Hér passa ég inn!

Manfred Ulrich Lemke er 58 ára gamall og segir að á Íslandi sé pláss fyrir allskonar fólk

Manfred Ulrich Lemke er 58 ára gamall og fæddist í þýskumælandi hluta Sviss. Það skrítna er að honum fannst hann aldrei passa inn í heimalandið sitt og það var ekki fyrr en hann flutti til Íslands að honum fannst hann hafa fundið landið sem hann vildi búa í. „Heima í Sviss er allt miklu formfastara, mikið af reglum, bæði óskrifuðum og skrifuðum. Þeir sem láta sig passa inn geta átt gott líf í Sviss“, segir Manfred sem fannst hann alltaf vera að rekast á veggi þegar hann bjó þar. Hann vildi ekkert endilega vera í uppreisn við kerfið þar en hafði samt gaman af því að hugsa óhefðbundnar hugsanir og það fannst samlöndum hans óþægilegt, stundum jafnvel ógnandi því þeir vildu hafa allt slétt og fellt.


Pláss fyrir alla

Manfred fann sig um leið og hann flutti til Íslands því hér er pláss fyrir allskonar fólk. Á Íslandi er eðlilegt að vera skapandi einstaklingur og að hugsa óhefðbundið, hér þurfa ekki allir að vera eins. „Hér á ég heima, hérna passa ég inn. Þetta fann ég um leið og ég kom hingað, mér fannst ég loksins vera komin heim til mín. Það kom mér á óvart hversu fátt kom mér á óvart hérna. Ég þekkti þetta land“, segir hann án þess að hika.

Það var íslensk kona sem kynnti Manfred fyrir Íslandi en hún bjó með honum í Sviss í sex ár og saman eignuðust þau þrjá syni. Hann lærði íslenskt mál með því að tala við hana og þegar hún vildi flytja heim aftur til Íslands árið 1989 var hann alveg til. Þegar þau fluttust hingað til lands þá var hann orðinn altalandi á íslensku! Eiginkona og tengdafjölskylda voru dugleg að leiðrétta hann ef hann talaði vitlaust. „Ég kom altalandi til Íslands og gat tekið þátt í þjóðlífinu nánast alveg strax“, segir Manfred á mjög góðri íslensku en það er eftirtektarvert hvað hann er flínkur að tala málið og nánast án hreims.

Manfred starfaði sem kennari í Sviss og starfar í dag einnig sem kennari en hann hefur kvænst annarri íslenskri konu sem heitir Þóra Sigríður Jónsdóttir sem einnig er kennari og prestur en þau kynntust í Kennaraháskóla Íslands þegar hann starfaði þar.

Manfred er ekki bara lærður kennari. Hann lærði einnig vélvirkjun og guðfræði. Í dag starfar hann sem grunnskólakennari og líkar vel að vinna með börnum. Hann er stundum kallaður Manni af krökkunum. Þegar hann flutti til Íslands bjó hann fyrst á Blönduósi en þar kenndi hann í grunnskólanum. Manfred hefur víða komið við. Hann hefur starfað sem kennsluráðgjafi, verkefnastjóri, leiksviðsstjóri hjá Leikfélagi Akureyrar og einnig sem prestur.

Hann lítur á sig sem Íslending og hefur íslenskan ríkisborgararétt. Vinahópurinn er bæði íslenskur og erlendur. Fjölskylda hans hefur oft komið í heimsókn en hann fer frekar sjaldan til Sviss. Tveir synir hans búa í Noregi en sá þriðji býr á Íslandi ásamt fósturdætrum hans frá seinna hjónabandi með Þóru Sigríði.

Ýsa og kartöflur best á diskinn

„Jú jú Svisslendingar koma oft í heimsókn hingað til okkar og finnst landið mjög fallegt. Þeir eru mjög hrifnir en þeim finnst samt mikil amerísk áhrif hérna. Ég hef ekki fengið það út úr þeim hvað það er nákvæmlega sem vekur upp þessa tilfinningu en þessar athugasemdir hef ég heyrt þó nokkuð oft“, segir Manfred og bætir við þegar hann er spurður út í matinn. „Mér finnst allur íslenskur matur góður. Sennilega finnst mér samt best að borða soðna ýsu og nýjar kartöflur með smjöri“, segir hann með glampa í augum.  

Þau Manfred og Þóra Sigríður létu draum sinn rætast og festu kaup á gömlu lögbýli hér á Suðurnesjum. Þar eru þau með hænur. „Heyrirðu sönginn?“ segir Manfred þegar við göngum út í hænsnahúsið til að heilsa upp á hænurnar en þær syngja svona þegar þær hafa verpt segir hann. Þær verða svo glaðar að þær þurfa að segja öllum heiminum það með gagginu sínu. Blaðamanni var auðvitað mikið skemmt.

Dásamleg sumur

Þegar talið berst að náttúru Íslands þá á hann mjög auðvelt með að dásama hana. „Sumrin eru dásamleg. Birtan er engu lík. Veturnir fyrir norðan voru ævintýralegir og baslið í kringum það bara skemmtilegt. Skammdegisbirtan finnst mér samt alltaf dálítið erfið, þetta mikla myrkur á veturna“, segir hann og viðurkennir að það sé mjög erfitt að fara á fætur á myrkasta tíma ársins.

En þetta hafa margir útlendingar sagt áður. Þeir hafa talað um þetta mikla myrkur og jafnvel finnst sumum birtan á sumrin vera erfið þegar sólin skín hálfa nóttina og truflar þar með svefninn þeirra. Þetta er oft prófið þeirra sem flytja hingað og hefur áhrif á ákvörðun þeirra um að setjast hérna að til frambúðar, birtan og myrkrið, að ógleymdu veðrinu.

Manfred hefur ferðast mikið um Ísland og kynnst mörgum Íslendingum sem honum finnst vera mjög gott fólk. Hann hefur aldrei séð eftir að hafa flust hingað því hér á hann heima.

Viðtal: Marta Eiríksdóttir.