Hestar í náttúru Íslands
Hermann Árnason myndlistamaður opnar sýningu á olíu og akríl verkum í kjallara L51 Art Center, Laugarvegi 51 í Reykjavík föstudaginn 4. maí kl. 18.00-20.00.
Verkin sem listamaðurinn sýnir eru aðallega unnin í akríl með blandaðri tækni þar sem múrviðgerðarefnum er blandað saman við akríl og striginn grunnaður með.
Þannig nær Hermann að skapa grófleika og dulúð í verkin enda leitar hann eftir að skila krafti og mýkt hestanna ásamt hráleika Íslensku náttúrunnar til áhorfandans.
Hermann er lærður rafvirki og starfar sem slíkur. Hann er sjálfmenntaður í list sinni og skipar hún æ stærri sess í hans lífi. Hermann vinnur mikið með blandaða tækni og hefur hann leiðbeint nemendum á námskeiðum hjá Félagi myndlistamanna í Reykjanesbæ undanfarin ár með góðum árangri enda finnst honum það gefa listagyðju sinni gildi.
L51 Art Center er ungt gallerý á Laugavegi 51 en samt eru yfir 40 listamenn sem sýna list sína þar. Opnunartími er frá 9.00 til 18.00 alla virka daga og frá 10.00 til 16.00 á laugardögum. Sýning Hermanns stendur til 31. maí.