Hélt tombólu til að kaupa brúðargjöf
Ung og uppátækjasöm Njarðvíkurdama kom foreldrum sínum á óvart.
Eva Lind Magnúsdóttir, 8 ára Njarðvíkurdama, lét sér ekki leiðast síðastliðið föstudagskvöld þegar foreldrar hennar áttu í fullu fangi með að undirbúa sal fyrir brúðkaupsveislu þeirra næsta dag. „Hún var eitthvað að dunda með vinkonu sinni sem býr við sögu götu og þær voru í einhverjum tombólupælingum, höfðu áður safnað fyrir Rauða krossinn. Svo vissi ég ekki meira fyrr en þær voru komnar fyrir utan verslunina Kost með eitthvað dót og bauk til að safna í fyrir brúðkaupsgjöf handa okkur,“ segir Þórunn Jónsdóttir, móður Evu Lindar. Þórunn og eiginmaður hennar, Magnús Geir Jónsson, létu pússa sig saman á laugardag eftir 16 ára samband.
Tombóluskvísunar.
Sýndi líka dans í veislunni
Að sögn Þórunnar dettur Evu Lind ýmislegt skemmtilegt í hug og lætur fátt stöðva sig. „Hún er alveg rosaleg með það og hefur það líklega frá mér. Hún var líka búin að æfa dans sem hún sýndi í veislunni og sló svo rækilega í gegn að ömmurnar og frænkunar bara grétu. Hún og var búin að æfa dansinn mjög mikið og leggja heilmikinn metnað í hann. Hjartað í manni stoppaði bara á meðan. Hún stóð bara upp, greip um hljóðnemann og sagði: Ég heiti Eva Lind og ég ætla að sýna ykkur hérna dansatriði við lagið Uptown Funk. Svo var frændi hennar eitthvað að þvælast fyrir henni en hún lét það ekkert stoppa sig,“ segir Þórunn.
Nýpússuð saman, Þórunn Jónsdóttir og Magnús Geir Jónsson.
Ætlar að safna aðeins meiri pening
Eva Lind skipaði mikilvæg hlutverk þennan stóra dag því hún var einnig blómastúlka og gekk fyrst inn kirkjugólfið. „Hún æfir fimleika og er alltaf dansandi og kemur okkur svo oft skemmtilega á óvart. Hún á tvo bræður, annan yngri og hinn eldri og hún ráðskast dálítið með þann yngri.“ Aðspurð segir Þórunn að eitthvað að pening hafi safnast og Eva Lind ætli að kaupa gjöfina í Líf og list. „Þar vorum við með gjafalistann okkar. Hún ætlar að safna aðeins meiri pening. Líklega verður önnur tombóla,“ segir Þórunn og hlær.