Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Helgin mín- „Styrktarleikurinn vonandi árviss viðburður“
Föstudagur 11. mars 2011 kl. 11:59

Helgin mín- „Styrktarleikurinn vonandi árviss viðburður“


Nú í kvöld fer fram sérstakur styrktaleikur fyrir Birki Alfons 15 ára gamlan Keflvíking sem greindist nýverið með bráðahvítblæði. Birkir Alfons hefur æft körfubolta og fótbolta hjá félaginu auk þess að vera harður stuðningsmaður Keflavíkur í báðum greinum. Vilja liðin sýna Birki Alfons stuðning í verki og láta gott af sér leiða með þessum leik. Sævar Sævarsson er einn af þeim sem kemur að undirbúningi leiksins og fengum við hann í létt spjall um aðdraganda leiksins og hvernig hann sjálfur hyggst verja helginni.

„Ég kem að undirbúningi leiksins ásamt Haraldi Frey Guðmundssyni, vini mínum, fyrrverandi landsliðsmanni í fótbolta og núverandi landsliðsmanni í fútsal. Hann hefur séð um þetta að miklu leyti auk þess sem ýmsir fleiri leggja þessu lið,“ sagði Sævar aðspurður um aðdraganda leiksins.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

„Haraldur hafði samband við mig eftir að Jóhann Guðmundsson, mágur minn og fyrrverandi landsliðsmaður í fótbolta og aldursforseti Keflavíkurliðsins, hafði komið með þessa hugmynd á einni æfingunni. Sannaði hann þar hið fornkveðna að margur er knár þótt hans sé gamall. Birkir Alfons hefur bæði æft körfubolta og fótbolta með Keflavík ásamt því að vera harður stuðningsmaður félagsins og því fannst okkur tilvalið að sýna honum að hugur leikmanna Keflavíkur er bæði hjá honum og fjölskyldu hans á þessum erfiðu tímum. Þessi drengur er algjör hetja og vona ég að sem flestir láti sjá sig á leiknum til að styðja þennan unga baráttujaxl.“ sagði Sævar.

Fór ekki vel með sjálfstraust fótboltaliðsins

Þessi leikur hefur aldrei farið fram með þessum hætti áður. Hinsvegar áttu leikmenn beggja þessara liða það til að taka einn körfuboltaleik og einn fótboltaleik á móti hvorum öðrum. Slíkir leikir hafa þó ekki farið fram í nokkurn tíma og telur Sævar að þjálfarar fótboltaliðsins hafi ekki þótt þetta gefa góða raun þar sem sjálfstraust fótboltaliðsins var oftar en ekki í molum eftir leikina og erfitt að byggja það upp aftur.

Þetta er í fyrsta skipti sem um fjáröflunarleik er að ræða en ef þessi leikur gefur góða raun og fólk fjölmennir er líklegt að þetta verði gert að árlegum viðburði. Fyrir einhverjum árum hafði þó farið fram leikur þar sem safnað var fyrir fjölskyldu Magnúsar Gunnarssonar er eldvoði hafði orðið heimili fjölskyldunnar að bráð.

Sævar stundar þessa dagana meistaranám í lögfræði við Háskólann í Reykjavík.
Hann er í sambúð með Hildi Maríu Magnúsdóttur og á með henni tvö börn, Gabríel Aron Sævarsson 5 ára og Heiðrúnu Lind Sævarsdóttur, 14 mánaða. Hann segist í raun aðeins vera að bíða eftir tilkynningu um ríflegan heimamund frá tengdaforeldrunum, þá muni hann skella sér á skeljarnar.


Sævar hætti sjálfur að leika körfubolta í nóvember 2009. „Þá hafði ég nýverið skipt aftur í Keflavík þar sem ég hafði setið á varamannabekknum frá árinu 2000 til 2005. Ég hafði spilað í 1. deildinni með Breiðablik auk eins tímabils með Njarðvík í úrvalsdeild, en menn tala enn um það sem eitt albesta lið Njarðvíkur frá upphafi. Þar sem lítil not voru hinsvegar fyrir mig í Keflavík, þrátt fyrir að ég væri langbesti maður liðsins, ákvað ég að leggja skóna á hilluna“. Nú er Sævar kominn í stjórn körfunnar þar sem hann ætlar að ná völdum sem fyrst svo hann geti uppfyllt draum sinn um að verða allt í senn, spilandi þjálfari og formaður.

Sævar situr ekki á skoðunum sínum þegar hann er spurður út í þá leikmenn sem skara munu fram úr í leiknum í kvöld.
„Fótboltaleikurinn fer væntanlega 4-4 og því taka bæði lið 20 stig inn í körfuboltaleikinn. Þar verður um algjöra einstefnu að ræða að hálfu körfunnar, sem sigrar að lokum 60-30. Fótboltaliðið hefur keypt einhvern huldumann í liðið hjá sér en það skiptir ekki máli þó Derrick Rose sjálfur mæti, þeir eiga ekki möguleika. Ég vil benda fólki sérstaklega á að fylgjast vel með Jóni Norðdal Hafsteinssyni í fótboltanum en tækni hans og marksækni er á heimsmælikvarða. Þá er mjög líklegt að Gunnar Stefánsson setji eitt utanfótar í vinkilinn. Sé ekki margar stjörnur í fótboltanum. Þó Jóhann Guðmundsson hafi hlotið stífa þjálfun frá syni sínum Davíð Snæ, á hann enn langt í land með að verða eins góður og strákurinn. Hef trú á því að Haraldur Guðmundsson muni valda vonbrigðum og ættu þeir frekar að fá systur hans til að spila. Einu stig fótboltans munu koma frá Guðmundi Steinarssyni en sjálfstraust hans er í botni eftir að hafa rústað Njarðvíkingnum Jóhanni Árna Ólafssyni í þriggjastiga keppni fyrir nokkru.“


Einstæður faðir um helgina

„Á föstudaginn er ég í skólanum. Eftir skóla mun ég fara í ræktina og lyfta. Mun að sjálfsögðu mæta á styrktarleikinn milli körfunnar og fótboltans um kvöldið. Eftir leikinn á ég von á því að gera eitthvað skemmtilegt með börnunum mínum en ég er „einstæður faðir“ fram á sunnudag því konan er erlendis. Ég nýt þó dyggrar aðstoðar móður minnar og föðurs þann tíma og því er óþarfi að hafa samband við barnaverndarnefnd“.

Laugardagur:
„Það er svo sem ekkert planað fyrir laugardaginn annað en lærdómur og lyftingar. Ég reikna þó með því að skella mér í bíó með syni mínum um daginn. Þar sem um nammidag er að ræða mun ég háma í mig nammi, a la Þ kúrinn.“

Sunnudagur:
„Konan kemur heim frá New York á sunnudag. Ég mun því eyða mestum tíma í að skoða það sem hún kaupir handa mér. Ætli maður þurfi ekki að læra þennan dag eins og aðra auk þess að rífa í járnin. Ég er ekki hrifinn af því að taka mikið frí frá lyftingum og lyfti því á sunnudögum líka. Ég á svo von á því að móðir mín bjóði mér í sunnudagssteik um kvöldið til að fullkomna helgina.“

Leikurinn hefst klukkan 19:30 í Toyota höllinni við Sunnubraut í kvöld. Verð á leikinn er 1000 kr. fyrir fullorðna og 500 kr. fyrir börn yngri en 16 ára. Þeir sem vilja styrkja Birki Alfons og fjölskyldu hans enn frekar geta einnig lagt inn á reikning nr. 537-26-270396 kt. 270396-3139.

Hægt er að kaupa eitt sæti í hvoru liði og hlýtur sá sem hæst býður það sæti. Þeir sem hafa áhuga á slíku geta haft samband við Harald Frey Guðmundsson í síma 661-9391 eða Sævar Sævarsson í síma 869-1926.


EJS