Helgin mín: Fimmtugur Kjartan í Eurovision-partý og slökun
Kjartan Már Kjartansson framkvæamdastjóri Securitas á Reykjanesi og fyrrum skólastjóri Tónlistarskólans í Keflavík er fimmtugur í dag. Kjartan ætlar í tilefni dagsins að fara út að borða í hádeginu með sínum allra nánustu á Vox á Hilton Hóteli. Um kvöldið mun hann svo fara í árlegt Eurovision-party en venja hefur myndast hjá vinum Kjartans að hittast og lyfta sér upp þegar Eurovisoin ber að garði. Aðallega segir hann þar vera góða ástæðu til að fá sér aðeins í glas og gleðjast með góðum vinum.
Sem fyrrverandi skólastjóri tónlistarskólans getur blaðamaður ekki annað en að spurt hvernig honum finnist tónlistin vera í keppni sem þessari.
„Hún er nú ekki uppá marga fiska verð ég að segja, það er aðallega gaman að fylgjast með sýningunni sjálfri og í raun öllum slæmu lögunum. Það eru alltaf 2-3 góð lög en hin eru oftar en ekki frekar hlægileg,“ segir Kjartan.
Þegar við spurðum Kjartan að því hvernig honum liði á þessum tímamótum þá gat hann ekki sagt annað en hann væri fyrst og fremst þakklátur.
„Maður er bara þakklátur fyrir að maður sjálfur og allir manns nánustu séu við góða heilsu. Það er í raun það eina sem ég hef velt sérstaklega fyrir mér á þessum tímamótum“.
Á sunnudeginum ætlar Kjartan líklega að slaka bara á og leika kannski við dóttursoninn Kristófer Orra á meðan frúin fer til Bandaríkjanna en hún starfar sem flugfreyja. Nú stendur yfir undirbúningur fyrir útskrift yngstu dótturinnar Lovísu en hún mun útskrifast úr Fjölbrautaskóla Suðurnesja um næstu helgi og þá verður heljarinnar veisla.
Kjartan segir veislu í tilefni afmælis síns í raun óþarfa þar sem allt sama fólkið muni koma í veisluna hjá dótturinni.