Helgin mín „Breakfast Club í London“
Bryndís Hjálmarsdóttir er 23 ára Keflvíkingur sem flutti til London fyrir tæpum tveimur og hálfu ári til að fara í háskólanám og mun ljúka sameiginlegri gráðu í Markaðsfræði og Almannatengslum núna í vor. Ásamt náminu vinnur hún á hefðbundum enskum bar þar sem að fastagestir krydda tilveruna að hennar sögn. Hún býr í mjög fínu hverfi sem hún segir nánast eins og lítið þorp innan stóru borgarinnar. Þess á milli að vinna og læra er hún svo að reka vefsíðu sem einblínir á lífið í London sem heitir www.theladiestoilet.com. Hún byrjaði með vefsíðuna í haust ásamt vinkonu sinni frá Kanada en síðan er hugsuð sem afþreyingarvefsíða fyrir stelpur sem flytja til London og vilja vita hvert þær geta farið til að sjá góða tónleika, kynna þeim fyrir nýjum hönnuðum og hitt og þetta tengt London. Þær setja inn nýjar greinar daglega og reyna að fara í hverri viku að taka myndir af hinum og þessum viðburðum og segja frá þeim. „Síðan hefur gengið ofsalega vel og erum við eins og er að undirbúa tónleika sem við ætlum að halda með nokkrum hljómsveitum sem við höfum kynnst í gegnum vefsíðustarfið og litist mjög vel á,“ segir Bryndís.
Helgin mín
„Þessi helgi verður frekar róleg hjá mér þar sem ég er búin að vera í stanslausum fögnuðum síðustu vikur sem var toppuð með ferð til Dublin þar sem ég smakkaði besta Guinness sem ég hef nokkurn tíman fengið. Á fimmtudaginn er ég að fara með Laurie sem sér um vefsíðuna með mér að taka myndir af Escapists, sem er ein af hljómsveitunum sem spila á tónleikunum okkar, og hugsanlega skoða hinar hljómsveitirnar sem verða að spila.“
„Föstudagurinn verður voða rólegur ég ætla að hitta einn af strákunum sem ég bjó með í fyrra þar sem við höfum ekki hist í langan tíma og ég geri ráð fyrir það verði drukknir nokkrir bjórar og hlegið gífurlega mikið.“
„Á laugardaginn ætla ég að byrja daginn í morgunmat með nokkrum vinum sem ég bjó með í fyrra. Ég bjó á stúdentagörðum svo þetta eru krakkarnir sem ég borðaði alltaf morgunmat með svo í tilefni þess að við búum á sitthvorum staðnum þetta árið ætlum við að hittast í morgunmat á stað sem heitir The Breakfast Club. Eftir morgunmatinn fer svo dagurinn í að flytja í herbergi fyrir ofan pöbbinn minn sem verður frekar þægilegt þar sem ég mun ekki lengur þurfa að ferðast fram og til baka. Um kvöldið er ég svo að vinna og á laugardagskvöldum er yfirleitt mikið stuð og staðurinn fyllist af fólki á þrítugsaldri og nánast undantekningalaust fæ ég spurninguna „Where are you from?“ sem er fylgt fast á eftir með spurningum um Ísland og hvað ég sé að gera í London. Lang flestum finnst mjög merkilegt að hitta Íslending og mjög sjaldgjæft að einhver minnist á eldgosið eða bankahrunið á neikvæðan hátt.“
„Á sunnudaginn byrja ég snemma í vinnunni því við fáum mjög mikið af fólki sem kemur í hádegismat í hefðbundna Sunnudags steik (Sunday Roast). Um kvöldið er svo hefðbundið 80´s vídeókvöld með Laurie og Charlie vinum mínum. Síðasta sunnudag eldaði Charlie hakk og spagettí og við horfðum á The Lost Boys svo það er komið að mér að elda og ég ætla að búa til plokkfisk handa þeim en myndin hefur ekki verið valin ennþá.“
mynd: Bryndís vinstra megin ásamt vinkonu sinni í London