Helgin mín: Zumba og aftur Zumba
Zumbakennarinn Marta Gígja Ómarsdóttir er þessa dagana að fara af stað með ný Zumbanámskeið á þremur stöðum: Íþróttahúsinu Vogum, í Hafnarfirði og á Nordicaspa ásamt því sem hún starfar sem danskennari og naglafræðingur. Zumba er nýjasta æðið í líkamsræktinni þar sem dans og líkamsrækt er blandað saman á skemmtilegan hátt. Hún hefur einnig réttindi sem stílisti og einkaþjálfari og á stóra fjölskyldu sem telur; eiginmann, 5 börn og 3 barnabörn, hún hefur því augljóslega nóg á sinni könnu.
„Helgin hjá mér mun svolítið einkennast af Zumba þar sem ný námskeið eru að hefjast og þá er manni ekki til setunar boðið. Það þarf að innrita og semja nýjar rútínur svo fjörið verði sem allra mest. Þar sem Zumba er einstaklega skemmtilegt og þar ríkir mikil gleði þá tel ég nú ekki eftir mér að hamast eina helgi og sjóða saman skemmtiefni. Svo hafa Vogakonur tekið svo einstaklega vel á móti mér að það er ekkert skemmtilegra en að reyna að gera allt sem í mínu valdi stendur til að þær megi skemmta sér sem best,“ en Marta segir met þátttöku hafa verið í námskeiðum í Vogunum.
Svona verður helgin hjá Mörtu:
„Á föstudagsmorgni þarf að vakna snemma og koma yngsta fólkinu í skólann. Eftir það tek ég því aðeins rólega og glugga í blöðin og kíki í tölvuna. Svo er ég með nagla ásetningu og síðan fer ég á starfsmannafund á Nordicaspa. Svo fer restin af deginum í að sinna Zumba. Kvöldið er svo kósý kvöld hjá fjölskyldunni.“
Ekki sofið mikið út um jólin
„Á laugardaginn ætla ég að sofa út þar sem ég hef ekki gert mikið af því yfir jólin og taka svo hollan og góðan morgunmat vegna þess að ég eins og svo margir samlandar mínir ákvað að taka lífstílinn aðeins í gegn á nýju ári. Svo hefst vinnan og vonandi gengur mér vel og andagiftin komi yfir mig og ef verðurguðirnir verða til friðs þá mun ég skella mér í hesthúsið og jafnvel fara á hestbak . Gangi allt að óskum verður kvöldið rólegt en verði mér ekki að ósk minn þá mun það vera Zumba kvöld.“
„Ég mun svo vakna snemma á sunnudaginn því ég veit að þetta verður eins og svo oft áður að þegar ný námskeið eru að hefjast þá dugar oft ekki dagurinn og það fer smá stress í gang þar sem ég er fædd í Meyjarmerkinu og þarf að hafa allt helst 100%, það getur reynst þrautinni þyngra,“ segir Marta hress að lokum.