Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Helgin mín: Sund, skokk og Leyndardómar Einhyrningsins
Föstudagur 28. október 2011 kl. 13:36

Helgin mín: Sund, skokk og Leyndardómar Einhyrningsins

Eðvarð Þór Eðvarðsson ætlar sér að gera margt og mikið um helgina eins og endranær. Eins og við er að búast þá snýst helgina að einhverju leiti um sundíþróttina, enda er Eðvarð að þjálfa hjá ÍRB og börnin hans eru einnig á fullu í sundinu. Annars er margt skemmtilegt á döfinni en Eðvarð er í ansi lifandi og skemmtilegu starfi sem aðstoðarskólastjóri Holtaskóla. „Í Holtaskóla eru rúmlega 400 glæsilegir og metnaðarfullir fulltrúar íslenskrar æsku. Íslandsmótið í sundi fer fram eftir tvær vikur og er ekki laust við að örlítil spenna sé að magnast upp í tengslum við það,“ segir Eðvarð sem sagði okkur í stuttu máli frá því sem væri framundan um helgina hjá honum.

„Á föstudeginum hefst helgin á vænum sundspretti í Vatnaveröld, strax að því loknu fer ég að þjálfa snillingana í Framtíðarhóp ÍRB en þar á meðal er framtíðarlandsliðsfólk Íslands í sundi. Síðan taka við hefðbundnir liðir líkt og pizzuveisla, Útsvar og hver veit nema að gómsætt súkkúlaðistykki og glas af mjólk komi þar við sögu.“

Fer kannski að sjá Tinna

„Á laugardaginn vakna ég kl. 07:20, skuttla dótturinni á æfingu, fer síðan heim, fæ mér morgunmat og fínkembi Fréttablaðið. Þegar ég er búinn að þjálfa eða rétt fyrir kl. 12 fer ég 15 – 20 km hlauparúnt með hlaupafélögunum. Að því loknu kanna ég hvort að mínir menn í Man.utd hafi ekki snúið blaðinu við frá því um síðustu helgi og tekið Everton í bakaríið. Laugardagseftirmiðdagur er óráðinn nema ef vera skyldi að við feðgar, Eddi Þór og Eddi Már, færum á nýju Tinna myndina, Leyndardómar Einhyrningsins.“

Sofnar líklega fyrir 10

„Mig grunar að konunni takist líkt og ætíð að galdra fram dýrindis kvöldmáltíð en einhvern veginn nær hún statt og stöðugt að hrífa mig með sinni ómótstæðilegu matargerð. Kvöldið fer að öllum líkindum í sjónvarpsgláp þar sem Spaugstofan verður í öndvegi. Vonandi næ ég einni bíómynd fyrir háttatíma en ég er frekar kvöldsvæfur, m.a. næ ég ekki alltaf 10 fréttunum þó ég reyni!


„Í morgunsárið á sunnudeginum er stefnt á að skokka einhverja 10 – 12 km og taka aðeins á lóðunum úti í skúr. Síðan ætlum við feðgar að fara í laugina og æfa sundtökin eilítið.“

Mynd: Eðvarð er einnig lunkinn kylfingur þó svo að kylfurnar séu sennilega komnar út í bílskúr í vetrardvala.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024