Helgin mín: Á leið til Noregs að hitta góðan vin
Stefán Arinbjarnarson er frístunda- og menningarfulltrúi Sveitarfélagsins Voga.
Það lítur út fyrir að helgin verði óvenju viðburðarík því stefnt er að því að leggja land undir fót.
Ég mun ekki sjá mikið af konu og börnum um helgina þar sem þau eru að fara í sumarbústað með ættingjum. Ég verð fjarri góðu gamni að þessu sinni því förinni er heitið til Noregs á laugardaginn. Ætlunin er að heimsækja góðan vin sem hefur búið í Noregi í 11 ár. Það er skömm frá því að segja en þetta er í fyrsta skipti sem ég kíki á hann síðan hann fór út. Hann trúir því varla enn að ég sé að koma og ég er jafnvel efins um að hann sæki mig á flugvöllinn. Að lokinni vinnu á föstudaginn hraða ég mér heim og geri allt klárt fyrir ferðalagið.
Ég þarf m.a. að pakka niður útivistarfatnaði því stefnan er að kynnast norsku fjallalofti. Á föstudagskvöldið fer ég snemma í háttinn því ég þarf að vakna snemma á laugardagsmorgun til að taka flugrútuna út á Leifsstöð. Síðan verður flogið til Oslóar þar sem umræddur vinur verður vonandi mættur til að taka á móti mér. Af flugvellinum er stefnan sett upp til fjalla þar sem við heimsækjum norskan fjallabónda. Hann á víst jörð þar upp til fjalla og við getum gert ýmislegt skemmtilegt þar. Ætlunin er m.a. að veiða, njóta náttúru og góðra samvista. Við gistum síðan hjá Norðmanninum en á sunnudeginum förum við heim til vinar míns. Hann býr í smábæ sem heitir Helgeroa og er við Oslofjörð. Þar hitti ég konu og dætur vinar míns og verð þar í góðu yfirlæti út vikuna og kem heim aftur laugardaginn 24. september.
Stefán hefur ekki tekið sér mikið frí í sumar og því verður þetta kærkomin afslöppunar- og ævintýraferð.
Eini gallinn er að ég mun missa af stórleik minna manna, Manchester United, gegn Chelsea um helgina. Hef reyndar ekki stórar áhyggjur þar sem ég geri kröfu um þrjú stig úr þeim leik eins og öðrum.