Hello - can I help you?
Ég áttaði mig ekki á því þegar ég réði mig í sumarvinnu vestur á firði til að vinna á Minjasafninu á Hnjóti að gestirnir yrðu í meirihluta erlendir túristar, flestir á leið sinni út á Látrabjarg, að sjá lunda auðvitað. „How is the road?“ spurðu þeir áhyggjufullir og ég sagði þeim að hafa engar áhyggjur, var samt ekkert að upplýsa að ég hafði aldrei stigið fæti á Látrabjarg. Vegirnir á Vestfjörðum eru svo önnur saga.
Hvernig datt þér þetta í hug?, spurðu margir hissa þegar fréttist af vesturdvöl minni, mönnum fannst það skrítið að ráða sig í aðra vinnu í sumarfríinu sínu. Má það bara?
Það fannst að minsta kosti forstöðumönnunum Óskari og Ingu Hlín, réði þar mestu að langafi minn Ólafur Björnsson er á safninu, eða það er að segja saga hans og munir en hann varð helst frægur fyrir það að sprengja af sér hendina með franskri byssukúlu, sem hann hugðist nýta sem sökku. Það má því segja að þetta hafi verið klíka.
Þá vildi svo skemmtilega til að önnur Dagný býr á vestfjörðum á sumrin, nánar tiltekið Dagný Alda Steinsdóttur en hún rekur þar veitingastaðinn Dunhaga af miklum skörungskap. Nýtti ég að sjálfsögðu tækifærið og tók við hana viðtal í firðinum kyrra, um leið og ég smakkaði hjá henni þorskhnakka en hún sérhæfir sig í hráefnum úr héraði, beltisþari er nýjasta viðbótin.
Ef maður er kominn á Tálknafjörð er skylda að fara í pollinn, og ég tók þá skyldu alvarlega. Pollurinn er samfélaglegt undur, heit borhola uppi í fjallinu og þar mæta bæjarbúar til að baða sig og ræða landsins gagn og nauðsynjar, þeir yngri fá sér bjór og svo sitja þar oft erlendir ferðamenn gapandi yfir útsýninu. Um leið og þú sest í pollinn færðu forvitið augnaráð. Stuttu síðar byrja spurningarnar, áður en þú veist af er helmingur gestanna úr þínum nánasta frændgarði. Þá er öllum létt í pollinum, það er búið að gera grein fyrir þér.
Sunnanverðir Vestfirðir eru ægifagrir, með gular strendur og túrkislitan sjó. Það býr einhver orka í þessum háu fjöllum og mjóu fjörðum. Þér finnst þú svoldið töff þegar þú keyrir fyrir Múlann, en þakkar fyrir vegriðið þegar þú horfir niður bratta fjallshlíðina. Mér dettur í hug að stofna þrýstihópinn: Vegrið á vestfirði! En hvert væri gamanið þá?
„Ertu til í að koma í sjósund?“ Það er vinkona mín á Patreksfirði sem spyr og svarið er að sjálfsögðu já! Það er kostulegur hópur sem safnast saman í fjörunni á Þúfneyri, menn eru húfuklæddir í litríkum sloppum og þeir svölustu eru í sokkum og með vettlinga. Ég er aftur á móti í efnislitlum pæjusundbol frá Asos með neonbryddingum. Alveg við hæfi. Eftir sundið er brunað í sundlaugina á Patró sem er með útsýni yfir fjörðinn og það sem mestu skiptir, heita potta. „Hvaðan ert þú?“ gellur í pollinum. Eftir nokkrar útskýringar eru allir sáttir þegar þeir kannast við ömmu mína og Ólaf einhenta, „bjó hann ekki á Lambeyri,“ segir silfurhærð kona og kinkar hægt kolli. Jú, það passar.
Samstarfsmaður minn er miðaldafræðingur úr Kópavoginum og hann segir að Reykjanesið sé ekki fallegt. Eins og það sé bara staðreynd. „Hvað áttu við?“ spyr ég hann svona frekar móðguð og hann svaraði: „Það er bara ljótt þarna, alltaf rok og svona og bara engin náttúra, bara auðn.“ Ja, hérna, ég hrækti að sjálfsögðu í kaffið hans þegar hann var ekki að horfa. Hver segir að það sé gott að búa í Kópavogi?
Ég kom endurnærð til baka eftir vinnusumarfríið. „Hva ertu komin?“ spyr fólk núna hissa, hafði gert ráð fyrir að ég yrði þarna allt sumarið. Það myndi ég gera ef ég gæti. Hvert ætti ég að fara næst?
Dagný Gísladóttir.