Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Heppin með viðskiptavini og starfsfólk
Jóna, Gullý heldur á Guðlaugu Helgu, Didda, Dóra og Svava.
Fimmtudagur 18. desember 2014 kl. 13:58

Heppin með viðskiptavini og starfsfólk

Einn eigenda SI verslunar segir staðsetninguna hafa áhrif á tryggð viðskiptavina.

SI verslun var stofnsett árið 1983 að Heiðartúni 2 í Garði undir nafninu Verslun Sigurðar Ingvarssonar. Í versluninni voru seld m.a. heimilistæki, raflagnaefni, ljós, gjafavörur, sportvörur og skólavörur. Árið 2006 var verslunin flutt að Hafnargötu 61 við Vatnsnestorg í Reykjanesbæ. Víkurfréttir tóku tali Jónu Sigurðardóttur, einn eigenda fjölskyldufyrirtækisins, en hún og Gullý systir hennar sjá um daglegan rekstur verslunarinnar.  

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Heimilistæki og íþróttavörur á sama stað

„Verslunin er umboðsaðili Smith & Norland, sem er m.a. með vörur frá Siemens. Einnig seljum við Adidas íþróttavörur, Under Armour íþróttafatnað, fatnað frá Cintamani, lofthreinsi- og rakatæki frá Stadler form og ljósaperur frá Silvania. Við höfum smám saman aukið umsvif og reksturinn undið upp á sig,“ segir Jóna. Vöruúrvalið er þannig úr garði gert að verslunin er ekki árstíðabundin. „Ef það er lítið að gera í fatnaðinum þá er nóg að gera í tækjunum og öfugt. Þetta einhvern veginn helst í hendur þótt fólki finnist skrýtið að koma hérna inn - að sjá bæði heimilistæki og íþróttafatnað. En þetta hefur gengið mjög vel og við þurfum ekki að kvarta.

„Fólk spyr enn um pabba gamla“

 Jóna segir að vinsælast í fatnaði séu þessi hefðbundnu íþróttaföt í ræktina. „Það er svo stór hópur fólks og fyrirtækjum í viðskiptum við okkur. Það hefur orðið svo mikil vakning í alls konar ítþróttum og mikið um hópíþróttir og hafa margir af þessum hópum leitað hingað til okkar og við reynum að þjónusta þá vel. Það sem er jákvæðast við að vera hérna á svæðinu eru þessir tryggu viðskiptavinir.“ Hún bætir við að sjálfsagt hafi tryggðin byrjað í Garðinum í tengslum við sölu á heimilistækjunum. „Það kemur enn fólk sem spyr um pabba gamla og segir sögur af honum. Það er mjög vinalegt, enda eru viðskiptavinirnir aðalmálið. Við erum líka mjög heppnar með þær tvær starfsstúlkur sem skipta með sér fullu starfi í versluninni. Þær eru einstakar,“ segir Jóna sem vill koma á framfæri kæru þakklæti til viðskiptavina og og óskum þeim öllum gleðilegra jóla.

Guðlaug Helga bræddi ljósmyndara Víkurfrétta. 

VF/Olga Björt