Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Herbert segir Suðurnesjamenn yndislega
Herbert Guðmundsson tónlistarmaður ásamt nafna sínum Eyjólfssyni, slökkviliðsmanni hjá Brunavörnum Suðurnesja.
Föstudagur 6. nóvember 2015 kl. 13:59

Herbert segir Suðurnesjamenn yndislega

- Gengur í hús og selur tónlist sína

„Ég varð gjaldþrota í desember og missti allt. Nú er ég á byrjunarreit og er að reyna að rísa upp úr öskustónni. Það eina sem ég á er tónlistin,“ segir tónlistarmaðurinn Herbert Guðmundsson, sem gengið hefur í hús á Suðurnesjum að undanförnu og selt tónlist sína. Sölumennskan hefur gengið vel og kveðst Herbert ekki geta kvartað. „Suðurnesjamenn eru yndislegt fólk og hafa tekið mér mjög vel.“ Herbert gaf nýlega út tvöfalda safndiskinn Flakkað um ferilinn sem inniheldur alla vinsælustu smellina og myndbönd.

Herbert stóð í málaferlum vegna deilna við nágranna sína í raðhúsalengju í Reykjavík um viðgerð á þaki og tapaði þeim fyrir Hæstarétti síðasta haust og varð í kjölfarið gjaldþrota. Hann safnar nú fyrir útborgun í aðra fasteign og segir aldrei að vita nema Suðurnesin verði fyrir valinu. „Það eru margir sem hvetja mig til þess að flytja á Suðurnesin. Fólk segir að ég geti fengið einbýlishús á Suðurnesjum fyrir sama verð og er á þriggja herbergja íbúð í Reykjavík.“ Gangi salan áfram vel sér Herbert fram á að geta fjárfest í fasteign á næsta ári.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Skemmtileg tilviljun réði því að Herbert ákvað að byrja að ganga í hús á Suðurnesjum. „Það var hringt í mig frá Rauða krossinum í Reykjanesbæ og ég var beðinn um að koma og syngja nokkur lög því það var verið að opna nýtt húsnæði. Ég hélt það nú og mætti þangað. Svo þegar ég var búinn að syngja kom til mín maður sem hvatti mig til að labba bara um Keflavík, sjálfan Bítlabæinn, og selja diskinn minn.“ Herbert tók manninn á orðinu og hefur síðan gengið í hús á Suðurnesjum. Stundum tekur hann lagið fyrir fólk. „Síðast í gær tók ég lagið fyrir krakka í einu húsanna.“

Herbert er þó ekki aðeins að selja diskana sína á Suðurnesjum því að um síðustu helgi skemmti hann á Ránni með Finnboga Kjartanssyni og ætla þeir jafnvel að skemmta víðar um Suðurnesin á næstunni.