Helgin mín „Helgin undirlögð tónleikum“ segir Marína Ósk Þórólfsdóttir
Marína Ósk Þórólfsdóttir er 23 ára Keflvíkingur sem er að gera góða hluti í tónlistinni um þessar mundir með hljómsveit sinni Hydrophobic Starfish sem þykir upprennandi og spennandi hljómsveit, þau fengu m.a prýðisdóma fyrir frammistöðu sína á Músíktilraunum í fyrra. Þessa dagana er Marína að klára tónlistarnám í Tónlistarskóla Reykjanesbæjar. Hún hefur nú þegar lokið framhaldsprófi og tónleikum á þverflautu, en því lauk hún í mars. Hún tók svo framhaldspróf í rytmískum söng rétt fyrrir páska og heldur söngtónleika núna um helgina. Þess utan er Marína í prófum í FÍH (Félag Íslenskra Hljómlistarmanna) í bóklegum fögum og einnig kennir hún í tónlistarskólunum í Reykjanesbæ, Sandgerði og í Garði. Marína sagði Víkurfréttum hvað væri á döfinni hjá henni um helgina og hvað hún væri að bralla þessa dagana.
Hvað er að frétta af hljómsveitinni Hydrophobic Starfish?
„Allt fínt að frétta þaðan. Við erum að fara í upptökur fyrir Skúrinn á Rás 2 á föstudaginn og spilum svo á Faktorý um kvöldið. Svo erum við að semja og reyna að koma okkur á framfæri á sama tíma. Það fer nú að koma tími á gigg hér á Suðurnesjunum,“ segir Marína.
Í sumar ætlar Marína að verja tíma sínum á Akureyri mestan part sumars, en kærasti hennar, Jóhann býr þar og starfar. Þar ætlar hún sér að njóta sumarblíðunnar og sumarfrísins, vonandi gigga eitthvað og reyna að koma dómgæslunni almennilega í gang, en Marína er knattspyrnudómari á vegum KSÍ. Svo ætlar hún að sjá til hvort hún kíki ekki á Þjóðhátíð í fjórða skiptið í röð.
Við fengum Marínu til að segja okkur frá helginni sem er framundan en hún virðist hafa nóg á sinni könnu og stefnir allt í viðburðaríka og skemmtilega helgi.
Tónleikar á tónleika ofan
„Á föstudeginum mæti ég líklegast á kóræfingu um morguninn hjá Barnakór Grunnskólans í Sandgerði, en þar er ég undirleikari og stutt í tónleika. Eftir hádegi verður ekið í bæinn en hljómsveitin mín, Hydrophobic Starfish er að fara í upptökur fyrir Skúrinn á Rás 2. Eftir það förum við beint í sándtékk á Faktorý fyrir tónleika kvöldsins. Að loknu sándtékki sæki ég kærastann sem kemur að norðan og við förum út að borða eða eitthvað álíka skemmtilegt.“ Klukkan 22:00 hefjast svo tónleikarnir á Faktorý en aðrar hljómsveitir sem koma fram verða Hellvar og Who Knew og er aðgangur ókeypis.
Burtfarartónleikar í Stapa
„Ég geri sterklega ráð fyrir að sofa aðeins út á laugardeginum, og svo mæti ég í Stapann uppúr kl.13 á lokaæfingu og sándtékk. Kl. 16 hefjast svo burtfarartónleikarnir mínir í jazzsöng í Stapa en þar er aðgangur ókeypis, fjölbreytt efnisskrá og allir velkomnir. Aðeins seinna um kvöldið er svo gigg með Konfektstúlkunum mínum. Þess utan er allt óráðið. Það fer algerlega eftir spennufalli hvort við förum út að borða eða pöntum bara pizzu. Maður verður að minnsta kosti umvafinn ættingjum og vinum svo hvað sem gerist verður bara skemmtilegt.“
Skelli mér líklega á völlinn
„Á sunnudeginum ætla ég að slökkva á vekjaraklukkunni og klára spennufallið. Ég held að sunndagur verði dagur slökunar og lærdóms, en það er aldrei að vita nema ég hefji undirbúning að jazzsöguprófi sem verður eftir helgina. Svo rennir ég líklegast í bæinn með mömmu og horfi á KR-Keflavík í fótboltanum. Inn á milli lærdóms og leti ætla ég að æfa mig enda allt morandi í tónleikum og skólaslitum mjög fljótlega,“ segir Marína Ósk að lokum.
Mynd: Freydís Heiðarsdóttir
[email protected]