Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Helgin mín: Hlátur er allra meina bót
Laugardagur 9. nóvember 2013 kl. 10:42

Helgin mín: Hlátur er allra meina bót

Karen Lind Tómasdóttir segir frá helgarplönunum

Karen Lind Tómasdóttir vakti nokkra athygli í liðinni viku en hún skrifaði færslu á bloggsíðunni Trendnet.is, þar sem hún hvatti konur til þess að láta gott af sér leiða fyrir Konukot. Viðbrögðin létu ekki á sér standa en fjölmargar konur lögðu leið sína í Konukot með ýmsar varning í kjölfar færslunar. Karen segir að hugmyndina hafi hún fengið frá flugfreyju sem vön var að safna saman einnota snyrtivörum og færa Konukoti.

„Mér datt í hug að gera slíkt hið sama þegar ég fór í gegnum snyrtivörurnar mínar og fannst tilvalið að deila því með lesendum trendnet.is. Viðbrögðin við færslunni komu mér í opna skjöldu og ég er afar þakklát fyrir þessar gríðarlegu undirtektir,“ sagði Karen þegar blaðamaður VF hafði samband við hana.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Karen bauðst að ganga til liðs við bloggsíðuna vinsælu í sumar og segir hún að móttökurnar hafi verið mjög góðar við skrifum hennar þar og í raun komið henni skemmtilega á óvart. Karen er í mastersnámi í mannauðsstjórnun við Háskóla Íslands en þessi misserin er hún að skrifa ritgerðina sína og vinnur samhliða því í Yggdrasil. Við fengum Karen til þess að segja okkur aðeins frá komandi helgi hjá sér.

Aðeins fleiri hitaeiningar um helgar

„Á föstudaginn fer ég í útgáfuteiti hjá Evu Laufey Kjaran en hún er að gefa út sína fyrstu matarbók, Matargleði Evu. Á laugardeginum fer ég líklegast í útgáfuboð til Theodóru Mjallar bloggara á trendnet, en hún er að gefa út sína aðra hárgreiðslubók sem ber nafnið Lokkar. Ætli ég verði ekki að þrífa bílinn minn og fara í ræktina. Jafnvel að ég hitti vinkonur mínar og auðvitað eyði ég góðum tíma með Davíð kærasta mínum.“

Hvað er hin fullkomna helgi fyrir þér?

„Það er alltaf gott að sofa eilítið út um helgar. Fullkomin helgi byrjar hjá mér á góðum hafragraut og nýkreistum appelsínusafa. Þaðan myndi leiðin liggja í ræktina með Davíð. Baðstofan í World Class er mitt allra uppáhalds eftir æfingu og því tilvalið að eyða smá tíma þar. Hádegismatur á Lemon yrði einnig fyrir valinu, við Davíð erum yfir okkur hrifin af samlokunum þeirra og höfum borðað of margar síðastliðna mánuði. Göngutúr um miðbæinn er alltaf heillandi og mér þykir voðalega notalegt að enda hann á belgískri vöfflu á Mokka kaffi. Kvöldinu myndi ég líklegast vilja eyða með vinkonum mínum, drekka gott rauðvín og borða osta. Við getum hlegið svo svakalega mikið saman, það er allra meina bót.“

Er eitthvað sérstakt sem þú leyfir þér um helgar?

„Ætli ég leyfi mér ekki að borða á fínni veitingastöðum um helgar, og jú, ég borða víst aðeins fleiri hitaeiningar þá, en hver er að telja!“

[email protected]