niður á hné, en svo þegar báturinn fór niður í öldudal, þá lyftist hún upp og small alveg upp undir höku. Þar fyrir utan þá hringsnerist allt skvapið, svo ég er ekki frá því að ég hafi í þetta fyrsta og eina skipti fundið fyrir klígju á sjó.“
 
*
Ég á undan
Friðmundur Herónýmusson, oftast kallaður Freddi, formaður og útgerðarmaður í Keflavík, var bæði fljóthuga og óðamála. Hann lýsti svo átökum, sem hann lenti í:
„Þegar ég kom á móti honum, piltar, með krepptan hnefann, þá tók hann sko til fótanna – og ég á undan!“
 
*
Einn uppi á dekki
Eitt sinn kom Freddi um borð í bát sinn í talsverðri ylgju í Keflavíkurhöfn og varð ekki manna var ofan þilja. Snaraðist hann þá fram í lúkarsopið og öskraði niður:
„Eruð þið vitlausir, strákar, að skilja bátinn svona einan eftir uppi á dekki?“
 
*
Fljótur að fara klukkutímann
Nýr vélbátur, Víðir II, hafði bæst í fiskiskipaflota Suðurnesja. Eigandi bátsins, Guðmundur Jónsson á Rafnkelsstöðum í Garði, var að lýsa ágæti hans og endaði mál sitt þannig:
„Já, hann er fljótur að fara klukkutímann!“
 
*
Magnús og risaskatan
Einu sinni bjó í Garðinum maður sem venjulega var kallaður Magnús í Króki.
Hann var talinn afbragðs verkmaður til hvers sem hann gekk, en sérstaklega er það í frásögur fært, hver afburða sjómaður hann var. Er það til marks um dirfsku hans og áræði, að eitt sinn fór hann til Vestmannaeyja og sótti þangað teinæring við þriðja mann. Þótti sú ferð erfið mjög og var lengi í minnum höfð.
Óspar var Magnús að segja frá hreystiverkum sínum og svaðilförum. Til vitnis um það er meðal annars eftirfarandi saga sem höfð var eftir honum og byggir á skrifum Jóns Guðmundssonar á Kópsnesi.
Einu sinni sem oftar reri Magnús til fiskjar. Var hann einn á fjögurra manna fari, sem oft var vandi hans. Reri hann út á svonefndar Setur sem eru almenn fiskimið í Garðsjó.
Leggst Magnús nú við stjóra og rennir færi, en verður ekki fisks var. Hankar hann þá upp færið og rær snertu til hafs og reynir þá fyrir sér í annað sinn. Rær hann þá enn til hafs nokkurn spöl, leggst svo við stjórann og rennir nú færi í þriðja sinn. Gengur svo æðilengi, að hann verður einskis var. Tekur honum þá að leiðast og ætlar að halda heimleiðis við svo búið, þótt sjaldan hafi hann horfið heim öngulsár með öllu.
En þegar Magnús er byrjaður að draga upp færið er bitið á. Lifnar nú skjótt yfir honum og tekur hann að draga sem ákafast. En það finnur hann brátt að ekki muni það vera nein smáræðisskepna, sem hann hefur komist í kast við, því að allmjög reyndist honum erfiður drátturinn.
Loks kemur að því að Magnús fær tosað þessari skepnu upp á yfirborðið og er
hann þá orðinn dasaður. Sér hann um leið að þetta er skata og svo stór, að hann hefur enga slíka áður séð og hefur þó komist í færi við margar laglegar um dagana. Er það til merkis um stærð hennar, að börðin á henni náðu fram undir stafn og aftur á skut.
Grípur nú Magnús til ífærunnar og leggur til skötunnar. En er hún kenndi lagsins, tekur hún svo snöggt viðbragð, að hann hrekkur útbyrðis með ífæruna í hendinni og hvolfir bátnum um leið.
Svo vildi til að Magnús lenti á baki skötunar þegar hann hraut fyrir borð og barst hann nú á kaf með henni, og gekk svo æði stund. En þar kom um síðir, að draga fer af skötunni, með því líka, að hana mæddi blóðrás af sári ífærunnar og þar kom að lokum að þau berast úr kafi. Verður það þá hið fyrsta, sem fyrir Magnús ber, að hann sér bát sinn rétt hjá. Krækir hann þá til bátsins með ífærunni og fær komið honum á réttan kjöl og kemst upp í hann.
Alltaf hefur Magnús haft færið í annari hendinni, en ífæruna í hinni. Er nú skatan dauð, en svo stór er hún, að með engu móti fær hann innbyrt hana.Tekur hann þá það ráð, að hann sker hana alla við borðstokkinn og innbyrðir hana með þeim hætti. En er Magnús hafði gert það er báturinn svo hlaðinn, að hann ber ekki meira. Við svo búið heldur hann til lands og þykist hafa gert góða ferð.
En þegar Magnús var spurður að því síðar, hvort ekki hafi verið sleipt á skötunni, svaraði hann:
„Ó, jú, nokkuð svona, þegar hún var að bretta börðin.“
 
*
Var að sækja mér kaffi
Eitt sinn reri aðkomubátur austan af fjörðum, Sunna SU, á vetrarvertíð frá Sandgerði. Hann var á línu en fiskaði ekki vel, enda var skipstjóri hans ekki kunnugur helstu veiðislóðum þar.
Bátur þessi var í viðskiptum við Miðnes hf. sem gerði út Muninn. Þar var Jónas Franzson skipstjóri og fiskaði afar vel. Það fór ekki fram hjá aðkomuskipstjóranum og ákveður hann í eitt skiptið að elta Munin og leggja á svipum slóðum og hann – auðvitað í von um góða veiði.
Vélstjórinn á Munin, Guðmundur Sörensen, átti útstímið. Þegar komið var til móts við Melaberg kveikir hann á vinnuljósum og fer fram í lúkar. Hann var frekar lengi á leiðinni, en þegar hann kemur aftur upp í brú kallar skipstjórinn á Austfjarðarbátnum í Munin og segist hafa lagt línuna rétt utan við hann.
Vélstjórinn svaraði að bragði:
„Við vorum ekki að leggja línuna, enda engan fisk að hafa hér. Ég kveikti nú bara ljósin af því að ég var að sækja mér kaffi.“
 
*
Smábræla betri en blómabeð
Þekktur trollskipstjóri úr Sandgerði, Guðjón Gíslason, keypti sér hús þar í bæ og fylgdi því gríðarlega stór blómagarður. Karlinn var stundum að aðstoða konu sína í garðyrkjunni, en lítið var hann þó gefinn fyrir ræktunarstörf, öfugt við hana.
Eitt sinn var umræddur skipstjóri að fara í róður á mótorbátnum Elliða og varla er hann nema nýfarinn frá bryggjunni þegar hann mætir togbáti frá sama fyrirtæki og hann starfaði hjá. Skipstjórinn þar kallar í hann og spyr:
„Hva, ertu að fara út núna, maður, það spáir ekki of vel?“
„Það er örugglega betra að vera í smábrælu heldur en að skríða um í blómabeði alla helgina,“ svaraði Guðjón og þar með var það útrætt.
 
*
 
Á maður að geta logið endalaust?
Á fyrstu árum sumarloðnuveiða var oft góð veiði í upphafi vertíðar og nú voru nokkrir bátar, þar á meðal Albert frá Grindavík, komnir á loðnuslóð. Að þessu sinni var Hafró búin að finna góðar torfur norðvestur frá Straumsnesi og mátti hefja veiðar á miðnætti þann 15. júlí – alls fyrr.
Klukkan 04:00 var Albert kominn inn til Bolungarvíkur með fullfermi.  Þetta hlaut að vera þjófstart og var kært til sýslumanns.
Sævar Þórarinsson, skipstjóri á Alberti, var um morguninn kallaður til yfirheyrslu og lauk henni ekki fyrr en síðdegis. Skipstjórinn fór þá í koju, þreyttur og svekktur. Þegar hann var nýsofnaður var hann vakinn af stýrimanni sínum sem segir lögregluna vera á bryggjunni að spyrja um hann – hann eigi að koma til sýslumannsins aftur.
„Hver andskotinn er þetta,“ stynur Sævar upp, „heldur hann að maður geti bara logið endalaust?“

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024