Helgin mín: „Árshátíð, Morfís og Revía“
Arnar Már Eyfells er 17 ára strákur sem stundar nám við Fjölbrautarskóla Suðurnesja þar sem hann er á Félagsfræðibraut. Hann fluttist til Reykjanesbæjar í góðærinu ásamt fjölskyldu sinni en áður höfðu þau búið í Reykjavík. Arnar segist þó vera orðinn stoltur Keflvíkingur og elskar að vera virkur þegn í samfélaginu í Reykjanesbæ. Arnar er mjög virkur í félagslífi FS sem hann segir virkilega skemmtilegt fyrirbæri. Arnar tók m.a þátt í Hljóðnemanum í febrúar síðastliðnum þar sem hann flutti frumsamið lag sitt „Aldrei á sama stað“ og hafnaði í þriðja sæti. Hann hefur ásamt félögum sínum, Viktori Guðnasyni og Þorvarði Ólafssyni verið að semja tónlist og einnig texta við ýmis lög. Hans helstu áhugamál eru fyrst og fremst leiklist, söngur, módelstörf, fallegt kvenfólk og síðast en ekki síst Morfís keppnin þar sem framhaldskólar landsins etja kappi í ræðumennsku.
Arnar bregður á leik í Morfís ræðukeppninni
Arnar hefur tekið þátt í Morfís fyrir hönd skólans og verið hluti af Hnísunni, sem er skemmtilegur sjónvarpsþáttur nemendafélagsins. Arnar var einnig í stjórn nemendafélagsins en segist hafa þurft að segja af sér sökum skipulagsleysis. Annars telur hann félagslífið í skólanum öflugt þó það vanti kannski uppá þátttöku sumra aðila innan skólans. Í nánustu framtíð ætlar Arnar Már sér að klára stúdentsprófið og í framhaldinu stefnir hann á leiklistarnám. Ef leiklistardraumurinn gengur ekki þá ætlar hann að finna sér vettvang þar sem hann getur rifist og fengið borgað fyrir það í leiðinni, þar er hann að tala um lögfræði. Í sumar stefnir Arnar á að vinna af sér afturendann í versluninni Zara í Smáralind en hann vonast einnig til að komast að sem flokkstjóri í 88 húsinu en þar hefur hann starfað áður. Að sjálfsögðu ætlar Arnar svo ekki að láta sig vanta á Þjóðhátíð í Eyjum. Við fengum Arnar til að segja okkur frá helginni sem er að renna í hlað og hvað sé á döfinni hjá honum.
Arnar við módelstörf
„Geðveikin hefst í Reykjavík þar sem að ég ætla að sækja Morfískeppni Verzlunarskóla Íslands og Menntaskólans í Reykjavík. Von er á alveg hreint út sagt svakalegum viðburði þar sem þessir skólar eru jú alveg hreint út sagt magnaðir þegar það kemur að ræðukeppnum. Svo verður bara haldið til Keflavíkur og skálað,“ segir Arnar Már áætlunina vera á föstudeginum.
Árshátíð á laugardeginum
„Ég hef laugardaginn með því að skella mér í ræktina og fer svo að vinna í Reykjavík. Seinna um kvöldið er árshátíð Haga þar sem maður tekur létt tjútt með vinnufélögunum. Svona í tilefni góðs árangurs hingað til í starfi,“ en Arnar starfar í Zara í Smáralind með skólanum.
Hljóðmaður í Revíunni
„Á sunnudaginn er það bara að vakna snemma og skottast aftur hingað til Keflavíkur til þess að annast hljóðið í nýju Revíunni hjá Leikfélagi Keflavíkur, þar sem leikfélagsmeðlimir fara gjörsamlega á kostum í stórglæsilegri kreppusýningu.
Við þekkjum nú flest öll til persónanna sem fjallað er um í revíunni þannig að þetta ætti að kitla hláturtaugarnar hjá flestum,“ segir Arnar en þar er hann að tala um leiksýninguna Bærinn bræðir úr sér í leikstjórn Helgu Brögu Jónsdóttur. Arnar ætlar sér svo að enda helgina á máltíð með fjölskyldunni og sofna snemma eftir annasama helgi.
Mynd efst: Arnar tók þátt í Hljóðnemanum þar sem hann hafnaði í þriðja sæti með frumsamið lag
[email protected]