Heppin með lagaval heilans

Afþreying - Rán Ísold Eysteinsdóttir

Rán Ísold Eysteinsdóttir er fædd og uppalin í Keflavík, 19 vetra rúmlega og er í Verzlunarskóla Íslands á síðasta ári. Rán situr í stjórn nemendafélagsins í Verzló en  félagslífið í skólanum er bæði áhugamál og vinna þar sem það er nóg að gera að skemmta heilum skóla. Rán er mikið fyrir að lesa teiknimyndasögur og heldur mikið upp á hljómsveitina Arcade Fire. Ef hún ætti að lýsa smekk sínum á sjónvarpsþáttum þá væri það grín með dass af drama, eða öfugt.

Bókin

Fyrir ekki alltof löngu síðan hefur bókalestur minnkað hjá mér þannig séð, en les ég nú meira af teiknimyndasögum og finn að það er meira mitt svið þó að ég lesi nú eina og eina bók inn á milli. Deadpool hefur vel og lengi verið í uppáhaldi og les ég því mikið með honum. Hann er það sem er kallað „anti hero“ sem þýðir í raun að hann er ekki beint með góðu köllunum í liði heldur er hann leigumorðingi og vinnur verkefni fyrir peninga. Það sem heillar mig við Deadpool er að hann er duglegur að brjóta fjórða vegginn á mjög húmorískan hátt. Watchmen er líka eitthvað sem ég er búin að vera að dúttla við að lesa. Watchmen fjallar um ofurhetjur á tímum Víetnamsstíðssins og pin-up stelpna. Dark og twisted teiknimyndasaga sem ég mæli með.

Tónlistin

Þegar kemur að tónlist er Justin Timberlake 20/20 búin að vera á repeat núna nýlega svo ég yrði nú ekkert síðri í textakunnáttu og hörðustu aðdáendur á tónleikunum hans. En annars eru allar plötur Arcade Fire á topplista hjá mér enda er það ævilöng uppáhalds hljómsveit og ég sé það ekki breytast á næstunni. Aftur á móti þegar samræðurnar færast nær einstaklings tónlistarmönnum þá er Ed Sheeran fremst á tungunni. Heillandi lagahöfundur með seiðandi rödd. Vegna verkefnis sem ég er búin að vera að vinna að í þónokkurn tíma hringsólar þó "Rómeo og Júlía" með Bubba í höfðinu á mér dag og nætur. Ekki er ég þó að fara að kvarta undan því þar sem ég er endemis heppin með lagaval heilans.

Sjónvarpsþátturinn

Akkúrat þessa stundina bíð ég eftir næsta Game of Thrones þætti eins og flestir sem hafa eitthvað vit fyrir sér. Margslungnir söguþræðir vafðir saman í eitt meistarastykki. Annað segi ég ekki. En biðin er löng og stytta The Office og Orange is the New Black þættirnir oft stundina milli stríða. Einnig lauk ég nú nýlega við Prison Break sem eru reyndar ekki eins nýlegir þættir og restin en það var eins og að kveðja gamlan vin. Eins og sést hef ég haldið mér upptekinni við þáttaáhorf þar sem ég hef voða litla þolinmæði fyrir heilu kvikmyndirnar. Ef ég þyrfti að setja smekk minn á þáttum í einn flokk væri það grín með dass af drama, eða öfugt.