Helgin mín: Leyfir sér bíó og bakstur
Anna Katrín Gísladóttir hefur það náðugt um helgina
Hin tvítuga Keflavíkurmær Anna Katrín Gísladóttir hefur í nógu að snúast þessa helgina. Hún ætlar að taka forskot á helgarsæluna og dekra kærastann í dag, enda er bóndadagur eins og flestir vita. Anna Katrín starfar á skrifstofu þjónustudeildar Icelandair technical service en samhliða er hún í píanónámi á framhaldsstigi, en hún útskrifaðist frá FS síðasta vor. Hún ætlar sér að sækja háskóla í haust en segir óvíst hvað hún taki sér fyrir hendur þar.
Áhugamál Katrínar eru af ýmsum toga en helst má þar nefna píanóið, fimleika, hreyfingu og heilbrigðan lífsstíl. „Ég get alveg gleymt mér tímunum saman inná heilsusíðunum. Ég hef einnig mikinn áhuga á körfubolta og það verður gaman að sjá Keflavík sigra Njarðvík á mánudaginn,“segir Anna en Valur Orri kærasti hennar leikur einmitt með Keflavíkurliðinu. Við fengum Önnu til þess að segja okkur hvað væri á döfinni um helgina hjá henni.
Ætli maður verði ekki að dekra við kærastann
„Á föstudaginn fer ég í útskriftarveislu hjá mágkonu minni Steinunni Ósk en hún er móðir tveggja yndislegra tvíburastráka og lætur sko ekkert stöðva sig og kláraði stúdentinn frá Keili. Ætli maður verði svo ekki að dekra aðeins við kærastann, fyrst það er nú bóndadagur,“ segir Anna Katrín.
„Á laugardaginn byrja ég daginn á ræktinni, fer í píanótíma í Reykjavík og svo ætlum við Valur að prófa nýja pizzastaðinn á Hafnargötunni, Fernandos, en ég hef bara heyrt gott um þann stað. Ætli ég hitti svo ekki vinkonur mínar og hafi það bara huggulegt.“
Finnst gott að sofa út
Hvað er fullkomin helgi fyrir þér?
„Ég er algjör B manneskja og finnst rosalega gott að sofa út. Ég myndi byrja daginn eins og aðra daga á grænu boozti sem ég er alveg sjúk í. Mér þykir mjög gaman að hjóla svo ég myndi pottþétt taka hjólreiðatúr um bæinn og enda svo í sundi. Svo er alltaf jafn skemmtilegt að fá boð frá ömmu í pönnsur. Leiðinni væri svo haldið í höfuðborgina að borðað á veitingastaðnum Gló en hann er í miklu uppáhaldi hjá mér og mjög fúlt að ekki sé hægt að sækja neinn heilsumatsölustað hér í Reykjanesbæ. Eftir matinn væri svo farið uppí bústað hjá ömmu og afa fyrir austan fjall, en þar er ekkert skemmtilegra en að spila með góðu fólki og borða Doritos og salsa.“
Er eitthvað sérstakt sem þú leyfir þér um helgar?
„Eitt af því skemmtilegra sem ég geri er að fara í bíó á virkilega góða mynd sem fær helst yfir 8 í einkunn á vefsíðunni IMDB, svo ég nýti gjarnan tækifærið og fer í bíó um helgar. Ég fer stundum á fínni veitingastaði um helgar en ég er mjög hrifin af veitingastaðnum Ítalía, svo auðvitað freistast maður í 50% afslátt af nammibarnum á Ungó.
Hvað gerir þú um helgar sem þú gerir ekki á virkum dögum?
„Mér finnst mjög gaman að því að baka svo oftar en ekki eru prufaðar nýjar uppskriftir og skellt í eitthvað gómsætt,“ segir Anna Katrín að lokum.