Helgin mín: Verð með bás í Kolaportinu
Sigríður Þorsteinsdóttir er forstöðumaður samskiptasviðs Sjálstæðisflokksins en hún er búsett á höfuðborgarsvæðinu þrátt fyrir að vera Keflvíkingur í húð og hár.
Sigríður á annasama helgi framundan þar sem hún mun m.a gerast sölumaður í Kolaportinu. Sigríður segist ekki ætla að taka langt frí í sumar en hún nýtur þess að vinna og finnst gaman að takast á við krefjandi verkefni.
„Hins vegar mun ég ferðast um langan veg um miðjan júlí en þá legg ég land undir fót og fer til Kaliforníu. Þar mun ég dveljast hjá vinkonu minni í Santa Monica en við höfum þekkst í mörg ár og vorum saman í háskóla í London. Ég á nokkra vini sem búa á svæðinu og verður gaman að heimsækja þá. Við ætlum að fara á tónleika með Dolly Parton, keyra um og sjá áhugaverða staði,“ segir Sirrý eins og hún er gjarnan kölluð.
Einnig ætlar Sirrý að læra að spila golf í sumar. Erla systir hennar er nýráðinn íþróttastjóri hjá Golfklúbbi Suðurnesja og hún ætlar að gefa systur sinni góð ráð.
En hvað er á döfinni hjá Sirrý um helgina?
„Eftir annasaman vinnudag á föstudeginum keyri ég til Reykjanesbæjar í klippingu til Mörtu á hárgreiðslustofunni Elegans. Þó ég hafi verið búsett í mörg ár í höfuðborginni þá fer ég alltaf til Mörtu í klippingu en hún hefur klippt mig frá því ég var barn. Það er alltaf gaman að koma á Elegans og þar tóku Marta og Guðrún vel á móti mér.“
„Nýklippt fer ég til Guðrúnar systur til að stilla saman strengi og fara yfir það sem við ætlum að selja í Kolaportinu. Þar verðum við á laugardaginn með föt, skó og ýmislegt annað söluvænlegt. Miðað við þau góðu viðbrögð sem við höfum fengið á fésbókinni eigum við von á stöðugum straumi vina og ættingja.“
Hún ætlar svo að láta það ráðast hvernig sunnudagurinn spilast en hún mun þó hitta nokkra vini. Vafalaust munum þau svo ræða landsins gagn og nauðsynjar